13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

23. mál, tilbúinn áburður

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég skal þegar í upphafi máls míns taka það fram, að við Alþfl.menn höfum frá því fyrst, að till. kom fram um að hafa einkasölu á áburði, verið því fylgjandi, og ég lýsi því yfir, sem einn af fulltrúum Alþfl., að fullkomið skipulag í þessu efni hefir verið sett á stofn með okkar fyllsta samþykki.

Eins og kunnugt er, þá miðar þetta að því að létta undir með landbúnaðinum á þann hátt, að skapa honum ódýrari áburð en hann ella hefði getað fengið. Með tilliti til þessa hefir ríkinu verið gert að skyldu að greiða upp að vissu marki flutningsgjald undir áburð. En frá mínu sjónarmiði koma fleiri aðilar hér til greina en ríkissjóður einn, og vegna þess er till. á þskj. 393 komin fram, sem við flytjum, ég og hv. 1. þm. Reykv. Ég lít þannig á, að þegar ríkið er aðili um að styrkja eitt og annað, eins og það, sem hér um ræðir, þá sé í flestum tilfellum verið að reyna að þvinga niður að meira eða minna leyti flutningsgjald fyrir vöruna. Og ég leyfi mér að halda því fram, að í mörgum tilfellum fái þau skip sem áburð flytja, ekki það raunverulega gjald fyrir flutninginn, sem þau eiga að fá. Eins og stendur í till., þá er gert ráð fyrir, að sá mismunur á því, sem annaðhvort ríkið greiðir eða þá einkasalan semur um, og svo hinu, sem það raunverulega kostar að flytja áburðinn, miðað við aðra þungavöru, sé skoðað sem framlag af hálfu þessara stofnana til áburðareinkasölunnar. Ég lít svo á, að hér sé verið að setja lögbundna kvöð á Eimskipafélag Íslands og Skipaútgerð ríkisins, og að þann mismun beri því að tilfæra í reikningum þessara skipafélaga sem beint framlag til áburðareinkasölunnar. Ég skal strax taka það fram, að þó að ég hreyfi þessu máli í sambandi við áburðareinkasöluna, þá er þetta þannig lagað í mörgum tilfellum, að slíkar kvaðir sem þessar eru settur á skipafélögin af hálfu þess opinbera. Og ég verð að láta það í ljós, að slíkar kvaðir sé tæplega hægt að leggja á önnur skip en þau, sem ríkið á eða styrkir til siglinga að meira eða minna leyti.

Það er annað atriði í þessu máli, sem frá mínu sjónarmiði er ekki einskis virði, og það er, að þegar farið er að setja slíka löggjöf sem þessa handa bændastétt landsins, sem við teljum hana fullkomlega maklega að fá, þá komi það skýrt fram, að hlunnindin eru meiri en tekið er fram í frv. Í þessu tilfelli eru hlunnindin meiri en þessar kr. 20,00, sem frv. getur um, og ég vil henda á það, að á þessu ári mun flutningsgjaldið vera kr. 22.50 á tonnið. Og samkv. þeirri kvöð, sem á þessu liggur, á Eimskipafélagið að skila þessum áburði á þær hafnir, þar sem bændurnir eiga hægast með að ná í hann. Það er ekki nema örlítill hluti af þessum áburði, sem er fluttur á land hér í Rvík. Mest er flutt á hafnir eins og Akureyri, Reyðarfjörð o. s. frv., en nokkuð af áburðinum fer þó á smærri hafnir.

Það væri fróðlegt að vita, hvað Skipaútgerð ríkisins fær fyrir að flytja áburðinn. Samkv. samningi milli Skipaútgerðarinnar og Eimskipafélagsins, greiðir Eimskipafélagið Skipaútgerðinni kr. 7.50÷15%, eða kr. 6.38 fyrir smálestina, og ef um útskipun er að ræða, þá eru greiddar kr. 5.00 á smálestina fyrir hana. Ríkisskipin eiga svo að skila þessu á ýmsar hafnir úti um landið. Ég veit dæmi þess, að kostnaðurinn við uppskipun getur komizt upp í kr. 10.00 fyrir tonnið, og í slíkum tilfellum fá ríkisskipin ekkert. Frá mínu sjónarmiði er það þess vegna réttlátt, að það komi fram á reikningum Skipaútgerðar ríkisins, sem hún leggur þannig í sölurnar fyrir bændastétt landsins.

