30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

27. mál, sláturfjárafurðir

Garðar Þorsteinsson:

Þó að ég haldi mér ekki strangt við efnið, veit ég, að hæstv. forseti afsakar það, þar sem hæstv. forsrh. bar á mig sakir í dag, er ég verð að bera af mér. (Forseti: var það ekki hv. þm., sem bar sakir á hæstv. forsrh.?). Ég get auðvitað ekki komizt hjá því að sækja á, um leið og ég deili við hann.

Hæstv. ráðh. sagði í umr. um mjólkurl., að mjólkurbúin hefðu ekki verið löggilt, og í öðru lagi, að dómsmrh. hefði mælzt til, að l. yrði ekki framfylgt. Fyrst vil ég þá upplýsa það, að l. nr. 97 1933 eru undirrituð af konungi 19. júní það ár og eiga þá þegar að öðlast gildi.

Nú er eitt, sem hæstv. ráðh. getur ekki svarað: Hvað tafði, að hann framkvæmdi þessi l. frá því er þau öðluðust gildi þangað til í des. 1933? Hann svarar því nú e. t. v. til, að mjólkurbúin hafi ekki verið löggilt. En í 1. gr. l. stendur:

„Í öllum þeim kaupstöðum og kauptúnum hér á landi, þar sem fram fer sala á mjólk og rjóma frá fullkomnum mjólkurbúum, er viðurkennd hafa verið af atvmrh., skal óheimilt að selja þessar vörur ógerilsneyddar ...

Með þessu er ekki annað sagt um það, hvaða mjólkurbú teljast skuli fulkomin, en þetta, að það skuli komið undir úrskurði. atvmrh. Hann á að meta þetta. Hæstv. forsrh., þáv. lögreglustjóri, mun hafa staðið í bréfaskiftum við atvmrh. út af þessu máli. Í bréfi atvmrh. til þáv. lögreglustjóra, dags. 16. des. 1933, segir svo (Ég hefi með leyfi hæstv. ráðh. farið upp í stjórnarráð og tekið afrit af þessum bréfum:):

„Það skal tekið fram, að atvmrh. hefir, með því að greiða Mjólkurbúi Flóamanna og Mjólkurbúi Mjólkurfélags Reykjavíkur styrk þann, sem stj. er í 22. gr. fjárl. heimilað að greiða þessum búum, er þau voru fullbúin til starfrækslu, viðurkennt bú þessi sem fullkomin mjólkubú, og hefir Alþingi áréttað þessa viðurkenningu með l. nr. 95 frá 19. júní 1933, um mjólkurbúastyrk o. fl.

Fylgiskjöl endursendast.

(Sign.) Þorsteinn Briem.“

Með þessu er það staðfest, að ráðuneytið hefir tilkynnt lögreglustjóra, að það teldi mjólkur-búin fullkomin samkv. l. Honum bar því tafarlaust að framfylgja þessum l. Er það aðeins þrákelkni hans að kenna, að þetta var ekki gert. Lögreglustjórinn hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að löggildingin hefði ekki átt sér stað, og það er nú, siður hans að sitja við sinn keip, hvort sem hann hefir rétt fyrir sér eða rangt.

Í máli, sem höfðað var gegn manni hér í bæ fyrir brot á ákvæðum l., var hann sýknaður á þeim grundvelli, að mjólkurbúin hefðu ekki verið löggilt. Rétt á eftir dæmir svo lögreglustjóri annan mann fyrir sama brot á grundvelli þess, að nú séu búin löggilt. En hvað gerir hann svo? Hann skrifar dómsmrh. bréf 23. des. 1933, þar sem hann spyrst fyrir um það, hvenær dóminum, skuli fullnægt og leggur til, að honum verði ekki framfylgt, fyrr en eftir hátíðar, en beðið eftir úrskurði hæstaréttar. Þessu bréfi svarar dómsmrh. 29. des. 1933. Það er langt bréf, og gat ég ekki afritað það allt. Í. lok bréfsins kemst fulltrúi dómsmrn., Gissur Bergsteinsson, sem bréfið ritar, að svo hljóðandi niðurstöðu:

„Niðurstaðan verður þá sú, að banna beri þegar sölu á ógerilsneyddri mjólk, eins og segir í 1. málsgr. 1. gr. l. nr. 97/1933.

(Sign.) Gissur Bergsteinsson“.

Á fót bréfsins hefir skrifstofustjórinn, Guðmundur Sveinbjörnsson, ritað: „Fellst á, að lögreglunni beri að sjá um, að enginn selji mjólk gegn skýlausum fyrirmælum laga nr. 97/1933, hvað sem líður áfrýjun þessa máls.

Ég sé ekki, að það komi málinu við eða áfrýjun dóms“.

