30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 649 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég er vitanlega þakklátur hv. þm. G.-K. fyrir góð ráð og leiðbeiningar. Að vísu tel ég ekki þörf á löngum umr. að þessu sinni, en ég kemst þó ekki hjá að svara hv. þm. nokkrum orðum. Það var rétt, sem ég sagði um mjólkurfrv. hans, að það var hv. þm. Mýr., sem fyrstur bar fram frv. í sömu átt. Það stendur líka óhaggað, að það voru hans eigin stuðningsmenn, sem snerust gegn frv. í Ed., þó að þessi hv. þm. þykist ekki lítill áhrifamaður í sínum flokki. Annars er það um þetta frv. að segja, að samkv. því átti að gerilsneyða þá mjólk, sem flutt væri til bæjarins, en ekki þá mjólk, sem framleidd væri hér. Afleiðingin hefði vitanlega orðið sú, að reist hefðu verið fjós hér í bænum og heyið flutt hingað.

Viðvíkjandi framkvæmd laganna er það að segja, að fyrir liggur embættisvottorð, sem sýnir það, að það var annar aðili, sem þar réði. Ég hefi afrit af því plaggi og skal láta færa það inn í nál., svo að það standi þar sem ævarandi minnisvarði um ósannsögli þessa hv. þm. Það var fyrrv. dómsmrh., sem stöðvaði framkvæmd laganna, og er auðvelt að sýna það og sanna. - Þá er stefna Sjálfstfl. í málinu. Það er nú komið í ljós, að hann vildi láta rannsaka, hvernig hægt væri að skipuleggja söluna. Það var allt og sumt, sem flokkurinn ætlaði að gera. En það er nú venjulega svo um þennan flokk, þegar hann ætlar eitthvað að gera, að hann gengur upp í sjálfum sér. Annar helmingurinn er með, hinn helmingurinn á móti, útkoman 0.

Hv. þm. talaði um, að við værum að ala á hatri milli sveita og kaupstaða. Þetta er ekki rétt. Við höfum deilt á stjórn Rvíkurbæjar, en ekki Reykvíkinga í heild, enda er það kunnugt, að við erum í samvinnu við þann flokk, sem hefir umboð meiri hluta vinnandi manna í bænum. Við höfum deilt á meiri hl. bæjarstj. og suma forystumenn bæjarins, en Framsfl. hefir sýnt það í verki, að hann er beinlínis velviljaður bæjarfélaginu í heild. En þegar þessi hv. þm. er að tala um Reykvíkinga, lítur helzt út fyrir, að hann muni aðeins eftir sér og mönnum af svipaðri stærð. Hann virðist alls ekki muna eftir hinu fólkinu, sem við erum ekki í neinni óvináttu við. Annars fannst mér hv. þm. komast undarlega að orði, þegar hann sagði, að við værum að „spana menn upp“. Það orðatiltæki hélt ég að væri yfirleitt ekki notað um menn með fullu ráði, að þeir væru „spanaðir upp“. En viðtökurnar, sem þetta mál fékk í herbúðum Sjálfstfl., voru í upphafi þær, að skrifuð var hin hatrammasta ádeilugrein á skipulagstillögurnar og Jón Árnason, og síðan hefir verið skrifuð grein eftir grein um málið í sama anda. En þessum greinum hefir verið svarað eins og svara ber, þegar Sjálfstfl. ræðst gegn góðum málstað. Þeim hefir verið svarað með einurð og harðneskju, en það er eina leiðin, sem ber árangur gegn óréttmætum árásum þessa flokks á góð mál. Reynslan hefir sýnt, að þegar risið er gegn illum málstað Sjálfstfl. með fullri festu og harðneskju, bognar hann að lokum undan svipum almenningsálitsins. Annars sýnist mér, að vel mætti láta þessa deilu falla niður, ef það er virkilega meining Sjálfstfl., að hann sé málinu fylgjandi.