17.10.1934
Neðri deild: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

23. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Jón Pálmason):

Það eru aðeins fá atriði, sem ég þarf að drepa á í því sambandi, sem hér er um að ræða. En ég vildi áður en umr. yrði lokið víkja að því, hvernig rætt hefir verið um afstöðu meiri hl. landinu, í þessu máli. Það hefir komið í ljós, að þær till., sem n. ber fram, eru, ef svo mætti segja, milli tveggja skauta hvað við kemur öðrum till., sem fyrir liggja. Ein till. fer fram á að minnka þau fríðindi, sem hér er um að ræða, frá því, sem nú er, en það er till. hv. 2. þm. Reykv., sem studd er af fjmrh., sem sé að miða styrkinn við 40 þús. kr. hámark. Er því ekki um að villast, að þessi till. miðar til lækkunar. Landbn. hefir hlotið ámæli af því að gera ekki hærri kröfur í þessu efni en raun ber vitni um. Þar er því til að svara, að eins og framkvæmdirnar hafa verið, er þetta ekki lækkun, miðað við síðustu ár, og ég geri nokkurn mun á því, að landbn. hefir fært málið í það horf, að það sé skylda að greiða styrkinn, en áður var það einungis heimild, og sú heimild hefir ekki verið notuð eins og l. hafa ætlazt til. Það virðist svo sem menn álíti, að þetta sé styrkur til bænda einna, en því fer fjarri. Ég hygg, að hin tvö síðustu kreppuár hafi meiri hluti hins aðkeypta áburðar verið notaður til ræktunar í kaupstöðum landsins, því að það eru einmitt þeir staðir, sem hafa minnstan búfjáráburð til afnota.

Þetta raskar ekki neitt vilja mínum til þess að líta á þá þörf, sem er á styrk í þessum tilgangi. En ég hefi gengið inn á það hiklaust með meiri hl. landbn. að gera ekki hærri kröfur en till. bera með sér. Það er auðvitað mjög æskilegt og gleðilegt, ef það er hægt að veita til þessara hluta hærri upphæð en till. meiri hl. landbn. fara fram á. En ég held, að það væri hyggilegra að hækka fremur styrkinn til áburðarhúsa og safnþróa en að veita hærri styrk til þessa, því að það eru nauðsynlegar framkvæmdir, sem miða að því, að ræktunarmenn geti fyrr en ella komizt hjá að kaupa mikið af aðfluttum áburði. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri. Atkvgr. sker úr um það, hvort menn geta ekki fallizt á þann miðlunarveg, sem virðist vera fundinn með till. landbn.