08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

27. mál, sláturfjárafurðir

Magnús Jónson:

Í sambandi við þessi fyrstu bráðabirgðalög, sem hæstv. stj. fer fram á staðfestingu Alþ. á, sé ég ástæðu til þess að fara nokkrum orðum um þá aðferð, sem núv. stj. hefir beitt meira en áður hefir tíðkazt, að hrúga niður bráðabirgðal. Í 23. gr. stjskr. er gert ráð fyrir því, að konungur geti eftir till. ráðh. gefið út bráðabirgðal., þegar brýn nauðsyn beri til. Hér er auðvitað átt við það, ef eitthvert óvænt atvik ber að höndum, eða aðrar þær ástæður, sem krefjast aðgerða og ráðstafana, sem ekki megi bíða næsta þings. Hvað það frv. snertir, sem hér liggur fyrir, má segja, að þar hafi verið nokkur ástæða til þess að gefa út bráðabirgðal. um það efni, fyrst stj. áleit á annað borð nauðsynlegt að gera ráðstafanir á þessu sviði, því að hefðu þær ráðstafanir dregizt fram til þings, gátu þær ekki komið til framkvæmda fyrr en á næsta ári. En það er langt frá því, að sama sé hægt að segja um öll bráðabirgðal. þessarar hæstv. stj. Það var bara þetta og svo eitt annað tilfelli, sem nokkur ástæða var til þess að gefa út bráðabirgðal. Og að nota þannig rétt, sem stj. er aðeins heimill í brýnni nauðsyn, er í fyllstu máta vítavert. Ég tek dæmi af þeim bráðabirgðal., sem koma næst eftir þessu til staðfestingar, mjólkurl. Þar kveður nú svo rammt að, að tekið er fram í 1. sjálfum, að þau skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en eftir nýár, þ. e. a. s. eftir þann tíma, sem þingið hefir lokið störfum sínum. Það er aðeins eitt lítið atriði, sem framkvæma á strax, og því hefði alveg eins mátt koma fyrir án bráðabirgðal. Og það hefir farið svo, að meira að segja þetta eina atriði, sem samkv. l. átti að koma til framkvæmda strax, var ekki farið að framkvæma fyrr en komið var fram á þingtímann. Sumir munu kannske segja, að ekki geri mikið til þó að stj. gefi út bráðabirgðal., ef hún á það víst, að þau verði staðfest. En það er öðru nær. Með þessu hrifsar stj. í sínar hendur rétt þann, sem Alþ. einu ber, að setja l. í landinu, þótt það sé ekki nema um stund. Annað er það, að þegar þm. flokkanna, sem stj. styðja, fá bráðabirgðal. í hendurnar, má heita, að þeir séu neyddir til þess að samþ. þau, þar sem annað mundi þýða vantraust á stj., og fá þannig allt aðra aðstöðu gagnvart málunum en ella. Ég vildi ekki láta hjá líða að segja þessi orð um bráðabirgðal.farganið, nú þegar fyrsta frv. kemur til staðfestingar.

Um frv. sjálft skal ég ekki vera mjög margorður. Mér finnst það ekki nema eðlilegt, að stj. vildi gera einhverjar ráðstafanir samkv. áskorunum síðasta þings og n. þeirrar, sem þá var skipuð, til skipulagningar afurðasölunni innanlands. Ég hafði ekki mikla trú á þessari till., þegar hún var borin fram á þinginu í fyrra, og var henni mótfallinn. Ég er nú einu sinni á þeirri skoðun, að erfitt sé að grípa þannig inn í viðskiftin, án þess að ábati og halli af slíkum ráðstöfunum standist á. En úr því að till. var samþ., var ekki nema eðlilegt, að stj. yrði við áskorun n. um að setja þessi bráðabirgðal. Að mínum dómi hefir þó reynslan nú þegar sýnt, að þessar ráðstafanir eru ærið ófullkomnar. Hæstv. ráðh. ber fram sem stuðning á þessari ráðstöfun skýrslu um heildsöluverð á kjöti í Rvík undanfarin ár. Þar stóð, að 1931 hefði verðið verið 95 au. á kg., 1932 70 au. kg., 1933 90 au. kg., og nú 1.15 kr. kg. Hvað sýna nú þessar tölur? Ég fæ ekki séð, að þær undirbyggi þessar ráðstafanir hæstv. stj. Þessar tölur sýna ekkert annað en alkunnugt viðskiptalögmál, að verð á vöru á frjálsum markaði fer eftir því, hvort framboð og eftirspurn stenzt á. Félagið, sem hefir ráðið verðinu á undanförnum árum, hefir farið eftir þeirri skynsamlegu reglu, að miða verðið við það, hvað mikið þurfti að seljast. Og það hefir vel náð tilgangi sínum, og það án allra þvingunarráðstafana. Þegar verðið er lágt, er mikið keypt af vörunni. Nú er verðið ákveðið eftir öðrum reglum en verið hefir, svona og svona hátt, en afleiðingin er sú, að minna er keypt, fyrst löggjafarvaldið nú einn sinni getur ekki skyldað menn til að kaupa. Ég get sagt það fyrir mig, að áhrifin af lága verðinu undanfarin haust innan míns heimilis hafa verið þau, að þar hefir verið borðuð kjötsúpa á hverjum degi að haustinu til, og þarna höfum við átt kost á góðri, nærandi, hollri og ódýrri fæðu. En nú er svo komið, að með bezta vilja hefi ég ekki ráð á því í haust að njóta þessarar indælu fæðu daglega, og hefir þó löngun mín ekki á neinn hátt minnkað. - Það er hægt að grípa svona inn í frjáls viðskipti, en hitt er ekki hægt að koma í veg fyrir, að salan minnki. Því hærra verð sem á kg. er, því færri kg. seljast. Auk þessa almenna atriðis, sem að miklu leyti kemur í veg fyrir, að ráðstafanir stj. nái tilgangi sínum, hafa þessi l. ýmsar aðrar miður góðar afleiðingar. Hv. þm. N.-Ísf. skýrði frá fyrir nokkrum dögum, hver áhrif þessi l. hefðu haft í sínu kjördæmi. T. d. hefði áður verið algengt, að bændur og sjómenn kringum Ísafjarðardjúp hefðu haft með sér vöruskipti, þannig að sjómenn hefðu hjálpað bændum um fiskmeti og fengið það borgað í sláturfjárafurðum á haustin. Þetta hefði gengið vel, enda verið alveg frjálst, bændur hafa mátt slátra heima og flytja þetta sjálfir til kaupendanna. En nú, með þessum l., er tekið fyrir þetta. Má vera, að þeir hafi einhver skipti með sér áfram, en þau verða a. m. k. óhægari og kostnaðarsamari vegna ákvæða þessara l.

