19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

27. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Hæstv. ráðh. hóf mál sitt á því að segja, að aðeins smágallar hafi verið á l. þessum og að ekki væri ástæða að vera að fást um slíka smámuni. Má vera, að hér sé aðeins um smágalla að ræða. Ég hefi lýst því yfir, að ég gerði það ekki að skilyrði fyrir því að ég fylgi þessu máli, að brtt. mín yrði samþ. En þó að hér sé aðeins um smágalla að ræða, þá liggur það í augum uppi, að því er mér virðist, að það beri að bæta úr þeim, ef skipulagning kjötsölunnar líður ekki við það.

Hæstv. ráðh. sagði, að nm. hefðu orðið sammála um l., og vildi hann með því slá niður öll andmæli gegn frv. Það er nú algengt á hæstv. Alþ., að frv. hefir verið breytt eftir að þau hafa komið frá n. Ég veit ekki, til hvers hæstv. Alþ. yfirleitt er, ef það á ekki að bæta úr ágöllum löggjafarinnar og endurbæta frv. og till., sem til þess koma.

Viðvíkjandi því, sem hæstv. ráðh. beindi til mín, er það að segja, að hann hóf mál sitt á því að segja, að fyrir mér vekti það, að fá milliliðalaus viðskipti í þessu efni. Ég veit ekki, hvort hann átti við það, að ég vildi breyta þannig til, að verzlunin með kjötið í heild yrði milliliðalaus. En ég álít það nú ekki það heppilegasta. Ég er sannfærður um, að bændur hafa sjálfir ekki aðstöðu til þess að hafa eftirlit með kjötverzluninni. Ég ætlast ekki til þess, að bændur yfirleitt bjóði kjöt sitt til sölu. Ég vil, að verzlun með kjöt sé í höndum sláturfélaga, eins og hingað til hefir verið. En þrátt fyrir þá skoðun mína, vil ég samt ekki útiloka þau milliliðalausu viðskipti með kjöt, sem ég álít, að bændum séu til hagsbóta. Ég vil milliliði í þessu efni aðeins þar, sem það er heppilegt fyrir bændur. Ef þeir hafa aðstöðu til að selja sitt kjöt milliliðalaust, þá vil ég leyfa þeim það. Hingað til hefir það þekkzt, að einstöku bændum hefir tekizt að ná hærra verði fyrir sitt kjöt en gerzt hefir almennt. Þetta vil ég ekki taka frá þeim og leggja í staðinn á þá kvöð, að gera afurðir þeirra verðminni. Það er þetta, sem ég vil leggja áherzlu á.

Það er náttúrlega rétt hjá hæstv. ráðh., að það, sem ég hugsa aðallega um, þegar ég beiti mér fyrir milliliðalausri sölu á kjöti, er reykta kjötið. Hæstv. ráðh. sagði, að þessi viðskipti hefðu verið leyfð í haust. Það er að vissu leyti rétt, en þó sjálfsagt réttara að segja, að þau hafi verið liðin. En það er nú sá galli á því, sem hv. 1. þm. Skagf. er réttilega búinn að benda á, að kjötverðlagsn. hefir, strangt tekið, enga heimild til þess að líða þetta, því að í l. eins og þau nú eru, er slíkt bannað. Ég álít hinsvegar, burt séð frá þessu, að n. hafi breytt þar skynsamlega, eins og ég álít líka, að n. hafi stillt kjötverðinu mjög skynsamlega í hóf.

En þó að þetta hafi verið liðið í haust, þá er ekki nóg fengið með því. N. hefir gert þetta til þess að vekja ekki deilur eða úlfúð að óþörfu. En engin trygging er fyrir því, hvernig þetta verður haft næsta haust, þó að núv. nefndarmenn ráði þá. Og vel getur orðið skipt um menn í n., svo annað verði fyrir þá sök uppi á teningnum í þessu efni, ef ekki eru sett ákvæði um þetta atriði. Ef sú ætti nú að vera reglan, að þessi viðskipti væru leyfð milliliðalaus, ja. hvernig stendur þá á því, að ekki má setja það í 1., til þess að menn við þessa verzlun hafi það ekki á tilfinningunni, að þeir séu að brjóta lögin? Ég fyrir mitt leyti sé enga skynsamlega ástæðu fyrir því, að ekki megi lögfesta þetta.

Hæstv. ráðh. færði í síðari ræðu sinni þau aleinu rök, sem ég heyrði hann koma með í þessu máli gegn milliliðalausum viðskiptum, er hann sagði, að slík viðskipti gætu leitt til þess, að á vissum tímum yrði of mikið framboð á kjöti, og á hann þar auðvitað við sumarmánuðina, annan tíma getur hann ekki hafa átt við, því að haustið skiptir ekki máli í þessu sambandi, eftir að sláturtíð er byrjuð. Nú verður hæstv. ráðh. að gæta þess, að aðstaða bænda til að verzla með kjöt um sláttinn er erfið. Lítil líkindi eru til þess, að bændur mundu þá slátra fé til að senda kroppana á skipum eða bílum til að selja þá hér milliliðalaust. Eftir mínum till. er aðeins um einkaviðskipti að ræða. Samkv. þeim eiga einstakir menn ekki að hafa heimild til að bjóða kjöt sitt til sölu á frjálsum markaði, sem spillt gæti fyrir sölu á öðru kjöti, heldur aðeins heimild til þess að selja með fyrirfram gerðum samningum, þannig, að hönd seldi hendi. Þetta gæti orðið til þess, að minni sala yrði hjá sláturhúsum á sama tíma, en heildarútkoman yrði sú sama, kjötneyzlan yrði ekki minni verðið lækkaði ekki á kjötinu við það. Á því yrði engin hætta.

Fyrirspurn minni um það, hvernig ætti að gæta þess, að boðum þessara l. yrði framfylgt, svaraði hæstv. forsrh. þannig, að hann sagði, að fólkið væri svo þroskað, að það sæi, að l. þessi væru því til hagsbóta og myndi þess vegna fylgja þeim. Ég leyfi mér nú samt að efast um, að allir séu svo þroskaðir. En ég vil þó spyrja: Ef fólkið er svo þroskað, að það fylgir þessum 1. af greindum ástæðum, er það þá ekki nógu þroskað til að fylgja vissum reglum um að selja kjötið öðruvísi? Ég get ekki séð, þótt frv. yrði breytt eftir till. mínum, að það þyrfti að draga neitt úr þroska fólksins. Ekki held ég heldur, að hætta yrði á því, að bændur mundu undirbjóða sláturhúsin um kjötverð fyrir það.

Ég held, að ég hafi nú svarað aðalaðfinnslum hæstv. ráðh. um brtt. mínar. Get ég ekki séð, að neitt af þeim sé á rökum byggt né heldur fæli þær hv. þdm. frá því að greiða atkv. með brtt.

Ég játa það, að ég geri ráð fyrir, að 10. gr. frv. sé rétt skilin þannig, að kjötverðlagsn. sé heimilt að takmarka kjötflutninga á milli verðlagssvæða. En ég vil með þessari viðbót við gr. gera það enn þá skýrara, til þess að það sé algerlega fyrirbyggt, að koma þurfi til greina hárfínar lagaskýringar um atriði þessara l. L. geta því aðeins komið að verulegu gagni, að þetta sé heimilt. Hvers vegna þá að hafa það á huldu?