25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Umr. þær, sem hér hafa farið fram, hafa hnigið í sömu átt og þær umr., sem áður hafa farið fram um það, að undanteknum umr. um verðjöfnunarskatt. Gjaldið á að hækka úr 8 aur. upp í 10 aur. Þar sem hv. frsm. hefir gert grein fyrir brtt. þeirri, sem hér liggur fyrir um þetta efni, sé ég ekki ástæðu til þess að minnast sérstaklega á þetta atriði. En brtt. stefnir aðallega í þá átt, eins og hv. þdm. er kunnugt um, að heimila með undanþágum á þeim sviðum, sem gefnar eru undanþágur á frá lögum. Verði þetta lögfest, koma þessi lög til framkvæmda á þessu hausti. Það er t. d. svo með reykt kjöt og sömuleiðis fé á fæti, sem gefin er undanþága fyrir, þegar um litla sölu er að ræða, og ekki er gerð tilraun til þess að fara fram hjá lögunum.

Þá vil ég minnast lítils háttar á brtt., sem áður hefir komið fram, viðvíkjandi kjöti af mylkum ám. En umr. hafa aðallega snúizt um verðjöfnunargjaldið og hækkun þess.

Fyrst vil ég svara fyrirspurn frá hv. 5. landsk. viðvíkjandi kaupum á rúllupylsum. N. hefir ekki skipt sér af því; þær eru taldar vera kjötafurðir, og því er ekki álitið, að þær komi undir þessi lög. Það hefir ekki verið gefin út nein auglýsing um það. Það er því algerlega frjálst.

Það hefir verið deilt um það, hvort verðjöfnunargjaldið kæmi niður á framleiðendum eða neytendum. Ég geri ráð fyrir, að það megi segja, að það komi niður á báðum. Hv. 2. þm. Rang. sagði, að það kæmi aðallega niður á framleiðendum, það komi auðvitað niður í minni sölu, þegar verðjöfnunargjald sé sett á verðið, og komi þess vegna niður á innlendum markaði, einkum þegar verðið verður of hátt vegna verðjöfnunargjaldsins. (PM: Verðið er bara sett óeðlilega hátt). Þetta kemur ekki þannig fram, jafnvel þótt verðinu sé ekki stillt í hóf, vegna þess að það er selt á minna og minna svæði í kringum kaupstaðina nýtt kjöt. Þess vegna eru fleiri, sem nota útlenda markaðinn og fá því verðjöfnunargjald.

Hv. þm. gat jafnframt um það, sem ég tel rétt, að verðinu væri stillt svo í hóf, að ekki hefði komið að sök, a. m. k. ekki í Rvík, um sölu, þrátt fyrir það, sem á hefir dunið.

