30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

27. mál, sláturfjárafurðir

Garðar Þorsteinsson:

Hæstv. forsrh. hóf mál sitt á því að tala um roku hjá hv. þm. G.-K., og honum þótti þetta orð svo gott hjá sér, að hann notaði það líka um ræðu hv. þm. Borgf. Er líklegt, að hann sjái ástæðu til þess að breyta þingsköpum með bráðabirgðalögum fyrir næsta þing til þessa að kalla ræðu roku.

Hv. þm. N.-Þ. sagði, að það væri gott, að það kæmi í Alþt., að aðrir hv. þdm. hefðu ekki fallið frá orðinu, þótt hann byðist til þess. Það er gott, að hv. þm. skuli hafa ánægju af þessu, en okkur andstæðingum hans þykir bezt, að sem flestar ræður eftir hann birtist í Alþt., og höfum því enga ástæðu séð til þess að svipta lesendur Alþt. þeirri ánægju í þetta skipti, og ætti hann að vera þakklátur mér fyrir það.

Hitt þótti mörgum öllu óviðfelldnara, þegar þessi hv. þm. fór að tala með vandlætingu um orðbragð annara hér á Alþingi. Sú umvöndun hefði fremur átt að koma úr annari átt en frá ritstjóra Tímans, sem m. a. hefir verið dæmdur í hina þyngstu sekt hér á landi fyrir róg, níð og illmælgi, svo að flokksbróðir hans, sem þá var dómsmrh., neyddist til þess að láta konung náða hann. (GG: Sá dómur var ómerktur). Ekki nema með náðuninni, en hinsvegar voru öll orð hv. þm. ómerkt.

Hæstv. forsrh. gerði sér mjög tíðrætt um afstöðu tveggja dagblaða hér í bænum til afurðasölumálsins. En hvað sem þeim skrifum liður, hefir nú formaður Sjálfstfl., hv. þm. G.K., bent honum á tillögur og samþykktir landsfundar sjálfstæðismanna um þetta efni, og ég býst við, að hæstv. forsrh. kannist við, að slíkt marki stefnu hvers flokks út á við, fremur en blaðagreinar eftir hina og þessa.

Það skipti engu máli, þótt frv. til mjólkurlaga hafi einhverntíma verið borið fram af nefnd í allt annari mynd en það kom á sínum tíma frá hv. þm. G.-K. En hitt skipti máli, að hv. þm. G.-K. hefir markað í þessu máli afstöðu Sjálfstfl.

Yfirleitt á hæstv. forsrh. ekki gott með að tala um mjólkurlögin og framkvæmd þeirra. Annar stuðningsflokkur hans, sósíalistar, voru óskiptir á móti lögunum á þingi, er þau voru borin fram. Í efri deild sætti frv. þeirri meðferð, að ekki voru nema tvær greinar eftir af því að lokum, og það var fyrst og fremst fyrir atbeina þess manns, sem hv. þm. S.-Þ. lét framsóknarmenn í Árnessýslu samþ. alveg nýlega, að væri bezti maður héraðsins, Egils Thorarensen. - Ég sé, að hæstv. forseti lítur til mín. Honum lízt ef til vill ekki meira en svo á þessa ákvörðun flokks síns um það, hver teljast skuli bezti maður Árnessýslu. - Egill Thorarensen kom á fund landbn. og óskaði eftir því, að greinin um verðjöfnunargjaldið væri tekin út. Hæstv. forsrh. stendur því illa að vígi í þessu máli, þar sem aðalatriði frv. var fellt niður fyrir áróður flokksbróður hans, „bezta mannsins í Árnessýslu“.

Annars stóð ég að þessu sinni fyrst og fremst upp vegna hinnar ósvífnu staðhæfingar hæstv. forsrh. um það, að framkvæmd mjólkurlaganna hafi stöðvazt af völdum fyrrv. dómsmrh., hv. 1. þm. Skagf. Hann kveðst geta sannað þetta með embættisvottorði frá fulltrúa sínum, er hann hafi fengið sent, er hann var á kosningaleiðöngrum sínum í vor. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að fulltrúinn hafi sýnt þá óskammfeilni að gefa út slíkt vottorð í embættisnafni. Það er sannanlegt, að margsinnis var hringt úr dómsmrn. til lögreglustjóra og fyrirskipað að framkvæma lögin. Þetta veit ég, að hæstv. forsrh. er vel kunnugt. Það samtal, sem hæstv. forsrh. var að vitna í við fyrrv. dómsmrh. um frestun á framkvæmd laganna, var þannig vaxið, að maður einn úr Árnessýslu, sem dæmdur hafði verið fyrir brot á lögunum, bað um frest á framkvæmd dómsins þangað til eftir hvítasunnu, eða aðeins þrjá daga. Dómsmrh. varð við þessari ósk og hringdi upp á lögreglustjóraskrifstofu og lagði til, að þessi frestur væri veittur. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að mjólkurmálið er ekki hér til umr. - ÓTh: Um hvað talaði hv. þm. N.-Þ.? - Forseti: Hann talaði um undirbúning kjötsölumálsins). Nei, hann talaði um mjólkurmálið, í því skyni, að ófrægja Sjálfstfl. með ósannindum, og hið sama gerði hæstv. forsrh., er hann hélt því fram, að fyrrv. dómsmrh. hefði eyðilagt framkvæmd laganna. Hæstv. forsrh. er þó vel kunnugt, að fyrir liggur bréf frá dómsmrn., þar sem lögreglustjóri er beðinn að framkvæma lögin. Ég fór fyrir skömmu upp í stjórnarráð og bað um að fá að sjá þetta bréf, en skrifstofustjórinn kvaðst ekki hafa leyfi til að sýna það án samþykkis dómsmrh. Og nú vil ég skora á hæstv. forsrh. að veita mér og öðrum þm. Sjálfstfl. fullan aðgang að öllum þeim skjölum, sem farið hafa á milli dómsmrh. og lögreglustjóra um þetta mál. Annars finnst mér það alveg furðulegt, að hæstv. forsrh. skuli flytja mál sitt þannig, að hægt sé þegar að reka ósannindi hans skjallega ofan í hann.

Og ég vil ennfremur spyrja hæstv. forsrh. að því sem lögfræðing, hvernig dómsmrn. hefði átt að geta stöðvað framkvæmd gildandi laga. Þótt hann hefði fengið einhver tilmæli frá dómsmrn. um að framkvæma ekki lögin, sem sannað er, að er alveg tilhæfulaust, þá bar honum sem lögreglustjóra tvímælalaus skylda til þess að framkvæma lögin. Lögreglustjóri hafði ekkert leyfi til að hlýða slíku banni frá dómsmrn. Hvernig sem á málið er litið, er því alveg augljóst, að hæstv. forsrh. hefir sem lögreglustjóri þverbrotið mjólkurlögin með því að framfylgja þeim ekki.

Það er annars athyglisvert, að hæstv. forsrh. skyldi forðast eins og heitan eldinn að víkja að þessari hlið málsins í Ed. En það stafar vitanlega af engu öðru en því, að þar var fyrrv. dómsmrh. til andsvara, en hér treystir hæstv. forsrh. því, að honum haldist uppi að fara með ósvífin ósannindi í fjarveru hans. Það er ekkert undrunarefni, þótt hv. þm. N.-Þ. fari með ósannindi um þetta mál í framhaldi af greinum sínum í Tímanum. En hitt er meira furðuefni, að hæstv. forsrh. skuli taka það ómaklega og ómannlega örþrifaráð, að skjóta sér á bak við fyrirrennara sinn með ósannindum, sem hægt er að hrekja skjallega.