13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (679)

23. mál, tilbúinn áburður

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það þarf í raun og veru ekki að svara hv. 4. þm. Reykv. miklu viðvíkjandi brtt. á þskj. 393, sem hann hefir flutt hér ásamt hv. 1. þm. Reykv., vegna þess, að hann hefir svarað sér að nokkru leyti sjálfur, með því að benda á, að það mundi vera hægt að flytja áburðinn með útlendum skipum jafnvel ódýrara en íslensk skip gætu flutt hann. Þessi rökfærsla, sem hv. þm. benti á að mundi koma fram, gerir það að verkum, að sú reikningsfærsla, sem hann gerir ráð fyrir að skipafélögin eigi að hafa, er á engu byggð.

Annars er því til að svara viðvíkjandi svona till., að það hagar svo til með öll viðskipti milli Eimskipafél. og þeirra, sem flytja mikið með skipum félagsins, að farmgjöld eru nokkuð lægri hjá þeim en hjá smærri viðskiptavinum þess. Þess vegna er engin ástæða til þess, þó að ríkið, sem er nokkuð stór viðskiptaaðili hjá félaginu, fái prósentur eins og stærri viðskiptavinir þess, að fara að færa það sérstaklega. Ég sé ekki ástæðu til að álíta, að ríkið muni fá óeðlilegan afslátt á flutningi þessarar vöru, frekar en annarar. Annars má líka segja frá því í þessu sambandi, að Danir hafa t. d. á síðustu árum gert heildarsamninga um innkaup á öllum sínum áburði, eða því sem næst öllum, og í þessum samningum er það innifalið, að áburðinum sé skilað á hverja einustu höfn, sem þeir gera kröfu til, að bann sé fluttur á. Áburðurinn er þar fluttur með ákaflega lélegum fragtkössum, sem önnur skip geta ekki keppt við. Þetta eru mjög stórir farmar, því að þessi vara er mest keypt í einu lagi rétt undir vorið, og þannig er áburðurinn fluttur til Danmerkur miklu ódýrara en hægt væri að flytja hann með öðrum skipum. Af þessu leiðir það svo, að það er ekki óeðlilegt, þegar um vöru eins og þessa er að ræða, sem hægt er að flytja í einu lagi fyrir allt árið, að skipafélögin hér gefi nokkuð betri samninga en ella, til þess að mæta að nokkru leyti því tapi, sem ríkið hefir á því að nota ekki þau fragtskip, sem hv. 4. þm. Reykv. benti á. Það er þess vegna alveg útilokað, að hægt sé að færa þetta þannig reikningslega út. Þessu mætti sennilega alveg eins snúa við og segja, að það væri ríkið, sem ívilnaði skipafélögunum, Skipaútgerð ríkisins og Eimskipafélagi Íslands, með því að láta þau sitja fyrir öllum flutningunum, þar sem hægt er að gera ráð fyrir, að flutningana mætti fá eins ódýra eða jafnvel ódýrari á annan hátt. Ef skipafélögin sjá ástæðu til að færa upp reikning yfir þann halla, sem þau hafa af þessum flutningum, geta þau gert það án þess að slíkt þurfi að lögfesta. Ef hv. flm. langar til, ættu þeir að geta fengið það upp þegar á þessu ári, en ég tel fjarstæðu að fara fram á að setja lög um slíkt.