19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

27. mál, sláturfjárafurðir

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. vitnar í það, sem og er rétt, að nefndin, sem bjó til frv., hafi gengið vel frá því, og þess vegna sé varhugavert að breyta því. Mér skilst, að það væri sú röksemd, sem hann beitti sérstaklega gegn hv. þm. N.-Ísf. og hv. 2. þm. Rang. En ég vil benda hæstv. forsrh. á það, að nota þessa röksemd á sjálfan sig og leiðrétta það, sem hann hefir breytt í frv. eftir að afurðasölunefndin gekk frá því. Það eru eingöngu tylliástæður, að ekki megi hafa fleiri bændur í nefndinni. Ég veit ekki betur en þessi hæstv. ráðh. hafi gefið út 1., þar sem gert er ráð fyrir sjö manna nefnd. Hann hefir yfirleitt ekki bundið sig við ákveðna tölu, heldur hefir það verið eins og harmonika, sem draga má sundur og saman. Hæstv. ráðh. vill bregða mér um óhreinar hvatir. Vill hann þá ekki líka bregða afurðasölunefndinni um illar hvatir, því að hún hafði það eins og ég legg til? Þetta finnst mér að séu slæmar þakkir fyrir hennar góða starf.

Það er sagt, að þunnt sé móðureyrað. Hv. 4. landsk. hefir réttilega fundið, að rök hæstv. forsrh. væru ekki sterk. Ég skil vel, að hann skoði sig sem móður stjórnarinnar. (JBald: Það eru fleiri, sem hafa mömmur). Hefir ekki hv. 4. landsk. margar mömmur? Til þess að gera sér hægra um vik, sneri hann út úr því, sem ég sagði. Þetta verður að virða honum til vorkunnar. Hann hefir þurft þess með, rökin hafa verið lítil. Hann sagði, að ég berðist fyrir því, að framleiðendurnir skipuðu alla nefndarmennina. Þetta sagði ég aldrei, en ég sagði, að það væri svo í Noregi. Með brtt. ætlast ég til, að neytendurnir hafi ekki jafnmarga fulltrúa og framleiðendurnir.

Hv. 4. landsk. var með spádóma um það, að allt hefði strandað, ef aðrir en núv. stjórn hefðu lagt hér hönd að verki.

Ég veit ekki til, að nein óánægja hafi verið í Noregi um kjötsölumálið, og það er af þeirri ástæðu, að jafnaðarmennirnir þar eru sanngjarnari en jafnaðarmennirnir hér. Jafnaðarmennirnir í Noregi hafa líka notið þess, því þeir eru tiltölulega miklu fjölmennari en jafnaðarmennirnir hér. Þeir hafa t. d. alveg nýlega unnið góðan sigur í bæjarstjórnarkosningunum þar.

Hv. þm. brá mér um kímni. Ég vil nú vísa því frá mér. Ég er ekki vanur að viðhafa kímni í slíkum málum. En mér heyrðist aftur á móti á hv. þm., að hann væri fullur af kímni. Hv. þm. talaði um, að bændurnir vildu þrengja kosti neytendanna. Þessu vil ég kasta aftur til ræðumanns órökstuddu. Þeir hefðu auðvitað séð sinn hag í því, að þrengja ekki kosti neytendanna. - Þetta átti aðeins að vera stutt aths. og verð ég því að hætta, þó tilefni væri til að segja meira.