08.10.1934
Efri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

27. mál, sláturfjárafurðir

Jón Auðunn Jónsson:

Það var misskilningur hjá hv. 10. landsk., að ég hefði talið það muna mestu um söluna á Ísafirði, að verðlagið var 10-15 au. hærra á kg. en þurft hefði að vera. Ég sagði, að bændur hefðu getað fengið jafnmikið verð fyrir vöru sína með því að selja hana 10-l5 au. ódýrari, ef engar hömlur hefðu verið settar á söluna og þeir mátt selja kjötið milliliðalaust. En nú verða þeir að greiða 5 au. af hverju kg. fyrir vigtun úr sláturhúsum, og kaupmönnum þeim, er taka kjötið til sölu, l0% verðs, og er það helmingi hærra en þar hefir áður þekkzt.

Hæstv. ráðh. hélt því fram, að lágmarkið hefði ekkert að segja, ef salan færi ekki fram í gegnum opinberar stofnanir. Þetta er fjarri sanni. Það er engin hætta á því, að neinn selji undir lágmarksverði, eftir að búið væri að setja lágmarksverð. Með þeirri aðferð einni hefði náðst eins gott verð fyrir bændur, og neytendur fengið vöruna 10 au. ódýrari hvert kg. Og á því er enginn vafi, að því ódýrari, sem vara er, því meira er af henni keypt. Og þó segja megi, að ekki muni mikið um 10-15 aura á kg., þá veit ég samt, að verkamenn og sjómenn vestra, sem flestir hafa óvenju rýra atvinnu, horfa í þessa hækkun. Út af stimpluninni tel ég óþarft, að salan sé bundin. Það hefir verið venja á Ísafirði í undanfarið, að ekki hefir verið selt nautakjöt þar í bænum án þess að það væri stimplað af lækni. Eigandinn hefir síðan selt kjötið í frjálsri sölu, annaðhvort í heilum kroppum eða í smásölu.