30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

27. mál, sláturfjárafurðir

Gísli Guðmundsson [óyfirl]:

Eins og menn hafa heyrt, hefir einn sjálfstæðismannanna hafnað tilboði mínu. Það er í fullkomnu samræmi við þá aðferð, sem flokkur hans beitir í báðum hv. þd., sem sé að tefja fyrir framgangi mála með málþófi. Það er ekki nema sjálfsagt og rétt, að þetta komi fram í þingtíðindum, til þess að landsbúar geti séð, hvernig framkoma Sjálfstfl. er í þessu efni. Þetta er sérstaklega ákjósanlegt, þar sem blöð þeirra hafa borið á móti því, að flokkurinn beitti þessu málþófi.

Sumum þykir mér ef til vill liggja of lágt rómur, samanborið við rómstyrkleika sjálfstæðismanna undanfarið. Það verður þá að hafa það, enda geri ég ekki ráð fyrir að þurfa að hafa eins hátt og þeir.

Ég vil vekja athygli á einu atriði strax, og það er framkoma þeirra tveggja hv. þm., sem hér hafa talað um þetta mál af hálfu Sjálfstfl. Ég vil ekki láta hjá líða að benda á þetta, vegna þess að það hefir víða verið talað um, að ekki væri fullkomlega gætt þess velsæmis í þinginu, sem nauðsynlegt er að gera. Ég vil vekja athygli á háttsemi hv. þm. G.-K. og hv. þm. Borgf. Það hefir komið fyrir þá báða, að munnsöfnuður þeirra hefir verið svo ljótur, að hæstv. forseti hefir neyðzt til þess að áminna þá. En í stað þess að taka þetta til greina, hafa þeir endurtekið þau orð, sem þeir voru búnir að segja og höfðu verið víttir fyrir. Þegar hv. þm. sækjast eftir að láta sem skýrast koma fram vitavert orðbragð, þá finnst mér það ekki geta bætt velsæmið á þingi, sem margir telja, að sé mjög ábótavant.

Annars vil ég nú snúa mér að málinu sjálfu og vekja athygli á upphafi þessara umr. Hæstv. forsrh. reifaði málið með nokkrum orðum, án þess að ráðast á nokkurn. Út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði, vil ég taka það fram, að mér finnst hv. þm. vera frekar heyrnarsljór, ef hann hefir ekki tekið eftir því, hvernig hv. þm. G.-K. talaði. Hann var með ásakanir í garð Framsfl. þess efnis, að hann réðist á sjávarútveginn. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. Borgf. geti komizt hjá því að viðurkenna, að slík ummæli séu ekki sem bezt til þess fallin að draga úr deilum um þetta mál. Fyrst sjálfstæðismenn hafa sjálfir talið það heppilegt að gera að umræðuefni, hvort þeir hafi í raun og veru sýnt þessu máli óvild, er rétt að ég fari fáum orðum um það atriði. Ég skal taka það fram, að ég mun ekki ráðast á menn eða hafa háreysti í frammi meira en tilefni gefst til af hálfu þessara manna sjálfra. Ég vil minna á, hvernig þetta mál hefir borið að, hvernig skipulagning á landbúnaðinum og framkvæmd hennar hefir borið að. Í fyrra haust var hafinn undirbúningur um þetta mál af þeim mönnum, sem mestra hagsmuna hafa að gæta í þessum efnum, bændastéttinni og samvinnufélögunum. Þau hófu síðan undirbúning með till. um skipulagningu kjöt- og mjólkursölu síðastl. haust. Það mál hefir verið rakið opinberlega, svo að mönnum er það að sjálfsögðu kunnugt.

