30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Manni verður oft á, þegar þessi hv. þm. stendur upp og ætlar að verja aðgerðir Sjálfstfl. á ýmsum málum, að detta í hug klár, sem beitt er fyrir of þungt hlass. Það er, eins og menn vita, hörmuleg sjón, sérstaklega ef hann er ekki vel járnaður. Menn eru vanir að hlæja að þessum rökum í hv. þm. í sambandi við ýms mál, sem flutt eru hér í deildinni. Þetta er í rauninni ekkert hlægilegt. Það er aðeins samvizka bóndans, sem hann finnur, að er í ósamræmi við hans eigin stétt. Þetta lýsir sér stundum í ópum frá hv. þm., eins og síðasta ræða hans bar greinilega vott um. Ræðan snerist um það, að vernda Sjálfstfl. og ítreka, að hann væri afurðasölunni hlynntur. Þetta reyndi hv. þm. af veikum mætti, en það fór eins og við var að búast, að hann færði engin rök fyrir máli sínu, en ópin gerðu aftur á móti það eitt að verkum, að hann heyrði ekki hvísl sinnar eigin samvizku.

Þrátt fyrir það, sem nú var sagt, vona ég samt, að hv. þm. sé ekki alveg blindur á skrift.

Það þarf ekki annað en að lána hv. þm. 23 árásargreinar blaða þess flokks, sem hv. þm. er í, sem skrifaðar hafa verið um afurðasölumálið. Það hefir sýnt sig, að það eina, sem dálítið dugir, er að svara slíku með fullri einurð, því að þm. Sjálfstfl. óttast svipu almenningsálitsins. Mjólkurlögin hafa verið svívirt meira en nokkur önnur lög, en nú lýsir Sjálfstfl. yfir því í Morgunbl., að mikill hluti sjálfstæðismanna sé lögunum fylgjandi. Þetta er ágætur árangur af því að fylgja málunum vel eftir með einbeittri einurð og hörku, þegar svo ber undir. Það hefir aldrei verið hægt að nota aðra aðferð við íhaldsflokk en að láta almenningsálitið beygja hann til hlýðni. Þeirri aðferð verður að beita í þessu máli, jafnt sem öllum öðrum. - Þetta hefi ég um skrif okkar framsóknarmanna að segja.

Það hefir komið fram till. um, að málinu ætti að fylgja rannsókn. Því ekki það! En við höfum bara staðreynd fyrir hendi viðvíkjandi því, hvernig málinu hefir verið tekið. Það er ómögulegt að gera lögunum meiri bölvun en gert hefir verið af hálfu flokks hv. þm. Flokkur hans hefir laumað inn í hvert hús í Rvík greinum, sem reyna af fremsta megni að spilla fyrir framkvæmd þessara laga. Það er þetta, sem stýrir almenningi, en ekki það, hvernig einstakir menn tala, þegar kemur til framkvæmda. Það eru blöðin, sem snúa neytendunum í þessum bæ og ráða því að mestu, hvernig framkvæmd þessara laga verður.

Rök hv. þm. voru frekar léleg, eins og vænta mátti. Sama röksemdafærsla kom fram í seinni hluta ræðunnar, t. d. að því er viðvék rýra fénu fyrir austan fjall. Hv. þm. var svo heitur, að hann hafði engin tök á því, sem heitir rök. Hann sagði t. d., að þeir, sem byggju fyrir austan fjall, yrðu að borga verðjöfnunargjald af sínu fé til þess að halda norðlenzka kjötinu uppi. Þetta er hin mesta fjarstæða og hræðilegasta rökvilla, sem hægt er að færa fram í nokkru máli. Það er rétt, að einstakir fjáreigendur á Suðurlandi eiga rýrara fé en bændur á Norðurlandi, og þess vegna þurfa þeir vitanlega frekar á því verði að halda, sem fæst með kjötlögunum, til þess að geta komið kjötinu á markaðinn og fengið hærra verð en ella. Vitanlega er ekki hægt núna að losna við það, að ákvæðið viðvíkjandi verðjöfnunargjaldinu sé miklu frekar sett vegna þeirra, sem búa á Suðurlandi og eiga að búa við þessi lög, en fyrir þá, sem eiga nú við verðjöfnunargjald að búa. Sumstaðar á Suðurlandi er mismunurinn á verðlagningunni svo mikill frá því, sem er nú erlendis, að mikil hætta getur orðið á því, að framkvæmd laganna takist ekki, svo framarlega sem ekki verður komið meiru samræmi á þessu viðvíkjandi. Það er ekki hægt að halda kjöti frá stöðum, sem eru stutt frá, t. d. í Strandasýslu og Húnavatnssýslum, frá markaðinum. Það er mesti misskilningur, að verðjöfnunargjaldið sé til þess að létta eingöngu undir með bændum á Suðurlandsundirlendi, vegna þess að það verður að setja þetta ákvæði, til þess að hægt sé að halda framkvæmd laganna uppi. Verðið er nú 95 aur. fyrir kg. af 1. fl. kjöti á markaðinum í Rvík og annarsstaðar hér á landi. Það eru engin líkindi til þess, að þeir, sem selja kjöt á erlendum markaði, fái meira en 50-60 aur. fyrir kg. af söltuðu kjöti og 70 aur. fyrir fryst kjöt. Verðmismunurinn verður því 20-25 aur. Vitanlega er ekki hægt að bæta upp verðmuninn nema að nokkru leyti, á meðan verðjöfnunargjaldið er eins og það er nú. Þess vegna er það sett fyrir þá, sem búa á Suðurlandi, til þess að hægt sé að halda lögunum uppi, því að ef verðjöfnunnargjaldið er ekki hækkað, þá er ósamræmið svo mikið, að ómögulegt er að halda þeim úti af markaðinum, sem verða að nota erlendan markað. Því meiri þörf er á því að vernda þessa framleiðslu, ef það er rétt, sem hv. þm. Borgf. segir, að þessi framleiðsla sé mjög rýr.

Viðvíkjandi einstökum atriðum laganna, sem hv. þm. spurðist fyrir um, t. d. því, hvað gert yrði viðvíkjandi leyfum um sláturfé, get ég tekið þetta fram:

Það verður leyft að verzla með sláturfé, að svo miklu leyti sem n. telur ekki, að slík sala sé notuð til þess að fara í kringum lögin. Annars munu einstök atriði laganna verða rædd, þegar málið kemur til 2. umr., og þau hafa verið rædd í nefnd.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. tók fram um mjólkurmálið, vil ég segja það, að það var í fullu samræmi við hinn hluta ræðu hans. Hann varði einum þriðja parti af ræðutímanum til þess að tala um mjólk. Ástæðan til þess var sú, að hv. þm. G.-K. hafði farið rangt með, og það þurfti að leiðrétta hans ummæli í þessu efni. Þetta er í nánu samræmi við annað hjá hv. þm.

Meira ætla ég ekki að segja um þetta mál að sinni. Ég hefi nú svarað ræðu hv. þm., sem var miklu meira hávaði um þetta mál heldur en rök. Það er að vísu eðlilegt, því að það er ókleift að færa rök fyrir því, að Sjálfstfl. sé þessu máli hlynntur.