30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

27. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég býst við, að þeir, sem hlustuðu á deilur okkar forsrh. og mín hér áðan, hafi tekið eftir því, að í staðinn fyrir, að hæstv. forsrh. gerði nokkra minnstu tilraun til að hnekkja þeim rökum, sem ég færði með því að rekja gang þessa máls fyrir því, að dómur Sjálfstfl. um upphaf þess væri réttur - í staðinn fyrir að gera nokkra tilraun til að hnekkja þessu, var það eina, sem hæstv. forsrh. sagði um þetta, að ég hefði verið með mikinn hávaða og glamur, sem fólk hefði hlegið að. Já, það hló að hnyttilegum orðum, sem ég sagði um hæstv. dómsmrh., þegar ég var að sýna því rétthverfuna á honum, sem hann reyndi að hylja. Hann sagði, að mín orð hefðu ekki verið tekin alvarlega, og það voru öll hans rök í málinu, sem hann færði fyrir því, að Sjálfstfl. væri andvígur þessu máli. Sama kom fram hjá hv. þm. N.-Þ., sem ég skal lítilsháttar minnast á síðar. Hv. þm. vildi vera fyndinn og frumlegur, þó að það tækist ekki betur fyrir honum en svo, að þetta voru einustu úrræði hans í þeim standandi hvínandi vandræðum, sem hann var í.

Það getur vel verið, að mér hafi ekki tekizt allskostar vel eða rösklega að halda á þessu máli. En það var ekki af því, að málstaðurinn væri ekki góður og réttur.

Í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. líkti mér við klár, sem beitt væri fyrir þungt hlass, vil ég leyfa mér að segja, að hér má með nokkrum rétti snúa þessari samlíkingu upp á hæstv. dómsmrh. En þar held ég, að hann verði ekki klárinn, heldur þunga hlassið, sem Framsfl. verður að beita sér fyrir. Því að ef hann verður með sífellda áreitni og hótanir, og með því girðir fyrir samvinnu Framsfl. við andstæðinga, sem hafa meiri hl. þjóðarinnar á bak við sig, þá verður hann, sem Framsfl. hefir verið svo ógæfusamur að setja í forsætisráðherrastól, þunga hlassið, sem Framsfl. verður að draga.

Þá talaði hæstv. ráðh. um hörku. Já, það er rétt, að hann vill sýna hörku gagnvart andstæðingum, sem eru í minni hl. hér á Alþ. En það hefir verið á það bent, að hann er ekki jafnharðvítugur í að sýna hörku gagnvart þeim flokki, sem ásamt hans flokki stendur að myndun núv. stj. Ég benti á það dæmi hér í hv. d., þegar rætt var um skipulagsn., sem Rauðka er kölluð. Út af þessari nefndarskipun kom það skýrt fram í ræðum sósíalista hér, að hlutverk þessarar n. væri að undirbúa þjóðnýtingu í þessu landi á þann hátt, að bylta því þjóðfélagsskipulagi, sem nú er. Þá stóð hæstv. dómsmrh. upp og sagði, að þetta væri alls ekki meiningin hjá framsóknarmönnum, að svona eigi að fara að. Nú nýlega birtist grein í Alþýðublaðinu, öðru stjórnarmálgagninu hér, þar sem standa þessi orð: „Með þessu móti er stefnt að þjóðnýtingu atvinnuveganna“. Þessi grein er um skipulagsn., og síðar í henni segir blaðið, að sjálfstæðismanna sé ekki þörf við slík störf. Þessu hefir ekki verið reynt að mótmæla af blöðum framsóknarmanna, ekki heldur af hæstv. ráðh. hér á þingi, heldur hefir það staðið algerlega ómótmælt, að með skipulagsn. sé stefnt að þjóðnýtingu atvinnuveganna, og mun það vera sannleikur málsins. Ég held þess vegna, að hæstv. ráðh. ætti ekki að vera að tala mikið um hörku, þar sem það er vitanlegt, að sósíalistar eru hreint og beint búnir að kokgleypa Framsfl., sem nú er að leysast þar upp eins og hráæti í hákarlsmaga.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það, sem ég færði fram um, að gæta þyrfti hófs um álagningu verðjöfnunarskattsins, vegna þeirra, sem rýra framleiðslu hafa, væri rökvilla, og leið sú, sem hann valdi til að sýna, að svo væri, var sú, að draga annarsvegar fram það, sem greitt er fyrir 1. flokks kjöt hér í Rvík, og hinsvegar það verð, sem þeir fá, sem selja saltkjöt til Noregs. Og út frá þessum samanburði talaði hann um verðjöfnunarskattinn. En það, sem ég miðaði við, var ekki það verð, sem þeir fá fyrir kjötið, sem eru hér í nágrenni Rvíkur og hafa aðstöðu til að selja hér í Rvík 1. fl. kjöt, heldur það, sem þeir fá fyrir kjötið, sem selja 2. eða 3. flokks kjöt á Rvíkurmarkaðinum eða öðrum innlendum markaði. Aðstaða þeirra síðarnefndu verður sú, að miðað við verðjöfnunargjaldið eins og það er nú fá þeir ekki meira fyrir sína rýru vöru eftir vörumagni heldur en þeir, sem selja saltkjöt út. Þessir menn eiga svo að borga skatt af þessari lélegu vöru sinni.

