17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (666)

23. mál, tilbúinn áburður

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Það eru aðeins fáein orð, og ég skal reyna að tala ekki þannig, að það gefi mikið tilefni til almennra pólitískra umr. Ég vil einungis taka það fram út af því, sem hv. þm. G.-K. sagði, að ég held, að það sé öðru nær en að það hafi verið öfugmæli hjá mér, þar sem ég gerði ráð fyrir því í minni ádeilu á Sjálfstfl., að hann myndi ekki verða meðmæltur frv., sem miðuðu að tekjuöflun stj. til handa. Þetta byggði ég fyrst og fremst á því, að frsm. Sjálfstfl. við 1. umr. fjárl. í byrjun þessa þings lýsti yfir því skýrt og skorinort, að svo myndi ekki verða. Ég hygg, að það muni allur þingheimur, að hv. 1. þm. Reykv. kvað flokkinn vilja taka upp þá stefnu að lækka útgjöldin, svo að ekki þyrfti nýja tekjuviðbót. Ég held, að þetta sé nákvæmlega rétt eftir haft hjá mér. En nú heyri ég af yfirlýsingu frá form. Sjálfstfl., að eitthvað er farið að hala í land í þessu efni, og býst hann við, að flokkurinn muni gera till. um einhvern tekjuauka. Vænti ég þess, að þegar að því kemur, minnist hv. þm. G.-K. þess m. a., að hann hefir heitið stuðningi sínum töluverðri útgjaldaaukningu hér á einum lið, er ég hygg, að muni nema nokkrum tugum þúsunda.

Viðvíkjandi öðrum atriðum hér í umr. ætla ég ekki að vera margorður. Því sem hv. þm. V.-Húnv. sagði um álagninguna 1933, ætla ég fullsvarað með ræðu hv. 2. þm. N.-M. En eins og fram kom, var álagningin þá ekki minni en áður og því ekki ástæða til að greiða nema um 19 kr. á tonn.

Ég vil taka það skýrt fram, vegna þessa ágreinings, sem orðið hefir, að þar sem ég segi, að till. einstakra þm. fari fram á töluverða útgjaldahækkun, miða ég við heimildarlögin eins og framkvæmd þeirra hefir verið, og á því byggi ég það, sem ég sagði um hækkun eftir till. hv. 6. þm. Reykv. - Till. hv. 2. þm. Reykv. fer fram á það, að sett sé hámarksupphæð, og tel ég það rétt grundvallaratriði í máli eins og þessu, að hafa hámarksupphæð, svo að menn viti fyrirfram, hve miklu þeir mega eiga von á. Hinsvegar hefði ég getað fallizt á að hafa upphæðina 44-45 þús. kr. Eftir þeim undirtektum, sem þessi till. hefir fengið, býst ég við, að hámarksupphæðin verði samþ., og tel ég 40 þús. nærri lagi.