Viðvíkjandi því, að hv. þm. bar saman verðlag hér á Suðurlandi og annarsstaðar þar, sem kjöt er selt á erlendum markaði, er ástæða til þess að upplýsa það lítið eitt nánar. Ég hefi aflað mér þeirra upplýsinga hjá formanni verðlagsn. og fulltrúa forstjóra Sláturfélags Suðurlands. Verðlagningin er þannig, eins og hv. þdm. er kunnugt, að hún er 1,15 kr. á kg. á 1. fl. kjöti, 1,05 kr. á 2. fl. kjöti og 0,95 kr. á 3. fl. kjöti. Þetta er heildsöluverð frá Sláturfélaginu. Síðan reiknar það bændum 1,10 kr. fyrir 1. fl. kjöt, 1,00 kr. fyrir 2. fl. kjöt og 0,85 kr. fyrir 3. fl. kjöt. Það dregur 5 aur. frá verðinu á 1. og 2. fl. kjöti, en 10 aur. frá verðinu á 3. fl. kjöti. Þessir 5 og 10 aur. dragast frá fyrir kostnaði við rekstur og fleira. En síðan leggjast á kjötið, eftir að búið er að draga þessa 5 aur. frá, 80 aur. sláturkostnaður á hverja kind. Þetta gjald getur orðið hæst 8 aur. á kg., en að meðaltali fer það aldrei fram yfir 7 aur., því, eins og menn sjá, er varla um minni þyngd að ræða en að gjaldið verði 7 aur. pr. kg. Ef um rýra kind er að ræða, 10 kg. skrokk, þá er gjaldið hæst 8 aur. á kg. En mikið af fé er langt þar fyrir ofan. Síðan bætist við 6 aur. verðjöfnunargjald samkv. lögunum, og að lokum 3% skattur, sem félagið tekur frá, vegna áhættu og ýmislegs annars, því að ekki er unnt að sjá fyrir, að allt kjöt seljist. Að síðustu eru svo tekin 1¼% í sjóð. Þetta gerir allt 4-5 aur. á kg., svo að segja má, að það sé alls 5 aur. skattur á hvert kg. kjöts. Þetta allt samanlagt verður 18 aur. (7+6+5). Nú er 1. fl. kjöt reiknað á 1,10 kr.; þar frá dragast 18 aur. Þá eru eftir 92 aur. á hvert kg. En ég hefi heyrt, að búast megi við því, að verðið á 1. fl. verði 95 aur. á kg. Hvort sem það verður hægt strax eða ekki, þá verður a. m. k. greitt uppbótargjald í vor, ef með þarf, svo að verðið hlýtur að komast upp í 95 aur. Sama er að segja um 2. fl. kjötið. Verðið á því er 82 aur., og með uppbót í vor 85 aur. Verðið á 3. fl. verður þá 67 + 3 aur.= 70 aur.

Ef athugað er verðið á þessum flokkum, t. d. 95 aur. á 1. fl., þá er verðlagið langt yfir því, sem hægt er að gera sér von um, að menn geti fengið á erlendum kjötmarkaði. Eins og útlitið er nú, er ómögulegt að segja, hvað verðlagið verður. Það er mikið eftir óselt enn, sökum hins lága verðs í Englandi. Sama er að segja um verðið á söltuðu kjöti. Það var um 62 aur. á kg. í fyrra. Það má búast við því, að það verði lægra nú. Verð á frosnu kjöti á erlendum markaði var þá 80 aur. kg.

Það er ekki sama, úr hvaða héraði kjötið er. Verðmismunurinn á 1. fl. kjöti hjá þeim fer eftir sérmati. Það þýðir því ekki að bera saman 3. fl. kjöt sér og 1. fl. kjöt annarsvegar. Þá verður útkoman sú, að hér fást 95 aur. fyrir kg., en þeir, sem selja á erlendum markaði, fá meira en 60 aur., og ef til vill fá þeir, sem selja fryst kjöt, milli 70 og 80 aur. fyrir kg. Verðmunurinn er svo mikill, að líklegt er, að hann veki mikla óánægju. Þess vegna álít ég heppilegt, að þessum 2 aur. sé bætt við verðjöfnunargjaldið og það sé hækkað upp í 10 aur. Ég álít ekki heppilegt, að farið sé hærra. Aftur á móti tel ég fulla sanngirni mæla með því, að þeim sé bætt við, og það getur varla valdið óánægju. Aðstaðan er miklu betri, þrátt fyrir þetta.

Þetta vildi ég taka fram í sambandi við upplýsingar hv. 2. þm. Rang. um verðlagið á kjötinu. Það er rétt að taka það fram, að svo getur farið með erlendan markað, að ekki sé hægt að birta upp til fullnustu með verðjöfnunargjaldi. Það hefir t. d. verið svipað ástatt hjá Englendingum með mjólkurlöggjöfina. Þeir bættu upp verðið með verðjöfnunargjaldi. Það var gert í eitt ár. Síðan fór verðið svo niður á mjólkurafurðum, að þeir urðu að leggja fram fé í tvö ár, um 72 millj. króna, til þess að bæta upp verðlagið í mjólkurafurðunum. Verðjöfnunargjaldið innanlands þarf að vera svo hátt, að það geti bætt upp erlenda markaðinn. Ég álít, að með því sé þeim mönnum sanngirni sýnd, sem nota erlenda markaðinn.