13.11.1934
Efri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (685)

23. mál, tilbúinn áburður

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það tekur því tæpast að ræða þetta lengi. Það er eins og hv. 1. þm. Reykv. sagði, að þetta er hégómi. Félögin hafa vitaskuld bókfært hjá sér, hver farmgjöldin eru, og þá eins, hvað þau taka fyrir flutning á áburði. Það er hægt að fá það fram án lagaheimildar, og till. er því út í bláinn. Að bókfæra muninn á þeim opinbera taxta og þeim, sem notaður er við flutninga á þessum áburði, væri hinsvegar blekking. Það vita allir, að félögin gefa afslátt af farmgjöldum, bæði ríkinu og öðrum, er við þau skipta. Reikningsfærslan væri því blekking, ef miðað væri við hinn opinbera taxta. En annars liggur náttúrlega bókfærsla fyrir um það hjá félögunum, hver farmgjöldin eru, svo að það þarf ekki að setja nein lög um það.

Hv. 1. þm. Reykv. var að spyrja að því, hvers vegna stj. notaði ekki útlendu skipin til flutninga, fyrst hægt væri að fá þau ódýrari. Hv. 1. þm. Reykv. er það vel kunnugt, að útlendu fragtskipin eru hér harður samkeppnisaðili, og að ríkisstj., kaupmenn og Sambandið flytja oft með íslenzku skipunum, þó að dýrara sé, af velvilja til stofnananna. Ég hygg, að það yrði þó nokkurt fé, ef reiknað yrði út, hvað ríkisstj. leggur þannig til íslenzku félaganna með því að flytja með þeirra skipum, enda þótt dýrara sé. Mér virtist komu fram hjá hv. þm. sá misskilningur, að þessar 20 kr. væru um leið ákveðið flutningsgjald. (MJ: Nei). Það er heldur ekki meiningin, heldur að samið sé um flutningsgjaldið við stofnanirnar. Flutningsgjaldið er ekki bundið við 20 kr., heldur styrkurinn, sem ríkið veitir til flutninganna. Flutningsgjaldið getur verið hærra.