30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

27. mál, sláturfjárafurðir

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það verður ekki um það deilt, að upptök þessa máls er að finna í þál., sem borin var fram á síðasta þingi af Jóni í Stóradal.

Mér er gleðiefni að sjá, hverja meðferð málið hefir fengið, þar sem það hefir að sumu leyti verið fært í það horf, sem ég hélt fram, að ætti að vera, en var þá aðeins skoðað sem yfirboð frá Bændafl. Nú er svo komið rás viðburðanna, að í þessu efni þykir nauðsynlegt að gera það, sem ég lagði þá til. Ég vænti, að rás viðburðanna eigi enn eftir að sýna, að það verður réttast að fara í þessu efni eftir því, sem fulltrúar bændanna vilja. Ég vil í því efni benda á, hvort ekki sé rétt að athuga, hvort ekki verði heppilegast að fá þessi mál í hendur þeim, sem hafa fullkominn rétt á að fara með þau, sem sé framleiðendunum einum. T. d. er það svo í Noregi, að þar er yfirstjórn þessara mála í höndum framleiðendanna sjálfra. Þetta vil ég vænta, að verði vandlega athugað. Ég sé ekki, að bændur hafi sýnt svo mikla óbilgirni í kröfum sínum, að ástæða sé til að hábinda þá með rauðum leppum úr flíkum sósíalista eins og gert er með till. stj., og það einmitt þeirra, sem alltaf hafa tvíeyring með gati í gleraugnaumgerðinni til að horfa í gegnum þegar meta skal hlut bænda.

Hæstv. forsrh. lét þess getið í umr. um þessi mál á fundi austur í Árnessýslu, að bændur væru búnir að fá 2 aura í vasann fyrir framkvæmd þessara l. Því miður eru þessir 2 aurar ekki komnir enn, og verður kannske langt þangað til þeir koma. Kannske það komi líka í ljós, að l. eins og stj. gekk frá þeim hafi ekki verið þess megnug. Verið getur, að þeir komi þá auga á, að á þessum l. hafi a. m. k. verið missmíði í sumum greinum, þó að þeir hafi ekki viðurkennt það enn.

Hæstv. ráðh. sagði, að bændur, sem seldu á erlendum markaði, hefðu ekki fengið nema 60-70 aura fyrir 1. flokks kjöt, eða þar fyrir neðan. Ef hæstv. ráðh. hefir ætlað að gera sig góðan í augum þessara sýslubúa bara fyrir það, að þeir gætu haft hagnað af þessum l. á kostnað annara, þá getur hann ekki búizt við, að 1. fái almennt fylgi. Þetta er alveg sama og hann var að halda fram, þegar hann var að tala um lækkunina á mjólkinni. Hann sagði, að hún snerti ekkert menn fyrir austan fjall, heldur aðeins sunnan fjalls. En ef þessi l. eiga að verða þannig, að gróði eins byggist á tapi annars, þá ná þau seint almenningshylli. Það verður að haga l. svo, að allir verði jafnir fyrir þeim og allir njóti jafnt góðs af þeim í framkvæmdinni.

Hæstv. ráðh. sagði, að menn ættu að vinna að framgangi góðra mála með fullkominni einurð og hörku. Manni getur orðið nærri því óglatt af að heyra þennan hæstv. ráðh. tala um að sýna fullkomna einurð og hörku, þegar hann er nú genginn undir ok sósíalista. Manni detta í hug búrtíkurnar, sem skriðu hræddar undir pilsfald húsmóðurinnar og fitjuðu þar upp á trýnið.

Það, sem er viðurkennt í þessu máli, er það, að sá hluti stj., sem telur sig fulltrúa bændanna, hefir ekki sýnt einurð og hörku og ekki einu sinni komið fram gagnvart samherjum sínum með manndómi, því að einnig þeir hafa orðið að beygja sig undir vilja sósíalista.

Ég vænti þess, að þessi löggjöf fái þær endurbætur, að það verði viðurkennt, að bændur landsins fái rétt til þess að vinna að framkvæmd sinna mála, en ekki fengið þeim í hendur, sem vinna málstað þeirra tjón. Þó að það verði kannske ekki á þessu þingi, þá trúi ég ekki öðru en að bændur eigi enn svo mikla sjálfsvirðingu, að þeir láti ekki bjóða sér, að fulltrúar þeirra afsali til sósíalista rétti þeirra til að hafa með höndum sín eigin mál.