30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

27. mál, sláturfjárafurðir

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Úr því að hv. þm. Mýr. fór að tala um, hver hefði átt forgönguna í mjólkursölumálinu, vildi ég geta þess, að hinn sanni brautryðjandi þessa máls er Eyjólfur Jóhannsson forstjóri. Eins og flestum hér mun kunnugt, er það hann, sem skapað hefir málinu það gengi, sem það þegar hefir fengið.

Hæstv. forsrh. vafðist tunga um tönn, þegar hann fór að tala um, hverjir hefðu staðið gegn framkvæmd málsins. Ég vil leyfa mér að spyrja: Er það satt eða er það ekki satt, að jafnaðarmenn hafi staðið á móti málinu? Hæstv. ráðh. vildi gefa í skyn, að Sjálfstfl., hefði fellt málið. Sannleikurinn er sá, að Sjálfstfl. var skiptur í málinu, en jafnaðarmannaflokkurinn stóð óskiptur gegn því. Ég vil skjóta því að hæstv. forsrh. að hann ætti að tala varlega um að reisa öðrum ósannindaminnisvarða, því að hann er sjálfur lifandi minnismerki ósannindanna. Ég endurtek það: lifandi minnimerki ósannindanna. Ég vil vekja athygli d. á því, að það er hæstv. forsrh. sjálfur, sem er banamaður mjólkurfrv. frá 1933. Hann reyndi að skjóta sökinni á fyrrv. dómsmrh., en sannleikurinn er sá, að hæstv. forsrh., sem áður var lögreglustjóri, neitaði í heilt ár að framkvæma lögin. Maður nokkur austan úr Flóa, sem selur mjólk í bæinn, kom á fund fyrrv. dómsmrh. og fór þess á leit, að framkvæmd laganna yrði frestað um nokkra daga. Fyrrv. dómsmrh. gaf þá tveggja daga frest, en hæstv. forsrh. leyfir sér að gefa honum að sök, að 1. voru ekki framkvæmd í lá mánuði. Svo er þessi maður að tala um að reisa öðrum minnismerki ósannindanna. Það er ekki ólíkt þessum hæstv. ráðh. að vera að skopast að því, að Sjálfstfl. vildi fá rannsókn í þessu máli. Allt, sem hann gerir sjálfur, er sem sé framkvæmt rannsóknarlaust. Það þarf enginn flokkur að fyrirverða sig, þó að hann vilji láta rannsaka þau mál, sem hann hefir með höndum. En þetta frv. sýnir, að ráðh. aðhyllist þá stefnu, að framkvæma án rannsóknar. En ég get sagt honum, að hann kemst aldrei langt, ef honum þykir það mestur sómi að framkvæma málin án rannsóknar. Hæstv. forsrh. miklaðist af því, að flokkur hans deildi ekki á fólkið í Rvík. Ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa grein úr Tímanum með fyrirsögninni „Óttinn við kjósendurna“. Þar segir m. a.:

„Þeir (bændur) finna vel, hvor flokkurinn er þeim heilladrýgri: Framsókn eða Íhaldið ... Íhaldið svífst einskis til að eyðileggja kjötsölulögin ... Það skelfur við þá tilhugsun, að Framsfl. uppskeri aukið fylgi fyrir það verk, sem hann álítur hlutverk sitt og skyldu að framkvæma (kjötsölulögin) ... Íhaldsm. fara hvíslandi um í sínum hóp og eggja hverjir aðra til að kaupa ekki kjöt ... Það er auðséð á Mbl., að andi íhaldsm. er reiðubúinn. Hitt er enn ekki reynt, hvort holdið verður veikt“.

Hverjir eru þetta íhald? Það eru sjálfstæðismenn í kaupstöðum landsins, en þeir eru fullur helmingur kaupstaðabúa í landinu. Ég veit, og það er að vísu virðingarvert, að hæstv. forsrh. þorir ekki að standa við þetta í þingsalnum. En það væri virðingarverðara, ef hann sæi um, að blöð hans héldu ekki áfram í þessum tón.