Þetta nægir til að sýna, að ég var fyllilega sjálfum mér samkvæmur í minni ræðu, en hæstv. forsrh. fór að þessu leyti með algerlega rangt mál, er hann talaði um ræðu mína eins og flutta út frá allt öðrum forsendum. Það var enn síður ástæða fyrir hann að haga sinni ræðu svona hér, þar sem bent hafði verið á það í Ed., sem í þessu sambandi þarf að taka til athugunar, því að það getur engan veginn verið tilgangurinn með þessari löggjöf að gera aðstöðu þeirra, sem rýrasta framleiðslu hafa á þessu sviði, en þó selja til Rvíkur, verri en hún var áður.

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að ræðu hv. þm. N.-Þ., en skal aðeins benda á það, í sambandi við það, sem hann minntist á undirbúning þessa máls, sem fram kom í till. frá samvinnufélögum, að menn úr Sjálfstfl. áttu sinn þátt í undirbúningi þeirra till. Þeir mörkuðu þar með stefnu Sjálfstfl. í þessu máli. Sjálfstæðismenn voru því með í að hrinda þessu máli í framkvæmd. Ennfremur má benda á, að menn úr Bændafl. fóru ekki síður höndum um að undirbúa þetta mál, áður en það yrði lagt fyrir Alþ.

Þó fór hv. þm. N.-Þ. allmikið út í að ræða um siðgæðið hér á Alþ. Ég held sannast að segja, að ekkert hafi vakið jafnmikla athygli hér á þingi eins og þegar þessi hv. þm. fór að tala um sanngirni, trúmennsku, velsæmi og prúðmennsku (!). Ég geri ekki ráð fyrir, að neinn hafi búizt við, að hann yrði sendur inn á hæstv. Alþ. til þess að gæta þar velsæmis, þessi maður, sem kórónar flestalla gikki í blaðamennsku og margdæmdur er fyrir sín ósæmilegu blaðaskrif. Það er alveg óskaplegt, þegar slíkur maður stendur hér upp til að tala um það, hve velsæmi hér á þingi sé ábótavant. Það er hreint og beint undravert, hversu blekkingin og blygðunarleysið hjá honum getur teygt sig langt upp í birtuna í sambandi við þetta. Og um siðgæðisprédikanir þessa hv. þm. vil ég segja að lokum það, að ég býst við, að ýmsum muni detta í hug, að eitt sinn var sagt, að

aldrei var því um Álftanes spáð, að ættjörðin frelsaðist þar.