08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

27. mál, sláturfjárafurðir

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Mér finnst, að umr. séu komnar miklu meira inn á einstök atriði en þörf er á við 1. umr. Ég hafði ekki ætlað mér að taka til máls, en hv. 1. þm. Reykv. sendi út neyðaróp og skoraði á okkur alþýðuflokksmenn að veita sér liðsinni í þessu máli. Mér finnst raunar engin ástæða að veita honum liðsinni, en af því að hann var að spyrja, hvað við segðum um þetta mál, fulltrúar verkamanna, þá skal ég segja honum það, að Alþfl. er ekki einungis flokkur verkamanna, heldur að nokkru leyti fyrir bændur; yfirleitt er hann ekki fyrir neina eina stétt, heldur fyrir allar vinnandi stéttir í landinu.

Það er óneitanlegt, að þessi ráðstöfun þýðir nokkra hækkun á kjötinu, og það er ákaflega viðkvæmt mál fyrir neytendurna, og hv. 1. þm. Reykv. finnur, að það er eðlilegt, að verkamenn séu ekki ánægðir með að láta hækka nauðsynjar sínar. Það eru að sjálfsögðu til margir verkamenn, sem eiga erfitt með að sættu sig við mikla hækkun, en hinsvegar vil ég fullyrða, að engin stétt hefir meiri skilning á því en verkamanna- og sjómannastéttin, að það sé öllum fyrir beztu, að lífvænlegt sé í sveitunum. Þeir sjá það, að ef ekki verður lífvænlegt í sveitunum, þá flykkjast allir í kaupstaðina og atvinnuleysið eykst að sama skapi. Þess vegna munu þessar stéttir taka þessari ráðstöfun með fullum skilningi og sætta sig við hana.

Hinsvegar hefir enginn gert meira til þess að spilla þessu máli en Sjálfstfl. Ég er ekki svo fróður að vita, hvort sveitaútgáfan af Morgunblaðinu hefir flutt þessar greinar, sem bæjarmönnum hefir verið boðið upp á. Ég get vel hugsað mér, að þeim hafi verið sleppt. En hinsvegar veit ég það, að það eru ýmsir af ráðamönnum Sjálfstfl., sem eru óánægðir með, hvernig blöð þeirra hafa tekið í þetta mál. En hér í Rvík lítur það þannig út, eftir bæjarblöðunum að dæma, að þeir séu mjög fjandsamlegir þessu máli og geri allt, sem þeir geta, til þess að spilla fyrir því, að bændur geti selt kjöt sitt.

Ég ætlaði ekki að segja annað út af orðum hv. 1. þm. Reykv. En hv. 10. landsk. sýndi mjög mikla ósanngirni, þar sem hann heimtaði, að kjötverðlagsnefndin hefði verið skipuð þannig, að framleiðendur hefðu sjálfir haft öll ráðin í þessu máli og ákveðið verðlagið sjálfir. Ég er á því, að fyrir bændurna hafi leið sú, sem farin var, verið heilladrýgst. Þar sem andstæðir hagsmunir rekast á, verður að finna einhvern meðalveg, þannig að hvorugs hlutur sé fyrir borð borinn. Og ég lít svo á, að bændur hafi meiri hl. í þessari nefnd. Samkv. 1. skipa landbúnaðarfélögin, Sláturfélag Suðurlands og Kaupfélag Borgfirðinga ásamt Sambandi íslenzkra samvinnufélaga tvo menn í hana, landbúnaðarráðh. formann, og loks neytendurnir tvo. Og þar sem ráðh. er nú úr bændaflokki, Framsfl., má ganga að því sem gefnu, að hann skipi þar mann, sem hlynntur sé málefnum bænda. Og þar með fylgir meiri hl. nefndarinnar málstað bænda. Hinsvegar finnst mér hv. 10. landsk. sýna ósanngirni með því að ætlast til, að framleiðendum væru fengin öll völd í þessu máli með löggjöfinni; slíkt spor hefði vafalaust orðið til þess að spilla fyrir þessum ráðstöfunum, en full þörf er á að varast allt slíkt með svo viðkvæmt mál sem þetta óneitanlega er.