17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (650)

23. mál, tilbúinn áburður

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég skal ekki verða mjög langorður. - Hæstv. fjmrh. vitnaði í það, að útgjöld ríkissjóðs 1933 vegna áburðareinkasölunnar hefðu verið 42 þús. kr. Er það náttúrlega þægilegt að vitna í landsreikning, sem ókominn er út, og ég verð að játa það, að ég treysti ekki hæstv. ráðh. betur en svo, að ég get vel hugsað mér, að auk framlags ríkissjóðs hafi verið gengið á innstæðu þá, sem ríkið hefir jafnan átt í áburðareinkasölunni frá ári til árs.

Hæstv. ráðh. hefir ekki svarað því, hvort álagningin var hærri 1933 en undanfarið ár, en hafi álagningin verið jafnhá, eins og ég held fram að verið hafi, er ekki hægt að álasa stj., því að til hennar hefir ekki verið leitað, nema þegar um breytingar á álagningu hefir verið að ræða eða eitthvað sérstakt komið fyrir, sem hafði aukinn kostnað í för með sér. Hefi ég orð hlutaðeigandi ráðh. fyrir því, að ekkert hafi verið borið undir ráðuneytið viðvíkjandi álagningunni.

Nái brtt. hv. 2. þm. Reykv. fram að ganga, eins og helzt lítur út fyrir að verði, verður heildartillag ríkisins bundið við 40 þús. kr., en það þýðir, að styrkurinn nær því ekki að verða 20 kr. á tonn, miðað við innflutninginn 1933 og eins og út lítur fyrir, að hann verði í ár. vil ég benda á það, að árið 1929 nam styrkurinn 39 kr. á tonnið, 1930 nam hann 37 kr. á tonn, 1931 24 kr. og 1932 kr. 33,60 á tonnið. Miðað við venjulegt innflutningsmagn er hér því um helmings lækkun á styrknum að ræða frá því, sem verið hefir. Sama gegnir um till. n. Og svo er hæstv. ráðh. að belgja sig út með það, að hér sé aðeins verið að lögleiða praksis undanfarinna ára. Till. n. ganga út á það að ákveða styrkinn 20 kr. á tonnið, en praksisin hefir stundum gefið jafnvel tvöfalt það tillag. Dálaglegt að tarna, að lögfesta styrkinn fyrir neðan það, sem hann hefir verið, þegar hann var minnstur.

Ég sé, að hæstv. forseti er orðinn órólegur, en hann verður að sjá í gegnum fingur með mér, því að ég tala hér einn af hálfu Bændafl. - Ég vil að lokum benda hæstv. ráðh. á það, að ef hann vill eigna Bændafl. ráðstafanir stj. í þessum efnum 1933, er hann þar með að eigna Bændafl. heiðurinn af því að hafa borgað allt að helmingi meiri styrk en hann vill sjálfur borga.