25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

27. mál, sláturfjárafurðir

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þegar landbn. hafði þetta frv. til athugunar milli 1. og 2. umr., mun það hafa vakað fyrir nokkrum hluta n., að réttast mundi að breyta þessu frv. ekki nú, ekki vegna þess, að ekki mætti búast við, að á frv. væru einhverjir gallar, heldur frekar vegna hins, að þetta frv. er shlj. bráðabirgðal., sem nú eru í gildi og þar af leiðandi fæst reynsla um. Þessi hluti n. taldi heppilegra að breyta ekki frv. fyrr en reynslan væri talsvert búin að sýna sig, svo að þær breyt., sem gerðar kynnu að verða, yrðu meira til frambúðar. Nú komu fram margvíslegar raddir um breyt. sérstaklega við 2. umr. málsins, og eftir að, hafa athugað þær uppástungur, sem fram komu, varð n. sammála um að bera fram breyt. við frv. á þskj. 205. Þessar breyt. eru aðeins tvær og í tveim stafliðum hvor, og þykir mér rétt að gera örstutta grein fyrir því, í hverju þessar brtt. eru fólgnar. - Fyrri brtt. er við 3. gr. Stafl. a. gerir ráð fyrir því, að það verði settar samskonar reglur um sölu lifandi sláturfjár eins og um kjöt. Það var rætt um það við 2. umr., hvernig ætti að skilja frv. gagnvart þessu atriði, og ég var ekki alveg viss um, hvort menn voru sammála um það, en n. þótti rétt, að þetta atriði væri alveg augljóst, og það verður á þá leið, að leyfi þurfi til þess að verzla með lifandi sláturfé eins og kjöt. Það liggur líka í hlutarins eðli, að þetta er svo skylt, kjötið og sláturskepnan meðan hún er lifandi. N. fannst því sjálfsagt, að þetta hvorttveggja lyti sömu reglunni. Þá er jafnframt gert ráð fyrir því, að sala hangikjöts frá heimilum skuli vera frjáls, en greitt sé af því kjöti verðjöfnunargjald eins og öðru kjöti, sem selt er innanlands. N. athugaði það, hvort ekki væri rétt að heimila kjötverðlagsnefnd að veita heimild til þessa eftir beiðni, en komst að þeirri niðurstöðu, að úr því yrðu vafningar og skriffinnska, sem máske hefði í för með sér meiri kostnað en sem svaraði því, sem meira kynni að innheimtast af verðjöfnunargjaldinu.

Þá er í b-lið brtt. gert ráð fyrir því, að kjötverðlagsnefnd sé heimilt að veita einstaka mönnum undanþágu frá því að reka fé til slátrunar, þar sem sérstakir annmarkar séu á því. Þetta kom til umr. í d., og n. þótti því rétt að stinga upp á þessari leið til að bæta úr þeim óskum sem fram hafa komið um þetta efni.

Síðari brtt. er við 4. gr. frv., og er fyrri liðurinn einfaldur og auðskilinn, um að heimildin til verðjöfnunargjalds skuli hækka úr 8 aur. upp í 10 aur.

Mér þykir rétt að taka það fram, eins og stendur í grg., að einn nm., hv. 2. þm. Rang., er þessari brtt. ósamþykkur.

Það er nú vitað, að þetta frv. hefir tvennskonar tilgang, þann, að halda uppi hæfilegu verði á því kjöti, sem selt er innanlands, þó á þann hátt, að neytendum verði það ekki dýrara en þörf er á, og að halda uppi verði á því kjöti, sem selt er á útlendum markaði, og þetta verðjöfnunaratriði fjallar einmitt sérstaklega um það. Meiri hl. n. leit svo á, að eftir því útliti, sem nú væri á kjötsölu erlendis, væri enganveginn séð fyrir þessari hlið málsins með frv., og leggur því til, að heimildin færist úr 8 au. upp í 10 au.

Þá var brtt. hv. 10. landsk. á þskj. 174 tekin með. N. þótti einlægara að taka þetta saman í eina heild, af því að hún vildi standa saman um að samþ. þessar till. - Ég hefi svo ekki fleira að segja um brtt. fyrir n. hönd.