Ég skal ekki rekja röksemdirnar, sem hann færði, hversu flutningur er dýr. Það kostar kr. 1.50 fyrir kindina á fæti, þar sem koma má skrokknum fyrir 35-50 aura, og þar að auki verða bændur að borga sláturhúsgjald, sem þeir geta komizt hjá með því að láta slátra heima hjá sér. Og þeir geta gert það svo hreinlega, að kaupendur séu ekki vitund hræddir við að borða kjötið, eins og þeir hafa gert frá upphafi Íslands byggðar. Það er augljóst, að lögin í þessu hafa gert skaða. Auk þess sem dálítið má efast um, hvort ábati og halli hafi staðizt á, eins og jafnan verður, þegar gripið er til óeðlilegra ráðstafana, þá er ómögulegt að ganga framhjá því, að þessum lögum hefir verið framfylgt ákaflega óhöndulega. Alltaf er mikið talað um þörf bænda fyrir hærra verð á sínum afurðum. Og sízt ber ég á móti því, að sú þörf er brýn, og þeir hafa úr litlu að spila. En við verðum líka að gæta að því, að í kaupstöðunum hefir allur þorri íbúanna úr mjög litlu að spila og verður að halda á sínu eins varlega og mögulegt er. Við verðum að muna eftir því ennfremur, að það eru til ýmsar fleiri matartegundir en kjöt, sem menn kjósa þá eins að neyta, ef því er að skipta. Ekki er heldur hægt að gera við því svona í lýðfrjálsu landi, þótt einhver óánægjurödd láti til sín heyra á almannafæri. Þetta hefir líka orðið, en langt um minna en vænta mátti. En við það að heyra þessi lítilfjörlegu og lágu andvörp, sem heyrzt hafa frá mönnum, sem að mestu leyti eða öllu eru sviftir því að geta keypt kjöt í soðið, þá hafa aðrir rokið upp með ógurlegu offorsi og ausið út ókvæðis orðum og skömmum.

Það er öllum kunnugt, að það birtist í blaði viðtal við þekktan íþróttamann - það er jafngott þó að það komi í þingtíðindum -, sem eins og ýmsir aðrir íþróttamenn neytir ekki kjöts og álítur það ekki eins holt og jurtafæðu, mjólk og egg. Þetta er stefna, sem víða er þekkt, sérstaklega meðal íþróttamanna víða um heim. En af því að þessi íþróttamaður segir þetta, að það sé hægt að lifa án kjöts, þá rjúka stjórnarblöðin upp með ókvæðaskömmum og vísa bæjarbúum til grasbeitar á Öskjuhlíð eða Austurvelli, úr því að þeir séu þeir bölvaðir gikkir að kaupa ekki kjötið.

Þegar slíkar ráðstafanir sem þessi eru gerðar, sem koma hart niður á neytendum og verður því að framkvæma með mestu lipurð, þá er mjög óheppilegt, ef það fylgir, að menn séu næstum espaðir til meiri óánægju, því að alltaf má búast við einhverri óánægju undir niðri. En það er síður en svo, að þess hafi verið gætt hér. Þó held ég að Rvíkingar hafi ekki látið klaufaskap stjórnarliðsins hafa mikil áhrif á sig, og einhver rýrnun kjötmarkaðar í bænum stafi eðlilega af verðhækkuninni. En þó er ekki þess að dyljast, að einhverju hefir hann valdið. Nokkru veldur og, að hér er um lagaþvingun að ræða, svo að menn þykjast ekki hafa tryggingu fyrir réttu verði eins og í frjálsri samkeppni. Þá sætta menn sig við, þótt verð sé hátt, af því að þeir álíta það vera af óviðráðanlegum ástæðum, en finnst jafnvel, að með lögþvinguðu verði sé verið að níðast á sér.

Ég fyrir mitt leyti skal annars ekki leggja neitt til þessa frv., hvorki með né móti, ég álít, að aðrir þekki þetta mál betur en ég. Ég þekki bezt þá hlið, sem snýr að mínum kjósendum í Rvík, og ég harma þeirra vegna, ef þessi nauðsynlega og góða vara þarf að vera dýrari en svo, að þeir geti notað hana.

Það á náttúrlega ekki við þessa umr. að fara út í einstök atriði frv. En það er þó sitt af hverju smávegis, sem ástæða væri að athuga. t. d. 3. gr., ákvæðið um það, að það skuli veita lögskráðum samvinnufélögum leyfi til að selja, en aftur á móti getur nefndin veitt það verzlunum, sem hafa kjötverzlun með höndum. Þetta er óhæfilegt í löggjöf, að gera upp á milli allrar löglegrar atvinnu, sem menn reka á þessu sviði eins og öðrum.