17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

23. mál, tilbúinn áburður

0664Bjarni Ásgeirsson:

Hv. 6. þm. Reykv. var að senda mér kveðju sína áðan, og langar mig til að kvitta lítillega fyrir. Þessi hv. þm. er mjög mikið á móti allri einkasölu og þesskonar réttindum ríkinu til handa. En hann virðist vilja hafa einkarétt sér til handa, - einkarétt til þess að „spila sérfræðing“, eins og hann orðar það, bæði í landbúnaðarmálum og verzlunarmálum, og af því að fleiri vildu tala, og þar á meðal ég, þá réðst hann á mig með fúkyrðum. Nú spilar hann líka sérfræðing í verzlunarmálum landbúnaðarins, og af því að ég vildi tala þar líka, þá fannst honum gengið á sérréttindi sín í þessu máli.

Ég hefi lítil kynni haft af þessum hv. þm., en hinsvegar heyrt aðra tala um hann, og ég hefi aðeins heyrt eitt talið honum til gildis, það, að hann væri vel að sér í íslenzku, m. a. skrifaði fallegt mál. Mætti því búast við, að hann væri einna næst því að vera sérfræðingur í þeirri grein en þó ferst honum ekki betur í því efni en það, að hann skilur ekki orðið „þróun“, a. m. k. ef hann hefir skilið það, þá hefir hann lagt allan sinn skilning í að snúa út úr því. Þróun er ekki annað en breyting, sem bæði getur orðið til góðs og ills. Þess vegna er talað um framþróun, að þróunin getur bæði orðið til góðs og ills. Það er talað um sögulega þróun, og það er talað um þróun í dýraríkinu, en það er engu hægt að slá föstu um, að sú þróun sé ætíð fram á við. Það má segja, að það sé stjórnmálaleg þróun hér á landi, sem hefir orðið þess valdandi, að kjördæmaskipunin og kosningalögin til Alþingis breyttust þannig, að þessi maður eftir langa mæðu komst inn á þing. En ég fyrir mitt leyti vil ekki viðurkenna, að það sé nein framþróun, þó að ég hinsvegar vilji ekki heimfæra það undir það, sem dr. Helgi Péturss kallar hina helvízku þróun.

Sú þróun, sem orðið hefir í verzlunarháttum þjóðarinnar, stafar af þeim straumhvörfum, sem orðið hafa í verzlunarmálum heimsins undanfarin ár og leitt hefir til þess, að grípa varð til opinberra ráðstafana, sem mörgum þótti allt annað en æskilegt. En þetta er staðreynd, og ég hefi bent þessum hv. þm. á, að ýmsir flokksmenn hans hafa beygt sig undir þessa þróun í verzlunarmálum, og þeir hafa flúið til ríkisvaldsins um aðstoð í ýmsum greinum, t. d. með saltfiskútflutninginn og síldarútflutninginn, sem blöð þessa hv. þm. hafa lagt blessun sína yfir. En þetta minntist hv. þm. ekki á, en fór í þess stað að fimbulfamba um síldareinkasöluna sálugu. Það er alveg ómótmælt af þessum hv. þm., að sú þróun, sem orðið hefir í þessu áburðarmáli í heiminum, gerir það nauðsynlegt að grípa til þeirra ráða að taka einkasölu á þessari vöru, til þess að ná henni frá fyrstu hendi og njóta þeirra hlunninda, sem af því leiðir að get, verzlað þannig.

Það var svo, að áður en tekin var upp einkasala á þessari vöru, var margreynt að komast í samband við höfuðmiðstöð þessarar framleiðslu, en það tókst ekki, af því að verzlunin var svo dreifð, og því svo lítið, sem hver einn hafði með höndum, að okkur var vísað til umboðsmanna hringsins á Norðurlöndum, og urðum við að sætta okkur við þá álagningu, sem hann vildi vera láta. Og nákvæmlega sama yrði, ef nú ætti að breyta í sama horf og áður.

Hv. þm. sagði, að ef um stór viðskipti væri að ræða, ætti eins að vera hægt að komast í beint samband við verksmiðjuna, þó verzlunin væri frjáls eins og í gegnum ríkisvaldið. Ég skal segja hv. þm. það, að það er fyrst og fremst alls ekki um stór viðskipti að ræða, þó við stæðum saman um alla áburðarverzlun. Við kaupum ekki meira af áburði en eitt amt í Danmörku kaupir. Ég er sannfærður um, að ekki hefði tekizt að ná þessu beina sambandi, ef ríkið hefði ekki tekið það í sínar hendur. En ef ætti að fara að skipta þessum viðskiptum í 10 til 20 staði, milli hinna og annara, þá yrði litið svo smáum augum á pantanir þessara manna, að þeim yrði vísað til umboðsmanna, sem afgreiddu smærri pantanir. Ennfremur vildi þessi hv. þm. vefengja, að það væri rétt hjá mér, að örðugra yrði að fá samninga við Eimskipafél. um að flytja áburðinn til landsins með jafngóðum kjörum og nú er. Ég skal ekki neita því, að það mundi verða mögulegt að fá svipuð kjör um flutning til aðalinnflutningshafnanna, en það er vafalaust, að ef mörgum mönnum er ætlað að panta nokkra poka hverjum, að þeir næðu ekki þeim samningum við Eimskipafél. að flytja áburðinn til allra smáhafna með sömu kjörum og nú. Það yrði því aðeins til þess að þyngja á þeim mönnum, sem þessi hv. þm. þykist bera fyrir brjósti, þeim mönnum, sem búa víðsvegar úti um land og hafa við meiri örðugleika að stríða hvað flutninga snertir en þeir, sem búa nálægt aðalhöfnunum. Þetta er að vísu ekki nema endurtekning á því, sem ég var búinn að segja, en ég fann ástæðu til þess að taka það fram aftur, þó að þessi hv. þm. virði að vísu ekki rök í neinu máli, heldur aðeins snúi út úr.

Út af því, sem hv. þm. sagði um álagninguna á áburðinn, að hún hefði verið um 18%, þá get ég upplýst það, að það er ekki nærri neinu lagi. Álagningin hefir að vísu orðið meiri en 2 til 3%, en aldrei komizt nærri því, sem hér um ræðir. Annars hefi ég ekki aflað mér glöggra talna um þetta, en get fullyrt þetta eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið um þetta mál.