19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég sé ekki ástæðu til þess að vera langorður um brtt. þær, sem hér liggja fyrir. Þó mun ég víkja að þeim fáeinum orðum. Fyrsta brtt. á þskj. 98 fjallar um það, að í stað Landssambands iðnaðarmanna komi Búnaðarfélag Íslands. Ég hefi áður látið í ljós skoðun mína á þessu fyrirkomulagi. Álít ég heppilegra, að neytendur skipi 2 nm. af 5. Það er tvímælalaust bezt fyrir lausn og samkomulag þessa máls yfirleitt. Tel ég einnig, að þau félög, sem nú hafa þetta starf á hendi af hálfu bænda, séu nógu fær um að vinna það verk, og óþarfi sé að bæta við fleirum frá framleiðendum. Í þessu máli tel ég nauðsynlegt að sýna neytendum sem mesta sanngirni til þess að fá sem bezta lausn. Á þann hátt tel ég betur séð fyrir þessu máli heldur en með þessari brtt., ef hún verður samþ.

Um brtt. á þskj. 92 er það að segja, að ég álít, að fresta beri brtt. við 3. gr., sem fjallar um það, að sauðfjáreigendum sé heimilt að slátra fénu heima, og eins brtt. á sama þskj. í framhaldi af þessu. Ef þessar brtt. verða samþ. verður það því ekki rétt, vegna þess að skipulag er fengið með því frv. eða lögum, sem hér liggja fyrir. Ég held, að erfitt verði að hafa vald á framboði, ef einstaklingar mættu slátra fé sínu sjálfir og selja á markaðinn og tilkynna það um leið, eins og stendur í þessari brtt. Ef hægt er að koma þessu þannig fyrir, að komið verði á öruggu skipulagi og keppt að hæfilegu framboði vörunnar, þá er það að sjálfsögðu það æskilegasta.

Síðar í brtt. stendur, að ef framleiðendur selji sláturafurðir milliliðalaust, beri að tilkynna það og greiða verðjöfnunargjald. Á þennan hátt gætu framleiðendur komið sínum vörum á markaðinn, og síðan hver um sig tilkynnt n., að þeir ætli að selja vöruna á þennan hátt. En þá er engin trygging fyrir því, að framboðið á vörunni yrði ekki alveg óviðráðanlegt. Ég get ekki séð, hvernig kjötverðlagsnefndin ræður við framboðið úr því.

Hvað snertir brtt. á 10. gr., álít ég, að það vald, sem farið er fram á í gr., að n. fái, sé í rauninni innifalið í ákvæðum þessarar gr.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 72 er það sama að segja. Í svipaða átt gengur einnig brtt. á þskj. viðvíkjandi þeirri fyrstu er það að segja, að ég tel sanngjarnt, að ríkissjóður greiði þennan kostnað, a. m. k. til að byrja með, á meðan málið er á slíku byrjunarstigi. Það er ekki rétt að láta bændur greiða þennan kostnað. Álít ég rétt, að þetta fé sé greitt úr ríkissjóði, til þess að greiða fyrir markaðinum innanlands. Ég legg því ákveðið á móti þessari brtt.

Um 2. brtt. við 3. gr. má segja það, að sú brtt. a. m. k. ef hún væri öðruvísi orðuð, gæti haft við sanngirni að styðjast. Væri ef til vill rétt að taka það til athugunar, hvort ekki ætti að leyfa einstökum mönnum að slátra utan sláturhúsa, þegar sérstaklega stendur á. Auðvitað koma hér, eins og í annari löggjöf, þar sem um svo stórfellda breyt. er að ræða sem hér, gallar fram, þegar á að fara að framkvæma lögin, og ég skal fúslega viðurkenna, að einstaka bændur séu til, sem eiga erfitt með að koma fé sínu í sláturhús, t. d. vegna vatnsfalla eða þegar um sjóleið er að ræða. Mér er kunnugt um, að nokkuð hefir borið á þessum erfiðleikum í haust á stöku stað í Norður-Ísafjarðarsýslu og á tveim stöðum öðrum. Því gæti verið rétt að gefa kjötsölunefnd heimild til að veita undanþágu, þegar alveg sérstaklega stendur á.

Engar aðrar brtt. get ég séð, að séu á neinn hátt til bóta. Þær eru margar, og sé ég ekki ástæðu til að fara að ræða þær. En ég vil þó taka fram, að ég álít b-lið 2. brtt. alveg óþarfan, ef kjötsölunefnd fær heimild til að veita þeim bændum undanþágu, sem erfiðast eiga með að koma fé sínu í sláturhús. Því að útlit er fyrir, að tilætlun flm. sé sú, að þessi kjötsölufélög bænda með minnst 12 félögum verði einmitt stofnuð á þeim svæðum, þar sem svo er ástatt. Undanþáguheimildin á þar að vera fyllilega nægileg, og get ég því ekki mælt með neinni brtt.