Þó að Eimskipafél. Ísl. sé hlutafélag, þá er það samt innlendur skipastóll, sem ríkið er hluthafi í og mikill hluti landsmanna á sinn þátt í. Það verður því að skoðast sem þjóðarfyrirtæki, sem ríkið verður að styrkja árlega, til þess að tryggja það með tilliti til okkar siglinga. Það er langt frá því, að ég álíti, að Eimskipafél. eigi ekki að gera þetta, sem hér um ræðir, en ég álít hinsvegar, að það eigi að koma fram á reikningum þess, að það hefir annazt svona mikla flutninga fyrir lægra gjald en taxi skipafélaganna ákveður, og að sá mismunur verði skoðaður sem framlag til áburðareinkasölunnar, eins og till. fer fram á.

Ég býst við, að þeir menn hér, sem telja sig bændafulltrúa, álíti ekki rétt að samþ. till. sem þessa, en réttlæti hennar er þó jafnmikið fyrir því, og ég skal taka það fram, að ég ætlast ekki til þess, að það sé skoðað sem ölmusa til bændastéttarinnar, þó að þetta verði gert. Það er allt annað, sem vakir fyrir mér. Ég vil minna hv. þm. á það, að í hvert skipti, sem talað er um siglingar okkar, þá er ýmislegt að þeim fundið, t. d. að þær séu dýrar í rekstri og of hátt kaup goldið o. s. frv. En ég vil halda því fram, að ef allur sá flutningur, sem þessi skip flytja, sumpart milli landa og sumpart meðfram ströndum landsins, væri reiknaður með því verði, sem skipafélögin hafa ákveðið sem taxta, þá mundi hallinn á rekstri þeirra vera allverulega minni en hann er nú, og þess vegna er það, að ég álít, að það eigi að koma skýrt fram, hverskonar hlunnindi skipafélögin veita landsmönnum. Og ég álít, að það eigi sérstaklega að koma fram í sambandi við áburðareinkasöluna, þó að það séu fleiri stofnanir, sem koma til greina, þegar um hlunnindi eins og þessi er að ræða. Það ætti að vera viðtekin regla, að það komi skýrt fram, hverjir hlunnindin fá.

Ég held, að ég hafi nú skýrt það, hvað fyrir mér vakir með þessari till., og þó að þetta mál þyki ef til vill nokkurt nýmæli, þegar það er flutt hér nú, þá get ég vel hugsað, að þeir tímar komi einhverntíma, að það verði talið reikningslega rétt að sýna það skýrt og óskorað, hvað það nemur miklu, sem skipafélögin flytja til landsmanna fyrir lægra gjald en taxtinn er. Ég geri ráð fyrir því, að ég muni fá framan í mig þá rökfærslu, að útlend skip mundu gera þetta fyrir sama verð, og ef til vill lægra, og vil þess vegna svara því þar til, að það megi fullkomlega taka tillit til þess, að við eigum að bægja frá þessum flutningum erlendum skipum, en aftur á móti hlynna að okkar eigin siglingum, sem er alveg hliðstætt við þá stefnu, sem nú er uppi, að hlynna að innlendri framleiðslu í landinu, með því t. d. að banna mönnum að kaupa útlenda vöru, þó að ódýrari sé en sú innlenda, og styrkja með því okkar framleiðslu. - Ef hv. þm. vilja fá frekari skýringu á þessu, þá er ég tilbúinn að taka tillit til þess.

Að lokum vil ég svo benda á það, að eitt orð hefir fallið úr till. Þar stendur „er skoðast sem framlag“, en á að vera „og skoðast það sem framlag“ o. s. frv. - að svo komnu mun ég svo ekki flytja lengra mál um þetta efni, en gæti þó bætt miklu við sem fullkomnum rökstuðningi fyrir þessu nýmæli, sem hér hefir verið flutt.