17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

23. mál, tilbúinn áburður

Ólafur Thors:

Ég vil vænta þess, að hæstv. fjmrh. geri sig ekki aftur beran að því að fara rangt með afstöðu Sjálfstfl. til svo veigamikils máls sem það er, hvernig flokkurinn ætlar að taka undir viðleitni til að afgr. tekjuhallalaus fjárl. Ég hefi ekki hér við hendina prentaða þá ræðu, sem frsm. flokksins, hv. 1. þm. Reykv., flutti hér, þegar hæstv. fjmrh. flutti fjárlræðu sína, en ég veit, að allir hv. þdm., aðrir en þá hæstv. ráðh., minnast þess, að ummæli hv. 1. þm. Reykv. féllu þá mjög á líka leið og þau ummæli, sem ég síðar við fyrsta tækifæri viðhafði í nafni og fyrir hönd Sjálfstfl. Þessi ummæli koma svo aftur greinilega fram í prentuðu þskj., sem ráðh. á að hafa lesið en hefir auðvitað ekki gert, og er það undirritað af sama manni, sem hann var að vitna í - frsm. Sjálfstfl. við 1. umr. fjárl., hv. 1. þm. Reykv. Þessi ummæli eru á þskj. 104 og hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Minni hl. fjhn. telur ekki, eins og nú er ástatt, fært að lögleiða miklar hækkanir á einstökum tollum eða sköttum til ríkissjóðs. Telur hann nauðsyn bera til þess að knýja útgjöld ríkissjóðs niður eins og frekast er unnt, til þess að greiðsluhalli hverfi, án skattlækkana. Verði á hinn bóginn ómögulegt að komast hjá greiðsluhalla á fjárlögum án skatthækkana, telur hann þá leið færasta, að gefa ríkisstj. heimild til að innheimta sem flesta tekjustofna ríkissjóðs með þeim viðauka, sem þarf til þess að komizt verði hjá greiðsluhalla“.

Nú hefir þetta verið kennt hæstv. ráðh. í fyrsta annað og þriðja sinn, og þar með vil ég vænta að hann kunni það.