Það næsta, sem gerist í þessu máli, er, að það er tekið til meðferðar á aukaþinginu fyrir nýár í fyrra. Næst koma fulltrúar samvinnufélaganna á fund til þess að hefja nánari undirbúning málsins. Frá þessum fundi koma ýtarlegar till. um skipulagningu kjöt- og mjólkursölunnar. Um þessar till. er það að segja, að þær eru í öllum aðalatriðum eins og sú skipulagning, sem lögfest var með bráðabirgðal. í ágúst og september síðastl. Þessum till. hefir ekki verið haldið leyndum. Þær voru birtar í blöðum og sendar til þáv. atvmrh. Þessar till. voru í öllum aðalatriðum eins og það skipulag, sem lögfest hefir verið frá því í apríl á síðastl. vori. Það var öllum opinn aðgangur að þeim. Ég vil vekja athygli á því, að þrátt fyrir það, þótt þessar till. lægju opnar fyrir öllum blöðum og þeim, sem hlut áttu að máli, þá varð samt ekki vart við, að þá væri í blöðum Sjálfstfl. gerð nokkur tilraun til þess að koma með rökstudda gagnrýni á þessum lögum. Það er rétt hjá hæstv. forsrh., að þegar till. voru birtar og skýrt var frá fundi samvinnufélaganna, þá birtist í Mbl. árásargrein á einn af framkvæmdarstjórum Sambandsins, en till. sjálfar voru ekki teknar til meðferðar. Það var ekki bent á, í hverju till. væri áfátt, og það var ekki bent á breyt., sem flokkurinn vildi gera.

Ég vil átelja Sjálfstfl. og blöð hans fyrir það, að gagnrýna ekki strax, þegar opinbert var, að hverju stefnt var, og bera fram sínar eigin till., svo að unnt væri að ræða þær jafnframt því, sem grundvallartill. skipulagningarinnar voru ræddar.

Sjálfstfl. hefir enga afsökun í þessu máli, og hann verður að viðurkenna, að nauðsynlegra var, að flokkurinn kæmi með rökstudda gagnrýni í blöðum sínum og tillögur viðvíkjandi þessu máli, í stað þess að birta skætingsgreinar um þau félög, sem hrundu þessu máli af stokkunum. Ég hygg, að það hafi verið skömmu eftir fund samvinnufélaganna, að fyrrv. atvmrh. skipaði mþn. í afurðasölumálinu, sem skyldi rannsaka það mál og gera till. um það. Þessi mþn. fékk sendar till. þær, sem gerðar höfðu verið á fundi samvinnufélaganna, og tók þær til meðferðar. N. sat að störfum þangað til seinni hluta síðastl. sumars. Það er mesta fjarstæða, sem hv. þm. G.-K. sagði, að Framsfl. vildi hrinda þessu máli af stað án rannsóknar. Þetta mál hefir, eins og bæði ég og aðrir hafa bent á, verið mikið rannsakað, þótt það sýni sig, þegar það kemur undir reynsluna, hvort nauðsynlegt verður að gera ýmsar smábreyt. á því.

Í framhaldi af því, sem ég hefi nú sagt viðvíkjandi því, að Sjálfstfl. og blöð hans hafa vanrækt þá skyldu sína sem stjórnmálaflokkur, að koma með rökstudda gagnrýni á byrjunarstigi málsins, vil ég halda áfram að minnast á, hvernig þessi flokkur tók málinu síðar. Eins og kunnugt er frá kosningunum síðasta sumar, var gert samkomulag milli þeirra flokka og þeirra þingmanna, sem mynda meiri hl. þingsins og standa að stj., um ýms mál, sem þessir flokkar ætla að vinna að og nýja stj. ætlaði að vinna að. Meðal þessara mála var sérstaklega tilgreint, að hæstv. stj. og flokkarnir ætluðu að vinna að því að skipuleggja afurðasöluna, kjötsöluna og mjólkursöluna.

