08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Þær umr., sem fram hafa farið síðan ég talaði síðast, gefa ekki tilefni til langrar umr. af minni hendi. Hv. 1. þm. Skagf. tók málinu vel og benti á það, sem var bæði sanngjarnt og rétt, að vitanlega er það þannig með framkvæmd þessara laga, að það er ýmislegt, sem stendur til bóta, þegar reynslan hefir skorið úr því, hvernig lögin á að framkvæma, og ekki rétt að dæma um framkvæmd þeirra á því stigi, sem þau eru nú. Mér dettur ekki í hug að neita þessu, enda væri það fjarstæða, því að það er þannig lagað með flestar framkvæmdir, og ekki sízt með framkvæmdir eins og þessa, sem er jafnný og hún er Í þessu landi.

En það álít ég samt sem áður algerlega á misskilningi byggt hjá hv. þm., að verðlagið mundi jafnvel hafa hækkað, þó að lög hefðu ekki verið sett. Eins og ég gat um í framsöguræðu minni, þá benti allt til þess, að verðlagið hefði lækkað ennþá meira nú í ár en nokkurn tíma fyrr, ef lögin hefðu ekki verið sett áður en sláturtíðin byrjaði, en hitt viðurkenndi hv. þm., að það var réttmætt að hækka verðlagið, og þar var hv. 2. þm. Rang. á sama máli. Mér skilst því á þessum hv. þm., að þeir séu á þeirri skoðun, að kjötverðið hafi ekki verið sett hærra en sanngjarnt var, og eru þeir þannig á gagnstæðri skoðun við það, sem fram hefir komið í blöðum þess flokks, sem þeir tilheyra.

Það er náttúrlega gott og blessað að einstakir þm. úr Sjálfstfl. séu fylgjandi þessu frv. og telji sig vilja styðja að því að þessi löggjöf komi að gagni, en hinu er ekki hægt að neita með neinum rökum, að einmitt í því blaði, sem gefið er út af þessum flokki, kom fram stuttu eftir að lögin voru sett harðvítug ádeila á þessa löggjöf. Það komu tvær langar greinar um þetta efni, með þá einkennilegu „agitation“, sem menn hafa heyrt minnzt á í þessari hv. d., að íþróttamaður einn var látinn prédika, að kjötið væri óhollt. Það verður að líta svo á, að þessar tvær greinar hafi komið fram á ábyrgð flokksins, því að það er ekki hægt að neita því, að það, sem kemur fram í blöðum flokksins hér í bænum, hefir aðaláhrifin, og það er sú hlið, sem snýr að framleiðendunum í þessu máli af hendi þessa flokks. Þó að einstakir þm. lýsi sig velviljaða þessu máli, þá er það ekki það, sem hefir aðaláhrifin, heldur hitt.

Það kemur greinilega í ljós tvískiptingur Sjálfstfl. í þessu máli hér í d. Hv. 1. þm. Reykv. lýsti yfir, að hann væri mótfallinn þessum lögum, og taldi sig skyldugan að vernda hagsmuni sinna kjósenda, og brýndi ákaflega mikið innan hv. þm. þessarar d. og spurði, hverja afstöðu hann ætlaði að taka til þessa máls. Þetta álít ég ákaflega skaðlegt fyrir þetta mál, og að með þessu komi fram af hálfu þessu flokks allt það tjón, sem hægt er að gera þessu máli. En það vita þessir hv. þm. sjálfsagt, að það þarf ekki á þeirra atkv. að halda í þessari d. til þess að koma fram þessu máli. Ég tel þess vegna, að það, sem ég hefi um þetta mál sagt, hafi við fullkomin rök að styðjast, því að þær greinar, sem áður er minnzt á, gátu ekki verið andvígari þessu máli en þær voru.

Þá var spurzt fyrir um það, bæði af hv. þm. Skagf. og hv. 10. landsk., hvernig stæði á því, að Búnaðarfél. Íslands hefði ekki fengið tækifæri til að skipa fulltrúa í þessa nefnd. Því er auðvelt að svara. Fyrst og fremst er sú ástæða til þess, að Búnaðarfélag Íslands er ekki verzlunarfélag íslenzkra bænda. Það hefir ekki haft það verksvið, og ég tel, að það eigi ekki að blanda sér inn á það verksvið, því að það hafa önnur félög, bændakaupfélögin -, sem eru þess fullkomlega megnug að „gæta réttar íslenzku bændastéttarinnar. Í öðru lagi er því til að svara, að ég álít, að löggjafinn verði að sýna þá ýtrustu sanngirni í garð neytendanna í landinu, og ég tel það rétt, að neytendurnir fái að hafa tvo fulltrúa í þessari nefnd. Og mér virðist satt að segja, að þeir þm. Sjálfstfl., sem talað hafa í þessari d., séu á sama máli um þetta atriði, því að það, sem þeir hafa lagt aðaláherzluna á, er það, að neytendunum hafi ekki verið sýnt nægilega mikið tillit.