Loks hefir Magnús Guðmundsson, þáv. dómsmrh., skrifað á fót bréfsins: „Samþykkur“. Bréf þetta var sent lögreglustjóra, og hefði nú mátt ætla, að hann framfylgdi þessum l. Mér virðist, að með þessu bréfi sé komin almenn fyrirskipun frá ráðh. til lögreglustjóra um að framfylgja l. (ef þá slíkrar fyrirskipunar var þörf, sem ég álít, að ekki hafi verið).

Framhjá þeirri staðreynd getur hæstv. ráðh. ekki komizt, að hann fékk þarna fyrirskipun um að framfylgja l. En hann gerði það ekki. Hann bíður eftir því að málið verði dæmt í hæstarétti. Þessi dómur kom nú í febr. eða marz og staðfesti dóm lögreglustjórans.

Nú var a. m. k. ekki ástæða til að fresta framkvæmdum l. En það er þó ekki vitað, að lögreglustjóri hafi gert nokkuð í málinu, þrátt fyrir fyrirskipun dómsmrn., fyrr en 19. maí, er þetta símtal hans við dómsmrn. átti sér stað, þar sem hann fór fram á frestun málsins, sem fyrir lá. Ráðh. samþykkti fyrir sitt leyti, að fullnægingu dómsins yrði frestað frá laugardegi fyrir hvítasunnu þangað til á þriðjudegi eftir. Enn líður og bíður, og lögreglustjóri gerir ekkert í málinu. 1. júní 1934 sendir hann svo dómsmrh. bréf viðvíkjandi því, hvort gera skuli aðrar ráðstafanir gegn kærða; Kristjáni Jóhannssyni, en að beita sektarákvæðum viðkomandi laga, til þess að hindra hina ólöglegu sölu, t. d. loka búðum hans. Tekið er fram, að kærði selji auk gerilsneyddrar mjólkur ýmsar vörur, svo sem brauð og annan bakaravarning í búðum sínum. Þessu bréfi var aldrei svarað bréflega af þáv. dómsmrh., svo að ekki er rétt hjá hæstv. ráðh., að bréf þáv. dómsmrh. dagsett 21. júlí 1934 sé svar við því. - En á fót þessa bréfs lögreglustjórans frá 1. júní skrifar Magnús Guðmundsson: „Búið að segja, að mál þetta verði lögreglan að ganga frá, eftir því sem hún sér sér fært“.

Þetta er í beinu samræmi við það, sem ég hefi sagt, að fyrrv. dómsmrh. hafi tilkynnt í svari sínu til lögreglustjóra. Og ég hefi leyfi til að hafa það eftir Jóni Gunnlaugssyni, að hann hafi oft, eftir beiðni Guðmundar Sveinbjörnssonar, hringt til lögreglustjóra og minnt hann á að framfylgja ákvæðum þessara l.

Þá kem ég að bréfi því, sem hæstv. ráðh. sagði í dag, að væri svar við fyrirspurn sinni viðvíkjandi fullnustu dóms ákveðins manns. Þetta er ekki rétt. Bréf það, sem dagsett er 21. júlí 1934, hljóðar svo:

„Forstjóri Mjólkurfélags Reykjavíkur, Eyjólfur Jóhannsson, hefir skýrt frá því hér, að l. nr. 97 frá 1933 sé, að sögn lögreglunnar, ekki haldið uppi, sökum þess, að svar dómsmrh. hafi ekki komið við bréfi lögreglustjóra um mjólkurmálið.

Út af þessu tekur ráðuneytið fram, að þetta sé, ef rétt er frá skýrt, á misskilningi byggt, þar sem ráðh. hafi munnlega, aftur og aftur, bent á, að mál þetta væri í lögreglunnar höndum.

Verður lögreglan auðvitað að sjá um, að þessum lögum sé fylgt, eins og öðrum.

( Sign.) Magnús Guðmundsson.“

Þetta bréf er því ekki svar við bréfi lögreglustjóra frá 1. júní viðvíkjandi fullnægingu dóms ákveðins manns, heldur skrifað til að hnekkja orðrómi, sem kom til stjórnarráðsins fyrir munn Eyjólfs Jóhannssonar.

Með þessu þykist ég hafa sýnt, að lögreglustjóri gat framfylgt l. þegar eftir að þau höfðu fengið samþykki konungs, eða a. m. k. eftir að ráðuneytið hafði löggilt mjólkurbúðirnar, en ef ekki þá, a. m. k. eftir að hann hafði 29. des. tengið almenna skipun um það frá dómsmrn., og ef ekki þá, a. m. k. eftir að dómurinn var fallinn í hæstarétti í febr. eða marz. En þetta gerði hann ekki. Og þegar hann er ávítaður fyrir að hafa ekki framfylgt embættisskyldu sinni, sýnir hann manndóm sinn með því að skjóta sér bak við Magnús Guðmundsson, þáv. dómsmrh.

Þessi bréf, sem ég hefi lesið hér upp, eru aðeins afrit, sem ég hefi tekið, en ég vænti þess samt, að hv. þm. vefengi þau ekki.