17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

23. mál, tilbúinn áburður

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. leggur mikla alúð við að sanna, að tilhögun hans á frv. sé byggð á því að lögfesta þá framkvæmd, sem var á þessum málum árið 1933, sem hann heldur fram, að þáv. ráðh. hafi veitt minna úr ríkissjóði en nokkurntíma fyrr. Nú verður hann að taka það með, þegar hann er að tala um, að minna hafi verið veitt úr ríkissjóði en áður, að þetta ár var 1/3 minna flutt inn í landið af áburði en árið 1931, svo það er þá ekki undarlegt, þó að heildarfjárveitingin verði minni það árið heldur en árið 1931. Ég vil líka benda honum á, að það að tillagið úr ríkissjóði árið 1933 varð ekki meira en 20 kr. á tonn, stafaði m. a. af því, að það ár var gengisgróði fyrir áburðarverzlunina, en árið 1931 var aftur á móti gengistap, og það allverulegt. Þetta hefir áhrif á það, hvort upphæðin fer lækkandi eða hækkandi, þegar miðað er við hvert tonn út af fyrir sig. Ég vil líka benda á, að það hefir haft áhrif á, að þessi styrkur varð minni á hvert tonn en undanfarið, að áburðarverzlunin mun hafa fengið hagkvæmari samninga um flutningsgjöld þá en nokkru sinni áður. Það er full ástæða til að taka þetta með, þegar verið er að ræða þetta frv. Þó að það sé heimilt að greiða þennan flutningskostnað til landsins „allt að“ 20 kr. á tonn, þá er engin vissa fyrir því, að viðkomandi ráðh. telji sér skylt að greiða þessa upphæð, vegna þess, að ef hann fengi tonnið flutt fyrir 15 kr., mundi hann ekki greiða úr ríkissjóði nema 15 kr. á tonn, og þess vegna mundi þessi styrkur fara lækkandi, jafnvel þó að miðað sé við árið 1933, þegar kostnaðurinn varð tiltölulega lægri en áður af þessum ástæðum, sem ég hefi til fært: gengisgróðanum og hagkvæmum flutningi. Ég vona því, að hæstv. fjmrh. viðurkenni, að með þessu frv. sé hann að gera tilraun til að draga úr styrkveitingu úr ríkissjóði til þessarar starfsemi. Ef hæstv. ráðh. vill halda áfram að vitna í árið 1937, þá verður hann líka að taka með í reikninginn, að álagningin 1933 var ekki hærri en árin l931 og 1932, og ef hann vill ásaka landbúnaðarráðh., sem var 1933, þá verður hann líka að ásaka landbúnaðarráðh. 1931, sem var Sigurður Kristinsson, forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga. Það er ekki hægt að segja, að hér sé um sök eins ákveðins flokks að ræða. Þeir, sem hafa framkvæmt þessi lög síðan þau komu í gildi, hafa ekki fullnægt ákvæðum þeirra, þ. e. a. s. ekki út í það ýtrasta, enda aðeins um heimild að ræða, og þess vegna ekki um brot á ákvæðum l. sjálfra, og hæstv. fjmrh. gæti vel tekið við þessari heimild og greitt samkv. henni, ef ástæður ríkissjóðs leyfa. En ef þær leyfa ekki, þá gæti hann farið í spor fyrirrennara síns og dregið úr þessu framlagi eftir því, sem hann teldi þörf. Því verður ekki á móti mælt, að það er dregið úr heimildarákvæðum ráðh. með þessu frv., en ég vil, að heimilað sé að greiða sömu upphæð eins og núgildandi lög heimila.

Ég sé, að hæstv. forseti er orðinn órólegur, enda býst ég við, að hæstv. fjmrh. geti ekki komizt út af þeirri staðreynd, að hér er um að ræða að takmarka meira en verið hefir heimild ráðh. til fjárframlaga úr ríkissjóði í þágu áburðarverzlunarinnar.