Hitt atriðið, sem hv. 10. landsk. minntist á, var það, að það kæmi við stolt íslenzkra bænda að hafa ekki samkv. lögum meirihlutavald í nefndinni. Það er auðvelt að svara slíku. Það er vitanlegt, að eins og nefndin er skipuð núna, þá hafa framleiðendur meirihlutavald í nefndinni, og það er það, sem ég álít, að þeir eigi að hafa, en ekki heldur meira, því að það skiptir máli fyrir þá að hafa, og engu betra, heldur verra, að þeirra „representation“ væri sterkari heldur en hún er. Það er nauðsynlegt að sýna neytendunum fulla sanngirni, og það geta framleiðendurnir gert eins og nefndin er skipuð, án þess að tapa nokkru af sínu valdi í n.

Hv. 10. landsk. mun segja sem svo, að samkv. lögum sé íslenzkum bændum ekki fengið vald til þess að skipa meiri hlutann í nefndina, en þessu er því að svara, að ef framleiðendurnir hafa ekki meirihlutavald á Alþingi, þá er það vitanlegt, að þeim er gagnslaust að hafa þessi lög, því að meirihlutavaldið, sem ræður ríkisstj., getur á sama hátt afnumið lögin, eins og að skipa einhvern annan en umboðsmann framleiðendanna sem oddamann í nefndina. Þess vegna kemur þetta í sama stað niður. Ég tel því hiklaust, að það sé vel ráðið að skipa n. eins og hún er skipuð.

Hv. þm. N.-Ísf. fór nokkrum orðum um kjötsöluna í sinni sýslu, og hefi ég að mestöllu svarað því áður. Þessi hv. þm. benti á, að það hefði verið nauðsynlegt að setja lágmarkverð á íslenzka kjöt, en hann benti ekki á leið til þess að ráða við það verðlag, nema með því móti að láta söluna fara fram í gegnum löggilta stofnun, og það skiptir máli í þessu sambandi. Ef salan væri leyfð á annan hátt, þá væri þessi möguleiki ekki fyrir hendi, og það er það, sem máli skiptir um þetta atriði.

Þá minntist sami hv. þm. á það ásamt hv. 10. landsk., að um stimplun á kjöti hefðu ekki verið settar samskonar skorður eins og í þeim lögum, sem nú liggja fyrir deildinni. Þetta er vitanlega að nokkru leyti rétt, en í framkvæmdinni verður þetta ákaflega svipað, vegnu þess, að framleiðendur fara sjaldan með kjöt til stimplunar í sláturhús, til þess að taka það svo burt aftur og selja það á annan hátt en í gegnum kaupfélög eða sláturhús.

Þá minntist hv. 2. þm. Rang. á það, að hann hefði óskað, að umr. um þetta mál hefðu farið öðruvísi fram í blöðunum heldur en raun hefði á orðið. Ég vil svara því þannig, að ég hefði óskað eftir því líka, en ég vil benda þessum hv. þm. á, að það voru flokksmenn hans, sem byrjuðu á þessum umr., en ekki blöð stj.

Það væri náttúrlega ákaflega æskilegt, ef það væri hægt að selja kjötið milliliðalaust, en sú leið hefir ekki verið talin fær, og er að mínu áliti ekki fær, ef á að ná þeim tilgangi að halda verðlaginu uppi á þann hátt, sem ætlazt er til. Ef hv. þm. gætu bent á aðra betri leið til þess að ná því takmarki, mundi því verða vel tekið.

Þá spurði hv. 2. þm. Rang., hvað hefði verið gert samkv. 10. gr. laganna til þess að draga úr kostnaði við slátrun og sölu. (PM: Nei, ég spurði, hvort ákvæði 10. gr. ættu ekki að skiljast þannig, að kjötverðlagsnefndin hefði heimild til þess að takmarka flutning á kjöti milli verðlagssvæða). Um þetta atriði verð ég að segja það, að ég álít, að n. hafi heimild til þess að takmarka flutning á milli verðlagssvæða.

Fyrst komið er inn á milliliðakostnaðinn, þá get ég gjarnan drepið á það spursmál, sem hv. þm. N.-Ísf. minntist á. Viðvíkjandi kjötsölunni er það að segja, að það er talsverðum erfiðleikum bundið að draga úr milliliðakostnaðinum, einkum fyrsta árið, meðan verið er að vinna að því að fækka kjötbúðunum. Það hefir þegar unnizt á í þessu efni, að kostnaðurinn við smásöluna hefir þegar verið lækkaður úr 30% niður í að ég held 15%. Nefndin hefir tekið það til athugunar að fækka útsölustöðum, en afleiðingin verður sú, að umsetningin verður meiri á hvern útsölustað, og þess vegna verður fært að lækka útsölukostnaðinn ennþá meira.

Viðvíkjandi ákvæði 6. gr., sem hv. 2. þm. Rang. minntist á, vil ég segja það, eins og hann tók fram, að það eru litlar líkur til, að verðið á erlendum markaði verði hærra en verðið á innlenda markaðinum. Þess vegna eru litlar líkur til, að til þess möguleika komi, sem hann nefndi. Hinsvegar er ég ekki mótfallinn því, að þetta atriði verði tekið til athugunar í þeirri n., sem fær málið til meðferðar. En ég minntist einmitt á þetta atriði við n., sem undirbjó málið, en hún taldi litlar líkur til þess, að verðlagið á innlenda markaðinum yrði sett svo lágt, að erlenda verðið yrði hærra.

Þá hefi ég svarað með fáum orðum þessum helztu aths., sem fram hafa komið um þetta mál.