30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Hv. 8. landsk. hefir mikið til þess reynt að gera staðhæfingar sínar trúanlegar, og lái ég honum það ekki. En ég ætla aðeins að benda á, að það er ekki sérstaklega sennilegt, ef ég hefði neitað að framkvæma fyrirskipanir dómsmrh., þrátt fyrir ýtarleg fyrirmæli, að hann hefði látið það afskiptalaust. Það væri eitt hið mesta brot í embættisrekstri, og myndi slíkum embættismanni að sjálfsögðu verða vikið frá. Enda er þessu ekki svo farið sem hv. þm. vill reyna að láta menn halda. Sannleikurinn er sá, að það var aldrei meining Sjálfstfl. að láta framkvæma mjólkurl. eins og þau lágu fyrir. Það var annað, sem fyrir honum vakti, sem sé það, að koma á bæjarsölu á mjólk. Af því stafar þessi dráttur, sem varð á framkvæmd l.

Ég skal nú taka staðhæfingar þessa hv. þm. og hrekja þær lið fyrir lið, þó að leiðinlegt sé að þurfa að eyða tíma í slíkt. - Í fyrsta lagi staðhæfir hv. þm., að ég hefði getað framkvæmt l. þegar eftir að þau gengu í gildi vorið 1933, en ekki þurft að bíða til áramóta. Í l. er það tekið fram, að enginn hafi leyfi til að selja hér í bæ mjólk, sem ekki er gerilsneydd af mjólkurbúum, er viðurkennd hafa verið af atvmrh. Það er rétt, að til mín kom bréf 16. des., þar sem því er haldið fram, að búin hafi verið viðurkennd með því að veita þeim styrk. Þetta er misskilningur. Eins og hv. þm. hlýtur að vita sem lögfræðingur, er það ekki á valdi ráðh., heldur dómstólanna, að ákveða, hvaða bú séu viðurkennd. Þessi styrkveiting var ekki nægileg viðurkenning, einnig af þeirri ástæðu, að allar slíkar viðurkenningar þarf að auglýsa í Stjtíð. eða Lögbirtingablaðinu. Af þessum ástæðum gekk skrifstofustjóri atvmrn. inn á, að það væri rétt hjá lögreglustjóra, að búin hefðu ekki verið löglega viðurkennd. Hann sá strax og honum var á það bent, að lögleg viðurkenning hafði ekki farið fram. Ráðuneytið hefði ekki farið að gefa út auglýsingu eftir 2 daga, um að búin hefðu verið viðurkennd, ef það hefði verið óþarft. En eins og kunnugt er, var gefið út aukanúmer af Lögbirtingablaðinu með auglýsingu um viðurkenninguna.

Ég sýknaði mann af afbroti, sem framið var áður en l. gengu í gildi. Þessum dómi var ekki áfrýjað af stjórnarráðinu. því að allir skrifstofustjórarnir sáu, að dómurinn var réttur. Það var vitað af öllum, að löggildingin varð að fara fram opinberlega, svo að allur almenningur vissi, hvað væri hið rétta í málinu. Öðruvísi er aldrei hægt að framfylgja l.

Ég bið hv. þdm. að athuga það, viðvíkjandi bréfi dómsmrn. til mín frá 29. des. 1933, að hv. þm. las ekki sjálft bréfið, heldur ályktanir fulltrúa og áritanir skrifstofustjóra og dómsmrh. á bréfið. Bréfið var engin fyrirskipun til mín á þann hátt, sem hann heldur fram. Það gaf heldur ekkert svar við fyrirspurn minni um það, hvenær skyldi fullnægt dóminum. Ég skal koma með þetta bréf hingað á morgun.

