19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

27. mál, sláturfjárafurðir

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég skal reyna að misnota ekki leyfi hæstv. forseta. Ég er dauður og má ekki tala nema örstutt. En það vildi svo til, að hæstv. forsrh. þurfti að halda lengsta ræðu um brtt., sem ég ber fram, einmitt þegar ég var dauður. Honum hefir þótt sér henta það bezt. Hann var enn að vitna í það, að hann hefði viljað taka tillit til afurðasölunefndarinnar, en sagði, sem rétt var, að hún hafi verið ósammála um skipun kjötverðlagsnefndarinnar. En hvers vegna tók þá hæstv. forsrh. minna tillit til þeirra 5 eða 6 manna, sem mæltu með því, að Búnaðarfél. Íslands hefði fulltrúa í n., heldur en þess eina, sem á móti var? Var það af því, að hann hugði, að þessi eini, sem er fulltrúi kaupstaðarbúa, bæri hag bændanna fyrir brjósti heldur en fulltrúi bændanna sjálfra? (Forsrh.: Þeir voru þrír á móti). Það mun þá hafa gerzt á síðustu stundu, þegar önnur atriði eru komin þar til greina en voru í fyrstu, væntanleg stjórnarmyndun og annað slíkt.

Þá kvað hæstv. ráðh. það upplýst mál, að ef fyrrv. stj. hefði haft málið til meðferðar, hefði það ekki gengið fram hér á Alþingi. Það er þá þar með upplýst, að Framsfl. hefði gengið á móti málinu, ef hann hefði átt forgönguna og verið í stjórn; því að öðruvísi gat það ekki strandað. Það var yfirlýst af Bændafl., að hann fylgdi málinu, og ég man ekki betur en það standi í samþykkt landsfundar sjálfstæðismanna, að hann sé málinu meðmæltur. (PM: 1. þm. Reykv. hefði ekki drepið það einsamall!). Það hygg ég rétt vera, sem hv. sessunautur minn segir, að hv. 1. þm. Reykv. hefði ekki drepið það einn.

Þá sagði hæstv. forsrh., að afurðasölunefnd hefði getað lokið störfum fyrr. En það var svo, að þeir aðilar, sem áttu að tilnefna mann í n., voru ekki tilbúnir með sína tilnefningu fyrr en 20. marz. Og þá voru ýmsir, sem þarna áttu að vinna, bundnir annarsstaðar, einn t. d. í útlöndum nokkuð af tímanum, og svo um sjálfar kosningarnar. Hygg ég, að meiri hl. þeirra hafi verið frambjóðendur. Og ég hygg, að form. n. hafi gert það, sem í hans valdi stóð, til að flýta málinu. Vitanlega var ekki hægt að halda marga fundi meðan verið var að vinna úr skýrslum, sem lágu fyrir n. En ég tel, að störfum hafi verið flýtt eins og bezt varð gert.