30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að svara mörgum orðum ræðum tveggja hv. síðustu ræðumanna. - Vil ég byrja á því, sem hv. þm. Borgf. sagði viðvíkjandi rýra fénu hér sunnanlands. Ég hefi talað við bónda úr rýrasta svæðinu þar, sem í haust slátraði 100 dilkum, og af þeim lentu aðeins 8 í öðrum flokki. (PO: Var hitt allt í 1. fl.?). Já, allt. Þessi maður var sr. Sveinbjörn Högnason, og er hann hér nú staddur. (PO: Það má fletta upp í bókum sláturhússins um vigt á sunnlenzka fénu). Það mundi ekki afsanna þetta.

Í öðru lagi vil ég benda á það, að ef þetta hefði nú verið 2. fl. kjöt, sem það þó alls ekki var, þá þýddi þó ekkert að þrátta um það, þá mundi koma alveg sama rökfærslan til greina, sem áður var færð fram, að það er því meiri þörf fyrir þá, sem rýrt kjöt framleiða, að fá verndaðan markaðinn fyrir kjöt sitt, heldur en hina, sem gott kjöt hafa. Því að ef þeir, sem framleiða gott kjöt, kæmu hér með það til samkeppni við rýra kjötið, án þess að framleiðendur þess væru verndaðir fyrir þeirri samkeppni, hvernig væru þá hinir síðarnefndu settir? Það ber allt að sama brunni. Því rýrari sem kjötframleiðslan er því meiri er þörfin á að vernda markað hennar.

Þá minntist hv. þm. á n. þá, sem almennt er kölluð Rauðka, og kallar sig það jafnvel sjálf. (PO: Jæja). Hv. þm. minntist á yfirlýsingu, sem komið hefði fram hér á Alþ. viðvíkjandi þessari nefndarskipun, og ennfremur las hann upp úr Alþýðublaðinu um þetta efni. Ég hefi ekkert við því að segja, þó að hv. þm. virðist hafa það hlutverk í Sjálfstfl. að tala um þessa nefndarskipun - eins og skipt er verkum hjá þeim flokki í öðrum málum, svo sem kjötmálinu, mjólkurmálinu og fleiri málum, sem Framsfl. og Alþýðufl. hafa samvinnu um.

Því er haldið fram í Morgunblaðinu, að Framsfl. sé kominn í vasa Alþfl. En svo er því aftur haldið fram í Vísi, að Alþýðuflokksmenn séu þrælar Framsfl. Þannig eru skrif þessi, vegna þess að Morgunblaðið, eða a. m. k. vikuútgáfa þess, Ísafold, er lesin úti um sveitir, til þess að reyna að kljúfa samtök bænda. En Vísir, sem meira er lesinn hér í bænum, á að spilla samvinnunni við jafnaðarmenn hér í Rvík. Það sjá nú allir, að önnurhvor þessara staðhæfinga hlýtur að vera ósönn. En sannleikurinn er sá, að hvorttveggja þetta er ósatt, vegna þess, að flokkar þessir hafa gert með sér málefnasamning, til þess að geta komið fram ýmsum hagsmunamálum fyrir sitt fólk. Um það snýst samningurinn. Jafnaðarmenn hafa hjálpað okkur til að skipuleggja afurðasöluna og við höfum hjálpað þeim til að vinna að hagsmunamálum vinnandi fólks í kaupstöðunum.

Viðvíkjandi því, sem sagt hefir verið um skipulagsn., vil ég leggja áherzlu á, að það er annað að rannsaka atvinnuvegina og gera till. um ýmislegt þeim viðvíkjandi, en að hafa vald til að setja l. um þá. Þessi skipulagsn. hefir aðeins tillögurétt í þessu efni, en alls ekkert vald. Hún á aðeins að rannsaka og gera till. til stj. um framkvæmdir, og ekkert annað. Allt tal sjálfstæðismanna um vald n. þessarar er því klárasta blekking.

Þá var eitt, sem hv. þm. Borgf. sagði, að ég hefði engin rök fyrir því fært, að Sjálfstfl. hefði snúizt óvingjarnlega við afurðasölumálinu. Vegna þessara staðhæfinga hv. þm. vil ég lesa nokkrar greinar upp úr Morgunblaðinu, til þess að hv. þm. geti fengið svolítinn forsmekk af því, hvernig flokkur hans hefir hagað sér í þessu máli, áður en ég gef honum, hv. þm. Borgf., þetta eintak. Þá vil ég fyrst lesa upp úr 198. tbl., 23. ágúst s. l.:

„Það virðist ekki verða hjá því komizt fyrir bændur, að hefja andóf gegn þessari kúgun og ásælni.

Þessi lög bera það með sér, að tilgangur þeirra er fyrst og fremst að svínbeygja bændur undir ok félaganna ....

Og ennfremur:

„Ekki þætti mér ótrúlegt, að þessi kjötsölulög yrðu óvinsæl hjá bændunum hér í næstu sýslum við Reykjavík, vegna þeirrar ásælni, sem þeim er sérstaklega sýnd með þeim“.

Hér er verið að espa þá, sem þurfa að borga verðjöfnunargjaldið.

Blaðið heldur þannig áfram: „Sunnlendingar eiga ekkert að fá, eða þeir af þeim, sem náð geta í markaðinn í Reykjavík og Hafnarfirði. En þeir eiga svo að segja að láta af böndum alla þá fjárhagslegu hagsmunaaðstöðu, sem þeir geta haft af því að búa í námunda við þessa bæi“.