Hvað gerði Sjálfstfl. og blöð hans? Þau þögðu. Hvers vegna komu þau ekki þá með sitt álit, þegar n. skilaði áliti sínu? Þegar nýja stj. kom, skrifuðu þau ádeilugreinar um stj. og þá, sem að henni stóðu, en þögðu um þessi höfuðmál. En svo gerist það, þegar núv. stj. gefur út bráðabirgðalögin um kjötið og síðan bráðabirgðalögin um mjólkina, að þá byrja blöð Sjálfstfl. að taka til máls um meginatriði skipulagsins. Þá fyrst ræða þau málið á þeim grundvelli, sem eðlilegt hefði verið að ræða þau á áður en l. komu fram, - og það er eftirtektarvert, á hvern hátt þetta er gert. Og því vil ég slá föstu í eitt skipti fyrir öll, að þó að hv. þm. Borgf. kynni að hafa verið skipulagningunni fylgjandi, þá er það óafsakanlegt fyrir hann að þegja við því, að þau blöð, sem tala fyrir munn hans flokks, geri allt, sem í þeirra valdi hefir staðið, til að gera málið tortryggilegt. Ef hann hefði viljað þessu máli vel, þá átti hann sem ábyrgur maður í sinum flokki að kveðja sér hljóðs og segja, að hann væri ósamþykkur því, sem hans blöð sögðu um þetta mál. Það, sem hv. þm. gerir með þessu aðgerðarleysi sínu, er það, að hann hefir þolað sínum blöðum í þetta langan tíma að vinna málinu allt það tjón, sem þau gátu, þó að þau hinsvegar virðist ekki hafa verið þess umkomin að hafa þar mikil áhrif. En hv. þm. hefir engu að síður þá vanrækslusynd á samvizkunni að reyna ekki að koma í veg fyrir, að blöð hans gerðu það illt af sér, sem þau gátu.

Ég vil minna á það, hvernig blöð sjálfstæðismanna tóku til máls um þessi mál. Ég man ákaflega vel eftir þeim greinum, sem komu út í Mbl. um kjötlögin fyrst eftir að þau voru gefin út.

Það, sem fyrst var gert, var að vekja athygli á því tiltölulega góðlátlega, að þetta mundi ekki vera gert með hagsmuni Rvíkur fyrir augum og verið að ýta við Alþfl., að ekki væri víst, að þeir væru vel á verði fyrir sínu flokk. Þetta var tilraun til að koma á sundrung milli stjórnarflokkanna um þetta mál. Var þar beitt allri þeirri lagni og hugviti - þó að ekki sé nú mikið til hjá þeim af slíku -, sem þeir höfðu á að skipa.

Það, sem næst kom, var að tala við bændur. Þeim var bent á það, að nú væru komin út kjötlög frá nýju stj. og þeir beðnir um að hugleiða það nú vel, að þótt þau kynnu að verða sumum til góðs, þá mundu þau verða öðrum til tjóns. Þarna var slegið á þá strengi, sem hættulegast var að slá á fyrir málið, að reyna að koma inn tortryggni hjá bændum milli sveita og landsfjórðunga um þessi l., reyna að koma því til leiðar, að bændur yrðu sjálfum sér sundurþykkir. Dag eftir dag og viku eftir viku hefir verið alið á þessari tortryggni í blöðum sjálfstæðismanna og reynt að koma inn sem mestri úlfúð hjá bændum vegna mismunandi hagsmuna þeirra í ýmsum landshlutum og reynt að halda því að mönnum, að hér væri verið að tryggja nokkrum bændum hagsmuni á kostnað allra hinna. Menn geta gert sér í hugarlund, hvort hægt hafi verið að finna upp á að skrifa nokkuð, sem hefði getað orðið framkvæmd málsins til meira tjóns en einmitt þetta.

Ég hjó eftir því hjá hv. þm. G.-K., þar sem hann var að sýna fram á, að Sjálfstfl. hefði verið þessu máli hlynntur frá upphafi. Hann vitnaði þar í till., sem hefði verið samþ. í þá átt á síðasta landsfundi sjálfstæðismanna. En þegar svo hæstv. ráðh. skoraði á hann að lesa upp þær till., sem þar hefðu verið samþ. taldi hann það ekki henta. (ÓTh: Ég las hana upp). Hann las upp það, sem sagt var um málið á landsfundi sjálfstæðismanna, en ef hann hefir þar í innifalið þessa till., þá hefir hann gert það svo ógreinilega, að ómögulegt hefir verið að sjá, hver till. hefir verið, og ég geri ráð fyrir, að enginn þeirra, er á hlýddu, hafi getað fundið það út úr þessum lestri, hver þessi ályktun hefir verið.

