17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

23. mál, tilbúinn áburður

Bjarni Ásgeirsson:

Það er aðeins ein af þeim brtt., sem hér liggja fyrir, sem ég vildi segja um nokkur orð, og er það brtt. á þskj. 115, frá hv. 6. þm. Reykv. og 11. landsk. Till. fjallar um að gerbreyta verzluninni frá því, sem nú er. Vilja þeir færa hana í hendur einstaklinga, eða eins og það heitir á þeirra máli: gera hana frjálsa. Ef brtt. væri samþ., álít ég, að það væri stórt spor í öfuga átt og á móti þeirri þróun sem annarsstaðar á sér stað í verzlun þessari. Hv. þm. ætti að vera ljóst, að framleiðsla og sala þessarar vöru er komin undir einn hring, sem hefir aðsetur í Basel og afgreiðir ekki pantanir beint nema til stærstu heildsölufirma. En við höfum vegna þess skipulags, sem á verzluninni hjá okkur hefir verið, komizt í bein viðskiptasambönd, með eins hagkvæmum kjörum og þær þjóðir, sem eru mörgum sinnum stærri. Ef þessu væri breytt og Pétur og Páll færu að kaupa vörurnar í smáslöttum, mundi ekki verða litið við þeim pöntunum, en vísað til umboðsmanna hringsins á Norðurlöndum, sem vitanlega legðu sitt umboðsgjald á þær, og allt mundi þannig sækja í sama horfið og áður var. Vegna þess að sala áburðarins er öll á einni hendi, hefir forstjórum verzlunarinnar einnig tekizt að fá mjög hagkvæma flutningasamninga, þar sem áburðurinn er fluttur fyrir sama gjald á allar smáhafnir landsins, sem skip Eimskipafélags Íslands koma á. Ég er því sannfærður um, að sá litli styrkur, sem landbn. mælir með, mundi miklu meir en etast upp með dýrari flutningum og óhagstæðari verzlunarsamböndum. Ég legg því eindregið til, að brtt. verði felld.