Þegar um er að ræða mál eins og þetta, er það alltaf vafamál, hvort bæjarstj. Rvíkur beri ekki að gefa út reglugerð um það, hvernig því skuli framfylgt. Og þegar um var að ræða framkvæmd l. eins og mjólkurl., þar sem um var að ræða lokun margra búða og stöðvun mjólkurflutnings til bæjarins, þá hlýtur það að vera varasamt fyrir lögreglustjóra að framfylgja þeim, ef ekki er vel um alla hnúta búið, því að slíkar ráðstafanir hefðu getað kostað margar þúsundir króna og mikið rask. Því spurði ég ráðh., hvernig framfylgja skyldi l., þangað til dómurinn væri kominn frá hæstarétti.

Ég þarf ekki að hafa bréfið hér til að geta sagt innihald þess. Í því var lagt fyrir mig að framfylgja skýlausum ákvæðum mjólkurl. En hvað voru skýlaus ákvæði l.? Þetta var tvírætt svar. Ef hæstiréttur hefði fellt dóminn, þá myndi hafa verið sagt, að það væri í samræmi við skýlaus ákvæði mjólkurl. Var því ekki hægt fyrir mig á því stigi málsins að ákveða, hvað gera bæri. Því beið ég með framkvæmdir, þar til dómurinn var kominn úr hæstarétti. En þá lagði ég strax fyrir heilbrigðisfulltrúa að gefa mér skýrslu um mjólkursölu í bænum og sendi um allan bæ til að láta rannsaka, hvar mjólk væri seld á ólöglegan hátt.

Þá minntist hv. 8. landsk. á bréf mitt dags. 1. júní 1934, þar sem ég spurðist fyrir um það, hvort ráðuneytið vildi taka á sig ábyrgðina af því, að ég lokaði nokkrum mjólkurbúðum, þó að þar væru seldar aðrar vörur en mjólk. Hv. þm. tæpti á því, að ég hefði spurt, hvaða ráðstafanir bæri að gera gagnvart manni þeim, sem þar átti hlut að máli. Við þessu bréfi fékk ég aldrei neitt svar. Hv. þm. sagði, að ég hefði átt samtöl við Jón Gunnlaugsson í síma. Ég held mér sé óhætt að fullyrða, að ég hefi ekki talað við hann í síma í mörg ár.

Sem sagt, við fyrirspurn minni kom aldrei svar. Hvers vegna gat ráðuneytið ekki svarað. ef það vildi standa bak við þær ráðstafanir, sem þarna var um að ræða? Til að taka af allan vafa, gekk ég hvað eftir annað eftir þessu hjá ráðuneytinu, hvað gera skyldi viðvíkjandi þessum 3 búðum. Vil ég þessu til sönnunar lesa upp skeyti, sem ég hefi hér meðferðis, og getur hv. 8. landsk. mótmælt því, ef hann þorir. Skeytið hljóðar svo:

„Hermann Jónasson, lögreglustjóri p. t. Kaldrananesi.

Eftirfarandi vottast:

Kristján Jóhannsson, mjólkursali, var sektaður 16. apríl s. l. fyrir ólöglega mjólkursölu. Hinn 18. þ. m. hafði lögreglustjórinn komizt að því, að Kristján hélt hinni ólöglegu sölu áfram, og fól hann mér þá að koma fram ábyrgð gegn honum og gera þær ráðstafanir, sem tiltækilegar væru til þess að hindra söluna. Ég kallaði Kristján þá fyrir þann 19. þ. m., en þá fékk hann af skrifstofu minni að tala í síma við dómsmálaráðherra, sem síðan í símtali tjáði mér, að málið mætti bíða, unz hann tilkynnti mér, hvað gera skyldi í því, en fyrirskipun þar að lútandi er ókomin.

Jónatan Hallvarðsson.“

Með öðrum orðum: því hefir aldrei verið svarað, hvort loka skuli búðum, og ábyrgð ráðuneytisins hefir aldrei fengizt. Það er allt annað mál, þó hann fái að hringja og fái frest. Vill hv. þm. segja, að þetta sé falsvottorð? Það væri þá eins gott fyrir hann að tala ekkert um málið.