17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

23. mál, tilbúinn áburður

Páll Zóphóníasson:

Það eru einstök atriði í þessu máli, sem ég vildi benda á. Ég vil þá fyrst benda á, að þegar einkasalan tók til starfa, lækkaði allur áburður hér á landi mjög mikið, frá 1/6 og niður í 1/3, eftir því hvaða tegundir það voru. Og síðan hefir verðið á áburðinum verið þannig, að það hefir alltaf staðizt samkeppni, miðað við heildsöluverð erlendis, og þess vegna er ég hissa á því að sjá brtt. á þskj. 115, um að afnema einkasöluna, sem er búin að gefa okkur eins mikinn hagnað og raun er á orðin.

Ef við athugum álagninguna á áburðinn, sem búið er að tala svo mikið um, þá liggur það greinalega fyrir á reikningum einkasölunnar.

Ef við tökum t. d. árið 1933 og miðum við útsöluverðið á áburðinum, þá var innkaupsverðið 82,30% af útsöluverðinu, flutningskostnaður 10,21%, uppskipun og húsaleiga 2,55% og innheimta og þess háttar 4,8%. Þetta er mjög svipað öll árin, sem einkasalan hefir starfað. Hefir innkaupsverðið komizt neðst ofan í 81,32% árið 1932, en hæst upp í 85,8% árið 1930. Hitt hefir farið í farmgjöld og annan kostnað. Öll þessi ár hafa farmgjöldin verið yfir 10%, nema árið 1931, þá fóru þau niður í 8%.

Þegar talað er um, að einkasalan hafi haft heimild til að leggja á áburðinn 3%, þá er eftir að vita, á hvað henni hefir verið ætlað að leggja. Ef hún hefir átt að leggja 3% á miðað við innkaupsverð erlendis, þá hefir verið lagt meira á. En eins og lögin hafa verið nú síðast, að ríkinu hefir verið heimilt að greiða allan kostnað á flutningi áburðarins til landsins og allan annað kostnað, þá er álagningin komin langt fram yfir 3%. Annarsvegar er heimild til þess að leggja á 3%, en hinsvegar er ætlazt til, að borgað sé meira, og reynslan hefir alltaf orðið sú, að meira hefir verið borgað.

Árið 1930 er álagningin á áburðinn 69860 kr. fram yfir ríkissjóðstillagið, er var þar að auki 60240 kr., árið 1931 er álagningin 70810 kr. fram yfir ríkissjóðstillagið, er var 53007 kr., árið 1932 er álagningin 40760 kr. fram yfir ríkissjóðstillagið, er var 74583 kr., og árið 1933 er álagningin 59119 kr. fram yfir ríkissjóðstillagið, er var 42533 kr.

Þetta hefir alltaf verið framkvæmt þannig, að þessi styrkheimild hefir aldrei verið notuð nema að nokkru leyti, og alltaf verið lagt meira á en 3%. Miðað við tonnatal af innfluttum áburði þá var:

1930 41 kr. álagning og 19 kr. styrkur

1931 :37 - - - 16 - -

1932 45 - - - 29 - -

1933 43 - - - 18 - -

1932 varð um 40000 kr. gengistap og því varð styrkurinn svo mikill það ár. Annars er 20 kr. styrkur á tonn hærri styrkur en verið hefir og hærri en bændavinurinn Þorst. Briem lét vera þá hann var ráðh.

Þá var hv. 6. þm. Reykv. að tala um, að hann í sinni till. hefði fastákveðið 1 kr. tillag á hver 100 kg. áburðar, sem flutt eru lengra en 30 km. inn í landið, og færði þau rök fyrir því, að þá væri hægt að sjá fyrir fram, hve mikil sú upphæð yrði, ef miðað væri við þyngdarmagn vörunnar. En ég vil segja þessum hv. þm. það, að það er aldrei hægt að segja fyrir fram, hve mikið muni verða flutt inn í landið af áburði, og því síður hve mikið af því, sem inn er flutt, verði flutt 30 km. inn í landið. Ef á að styrkja landflutning á áburði, þá væri langréttlátast að miða þann styrk við hvern km., sem áburðurinn er fluttur inn í landið, eins og var meðan sá styrkur var veittur.