19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (730)

27. mál, sláturfjárafurðir

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hafði búizt við, að hv. landbn. segði eitthvað um brtt. þær, sem fyrir liggja, einkum þær, sem fluttar eru á þskj. 72 og bárust n. jafnskjótt og frv. hafði verið vísað til n. Ég vænti þess, að n. láti eitthvað frá sér heyra um afstöðu sína til brtt. þessara.

Það, sem fyrir mér vakir með brtt. mínum, er að einskorða ekki allt of mikið sölu á sláturafurðum, þannig að bændur eigi a. m. k. kost á að selja afurðir sínar beint til neytenda, ef þeir mynda með sér sölufélag. Ég hefi áður útskýrt, hve þetta fyrirkomulag hefir aukinn kostnað í för með sér fyrir bændur á Vesturlandi, einkum þó og sér í lagi fyrir bændur í N.-Ísf. og V.-Ísf.sýslu. Þar var kjötið áður selt milliliðalaust. Menn voru lausir við allan verzlunarkostnað. Þeir þurftu aðeins að greiða flutningskostnað.

Hv. 2. þm. Rang. kom fram með brtt. á þskj. 92 um, að sauðfjáreigendum væri heimilað að slátra fénu heima og selja síðan kjötið til neytenda. Ég er þeirri brtt. fylgjandi. Mér er kunnugt um, að það er einnig eindregin ósk minna umbjóðenda og fjölmargra bænda um land allt. Ég óska því, að hæstv. forseti beri upp brtt. hv. 2. þm. Rang., við 3. gr., á undan mínum brtt. En fari svo, að brtt. hv. 2. þm. Rang., sem ég tel ágætar og sjálfsagðar, verði ekki samþ. í hv. d., þá vil ég hafa mínar til vara, því að ég trúi því ekki, að hv. d. vilji meina bændum stofnun sölufélags til þess að selja sláturafurðir sínar.

l. brtt. mín er um, að kostnaður við n. greiðist af verðjöfnunarsjóði. Ríkissjóð munar talsvert um þetta, en kjöteigendur lítið. Í samræmi við það er 4. brtt. mín, um það, hvernig verðjöfnunarsjóði skuli varið. Ég hefi nýlega átt tal við bændur í N.-Ísafjarðarsýslu. Þeir óska þess eindregið, að þeir verði ekki hnepptir í eitt allsherjar sölufélag, heldur fái þeir leyfi til þess að slátra fénu heima hjá sér, þar sem aðstæður leyfa. Það er t. d. svo í mörgum hreppum, svo sem Ögurhreppi, Nauteyrarhreppi og Reykjarfjarðarhr., að þar er eins góð aðstaða til slátrunar og í slátrunarhúsunum á Ísafirði. Í þessum hreppum er bæði betra rúm til slátrunar, og auk þess betra að kæla kjötið, heldur en á Ísafirði, því að slátrunarhúsin þar eru mjög léleg enn sem komið er.

Ég hefi áður lýst því, hversu mikinn aukinn kostnað þessi lög hafa í för með sér fyrir bændur þar vestra. Vil ég vænta þess, að hv. dm., ekki sízt þeir, sem hafa milliliðakostnað í annari verzlun sem grýlu, leyfi þeim bændum, sem verzlað hafa beint við neytendur, að vera lausir við milliliðina, annað sæmir ekki fulltrúum almennings. Vil ég því vænta þess, að hv. d. firri þá þessum aukna kostnaði, og eins þá aðra bændur, sem svipaða aðstöðu hafa.