25.10.1934
Efri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

27. mál, sláturfjárafurðir

Magnús Jónsson:

Hv. 2. þm. Eyf. þarf ég ekkert að svara. Hann vefengdi engar af tölum mínum, enda var það ekki hægt. Í þeim var einungis ein áætlunarupphæð, sem hæstv. forsrh. hefir nú upplýst, að er eins og ég áætlaði hana. Tölur mínar standa því allar. Það eru 11 kr. fyrir 12 kg. kroppa í heildsölu, og smásöluverð um 16,50 kr. Hitt er annað mál, hvort sá, sem selur kjötið, hefir aðstöðu til að fá heildsöluverð. Hvað verðjöfnunargjaldið snertir, þá þykir mér gaman að heyra hv. frsm. segja, að það geri neytendunum ekkert til. Með því viðurkennir hann, að kjötið myndi vera í svipuðu verði, þótt engar ráðstafanir hefðu verið gerðar. Þetta hygg ég, að sé alveg satt. Kjötverðlagsnefndin hefir farið svo hóflega í sakirnar, að verðið mun vera nálægt því, sem það hefði orðið, þó engin bráðabirgðal. hefðu verið sett.

Ég þarf í rauninni engu að svara hv. frsm. landbn. út af brtt. minni. Hann gaf ekki tilefni til neinnar deilu. Hann var að tala um, að ef hún yrði samþ., þá myndi það valda truflun. En hann sýndi aðeins ekki fram á, hverskonar truflun það myndi valda. Það væri kannske eðlilegt að tala um, að það myndi valda truflun, af brtt. hv. 2. þm. Rang. yrði samþ. En þar sem samkv. minni till. er aðeins um mjög takmörkuð viðskipti að ræða, þá get ég ekki skilið, að það myndi valda neinni truflun.

Mér þótti vænt um að heyra hjá hv. frsm., að það yrði að fara varlega að neytendunum. Þar er ég honum alveg sammála. En þetta er aðeins ekki í samræmi við till. landbn., þar sem lagt er til, að verðjöfnunargjaldið hækki upp í 10 aura, og því jafnframt lýst yfir, að þessi hækkun lendi á neytendunum. En því hélt hv. frsm. fram. Ég skal játa, til þess að fara alveg rétt með, að hann sagði síðar í ræðu sinni, að það kæmi líka lítið eitt niður á framleiðendum. Viðvíkjandi því, sem hann sagði um milliliði, að þeir væru góðir í þessu tilfelli, þá er það einmitt það, sem ég og margir aðrar hafa haldið fram, að milliliðir gætu oft verið alveg nauðsynlegir. - Ég skal svo ekki tefja umr. meira.