13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (683)

23. mál, tilbúinn áburður

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Hv. 4. þm. Reykv., sem er aðalflm. að brtt., játaði, að hann ætlaðist til, að miðað væri við prentaðan taxta skipafélaganna. (SÁÓ: Þann raunverulega). En í hinu orðinu sagði hann, að gefa yrði afslátt, ef aðrir en ríkið ættu í hlut. Ég þykist hafa góðar heimildir fyrir því, að gefinn sé allt að 50% afsláttur frá taxta í einstökum tilfellum. Sjá allir, hvaða vit yrði í samanburði við svona reikninga.

Þá sagði hv. þm., að hann teldi sanngjarnt að miða við sama flutningsgjald og fyrir mjölvörur. Ég hygg, að hvergi í heiminum - þó ég sé því að vísu ekki kunnugur - sé sama flutningsgjöld á áburði og mjölvöru. En það kom upp aðaltilgangur hv. flm.: að styðja Eimskipafélag Íslands og Ríkisskip. Ég held, að þetta sé alveg óþarfi, því ég veit ekki betur en bæði þing og þjóð hafi sýnt þessum stofnunum velvilja, og ég efast um, að þessi brtt. bæti þar nokkuð um. Hv. þm. fór víða í ræðum sínum og minntist m. a. á, að áburðurinn færi gegnum Holland. Ég hygg, að áburður sé ekki fluttur þar úr landi.