En það, sem ég vildi vekja athygli á í þessu sambandi, er það, að það, sem hv. þm. G.-K. þykist sanna með samþ. þessarar till., er, að Sjálfstfl. hefir ekki verið á móti að rannsaka þessi mál. Hér er þá komið að því, sem mér virðist vera meginkjarni þessa máls og sýna þann mikla mun, sem er hér á afstöðu framsóknarmanna og sjálfstæðismanna til þessara mála. Þeir hafa ekki verið á móti skipulagningu afurðasölunnar, svo lengi sem ekki var um neitt annað en rannsóknina að ræða. En undir eins og það augnablik kemur, að í stað rannsóknarinnar komi framkvæmd, þá snúast þeir á móti málinu. Þetta er sá mikli afstöðumunur sjálfstæðismanna og framsóknarmanna, sem hafa nú komið þessu merkilega og vandasama máli úr rannsókn og í framkvæmd.

Ég veit það vel, að stj. og flokkar hennar hefðu á ýmsan hátt getað átt rólegri og næðissamari daga með því að gefa ekki út þessi l. og beita sér yfirleitt ekki fyrir að þessi skipulagning hefði komizt í kring. Það hefði verið ólíkt fyrirhafnarminna að hugsa um, að líma prófessorstitil á þennan eða hinn, en taka ekki á vandamálum þjóðarinnar. En það er nú svo, að menn eru kjörnir fulltrúar þjóðarinnar til að leysa þau helztu vandamál, sem fyrir liggja, þó að það kunni að vera óþægilegt að verða fyrir það að sitja undir ádeilum, og þeim ekki sanngjarnari en nú hafa komið frá hv. þm. G.-K. og hv. þm. Borgf. Þeir, sem leyfa sér að fara fram á það að fá umboð frá almenningi, verða að hafa manndóm til að taka á málunum, ekki aðeins að láta rannsaka, heldur einnig til að framkvæma.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri, en ég vildi ekki láta hjá líða að benda á þau atriði í framkomu sjálfstæðismanna gagnvart þessu máli, sem mér virðast mest áberandi.

Ég skal taka það fram, að ég hefði ekki séð ástæðu til að benda á þetta hér á þingi, ef ekki hefði gefizt svo ríkt tilefni til þess frá hv. þm. G.-K., og reyndar líka frá hv. þm. Borgf. Þeir mega sjálfum sér um kenna; þeir hafa sjálfir tekið sér þessa lítilmótlegu afstöðu, sem þessi flokkur og hans blöð hafa haft um þetta mál. Ég leyfi mér að segja þá lítilmótlegu afstöðu. Það eina, sem þessi flokkur hefir gert opinberlega í þessum málum, réttlætir fullkomlega, að þau orð séu höfð um þeirra frammistöðu, því að þessi flokkur hefir fyrst og fremst sýnt sig gersamlega óhæfan til að taka á þessu máli til nokkurs gagns, en lætur ekki við það sitja, heldur reynir að vinna málinu hverskonar ógagn, en þegar hann sér, að það er árangurslaust, gerir hann þá einstöku ráðstöfun, að samþ. og láta hv. þm. G.-K. birta í blöðunum yfirlýsingu um, að flokkurinn hafi enga stefnu í málinu, þessu stærsta máli bændastéttarinnar eins og nú er, en flokkurinn komi sér saman um að vera klofinn í tvær deildir, önnur deildin með málinu, en hin á móti. Þessi síðasta aðgerð flokksins er fyllilega í stíl við það, sem ég hefi leyft mér að kalla lítilmótlega afstöðu.