17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í B-deild Alþingistíðinda. (651)

23. mál, tilbúinn áburður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Það er nú orðið helzt til varnar hjá hv. þm. V.-Húnv., að styrkurinn 1933 hafi ekki verið meiri en raun varð á af því, að ráðh. hafi ekki verið minntur á, að hann réði því, hver álagningin var hjá einkasölunni. Ef þessi ráðh. hefir ekki verið hefur vakandi fyrir að útvega bændum þessi fríðindi, sem honum var heimilt að veita, en ljóst verður af þessu, held ég, að sízt sitji á honum að tala um þá sérstöku árvekni, sem hann jafnan hafi sýnt um málstað bændanna. En það hefir verið viðurkennt í þessum umr. og hnippingum, sem orðið hafa hér milli manna, að einmitt það árið, sem form. Bændafl. fór með landbúnaðarmálin, var minnstur styrkur greiddur á hvert áburðartonn. (Rödd: Hann var þá framsóknarmaður). Það er satt að vísu, en honum bar sama skylda til að bera hag bændanna fyrir brjósti, og ekki síður, vil ég segja. -

Hv. þm. V.-Húnv. vildi vefengja þær tölur, sem ég nefndi viðvíkjandi áburðarverzluninni árið 1933, að þær væru réttar og blekkingarlaust fluttar. Vil ég upplýsa það, að samkv. reikningum áburðareinkasölunnar 1933 nam tillag ríkissjóðs 42500 kr., án þess að gengið væri á innstæðu ríkisins í verzluninni eða tekið úr sjóði fyrri ára. Innflutningurinn var þetta ár 2340 tonn, svo að þetta verður 19 kr. á tonnin. Það, sem farið er fram á, er því að lögfesta það ástand, sem verið hefir og ákveðið í framkvæmd af sjálfum form. Bændafl. Og ég skal bæta því við, að ég tel ekki, að form. Bændafl. sé ámælisverður fyrir þetta. Ég álít, að ekki hafi verið hægt að láta meira eins og hag landsins var þá komið. Munurinn er aðeins sá, að þá bar Bændafl. ábyrgðina, en nú ber hann hana ekki, auk þess sem flokkurinn er í þörf fyrir efni í blað sitt. Þessar miklu umr., sem orðið hafa um þetta mál, eru að vísu leiðinlegar, en á það er að líta, að þetta er í fyrsta skiptið, að Bændafl. er með yfirboð sem þessi, svo að rétt var að taka principin, sem á bak við liggja, til athugunar. Það er vitanlegt, að þetta verður og ekki í eina skiptið, sem Bændafl. fer með slík yfirboð. Það er með Bændafl. og Framsfl. eins og kommúnista og Alþfl. Þegar Alþfl. býður 1 kr., koma kommúnistar og bjóða 1,20 kr. Þegar við gerum till. um 20 kr. tillag, koma Bændaflokksmenn og segja, að við séum að svíkja, þeir skuli láta miklu meira. (SH: Þeir hafa gengið í góðan skóla). Ég vil benda hv. 6. þm. Reykv. á það, að það situr illa á flokki hans að vera með yfirlýsingar um 2 millj. kr. niðurskurð á útgjöldunum og neitun á öllum sköttum, en samþ. svo hverja hækkunartill. á fætur annari.