Ennþá tilraun til þess að rægja aðila saman, sem saman vilja vinna. Þó er búið að sýna fram á það með rökum, að einmitt þessir bændur fá langhæst verð fyrir sínar afurðir á þessu ári, einmitt vegna þessara laga, sem nú er einnig viðurkennt af sjálfstæðismönnum. Hér segir ennfremur:

„Þeir mega ekki slátra kindum sínum heima hjá sér, reykja af þeim kjötið til sölu eða á annan hátt verzla með þær eins og sína eigin eign, selja þær á fæti eða hafa nokkur eignarráð yfir sláturfjárafurðum sínum, ef þeir ætla að hafa þær til sölu“.

Hér er sagt ósatt til þess að gera óánægða þá bændur, sem selt hafa kjöt beint til neytenda. Þetta er ósatt vegna þess, að n. hefir gefið undanþágu viðvíkjandi reyktu kjöti nú á þessu hausti. Hér er önnur grein í Morgunbl., 199. tölubl., frá 24. ágúst. Þar segir blaðið þannig frá:

... gefin hafa verið út bráðabirgðalög um kjötsöluna, þar sem ráðin eru tekin af þeim samvinnufélögum bænda, sem innanlandssöluna hafa aðallega haft með höndum ....

Hér er reynt að espa upp Sláturfélag Suðurlands og Kaupfélag Borgfirðinga. Svona er haldið áfram, sitt á hvað, til þess að vekja tortryggni og óánægju með framkvæmd laganna. Ennfremur stendur hér:

„Afleiðing þessa „skipulags“ verður því sú, að bændur þeir, sem búa í nágrenni kaupstaðanna, og einkum þeir, sem nota Rvíkurmarkaðinn, eru skattlagðir til þess að bæta hinum upp verðið, sem hinn „vel skipulagða“ erlenda markað nota“.

Sami tónninn og tilgangurinn. Tilgangurinn sá, að rægja saman þá aðila, sem vinna að samvinnumálum. Þá er í Morgunbl. 1. sept. þessi grein:

„Afstaða Morgunblaðsins til þess máls hefir frá upphafi verið skýr, þessi: Sláturfélag Suðurlands og Kaupfélag Borgfirðinga þurftu enga aðstoð Sambandsins til þess að „skipuleggja“ kjötsöluna innanlands ....

Því er lýst yfir í flokksblaði Sjálfstfl., Morgunblaðinu, að sá flokkur vill láta þessi tvö félög skipuleggja kjötsöluna. Þó er það vitanlegt, að þau geta það ekki af því að þau hafa ekki vald yfir markaðinum. Það hefir kjötverðið sýnt á undanförnum árum. Árið 1932 var það 70 aurar pr. pd. og árið 1933 85 aur. pr. pd. Þá keyptu einstakir kaupmenn kjötið utan úr sveitunum og seldu það hér fyrir lægra verð en markaðsverð. Þetta undirboð er mjög eðlilegt vegna þess, að á meðan bændur, sem búa fjarri Rvík, fá ekki nema 60 au. fyrir pd. af kjöti á erlendum markaði, þá borgar það sig fyrir þá að fara með kjöt sitt hingað í kapphlaup um kjötmarkaðinn og selja kjötið allt niður undir það lága verð, sem þeir geta fengið fyrir það á erlenda markaðinum. Enda sýndi það sig á síðasta hausti, að norðan úr Húnavatnssýslu var rekið fé, sem eyðilagði kjötmarkaðinn hér.

Því hefir verið lýst yfir af hálfu Sjálfstfl., að hann sé andvígur skipulagningunni á kjötsölunni, en flokkurinn vill hafa það skipulagsleysi á sölunni, sem algerlega er ófært fyrir íslenzka bændur.

Hér hefi ég 24 skammagreinar úr flokksblaði Sjálfstfl. um kjötsölulögin, og allt er gert, sem í valdi blaðsins stendur til þess að rægja framkvæmd þeirra l. Ég bið nú þingsvein að afhenda hv. þm. Borgf. þessi blöð með greinunum á. (PO: Ég afhendi hæstv. forsrh. þau aftur). Það var eins og mig grunaði, að einstakir sjálfstæðismenn eru blindir fyrir því, sem skrifað er af þeirra eigin flokksmönnum, og vilja ekki lesa það. Ég get hinsvegar gengið inn á, að þessum hv. þm. er það ekki láandi, þó að hann vilji ekki lesa um þessi mál önnur eins skrif í blaði síns eigin flokks.

Ég vænti, að nægileg rök séu nú komin fyrir því, að andstaða hefir verið hjá Sjálfstfl. gegn staðfestingu þessara l.

Sný ég mér svo að hv. 6. þm. Reykv. Hann talaði af meiri stillingu um málið. Hann minntist á það, að ekki þýddi annað en að sýna framleiðendum sanngirni í þessu máli. Það viðurkenni ég, að er rétt. Það hefir verið meginregla, sem ég hefi reynt að fylgja um skipun nefndanna í kjötsölumálinu og mjólkursölumálinu. Ég er þeirrar skoðunar, að sjálfsagt hafi verið að sýna neytendum fulla sanngirni. Og það hefir verið gert með því að lofa þeim að skipa 2 menn í verðlagsn., til að fyrirbyggja, að verðið fari hærra en nauðsynlegt er.

Jafnframt hélt hv. þm. því fram, að Sláturfélag Suðurlands og Kaupfélag Borgfirðinga gætu ráðið verðlaginu. Ég hefi bent á, að þetta er rangt. Reynslan hefir sýnt, að framboðið, engu síður en eftirspurnin, ræður verðlaginu. Og þegar erlendi markaðurinn lokaðist að miklu leyti, varð framboðið óeðlilega mikið, svo að félögin fengu ekki við ráðið.

Annað var ekki í ræðu hv. þm., sem gæfi ástæðu til svars. Ræðan var yfirleitt almennt orðuð og henni sæmilega stillt í hóf.