30.10.1934
Neðri deild: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (794)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki þreyta hv. dm. með því að endurtaka það, sem ég sagði áðan, því að það voru nægileg rök fyrir mínu máli. Ég skal þá taka fram aðeins helztu atriðin í þessu máli, sem eru alveg skýlaus, og ætla þá að nota þau sömu sönnunargögn og hv. 8. landsk. hefir sjálfur fært fram. Vitanlega kemur það ekki til mála að mótmæla vottorði embættismanns, enda hefi ég ekki vitað til, að það hafi verið gert, - annars vil ég ekki draga tímann með því að deila um það.

Hv. 8. landsk. hefir viðurkennt, að dómsmrn. hafi aldrei svarað bréfi lögreglustjóra, og kemur það heim við vottorð lögreglufulltrúa, að dómsmrn. svaraði því aldrei, hvort við mættum loka búðunum. Við fengum það aldrei til þess að standa á bak við okkur. Þetta er skjallega sannað, og þarf því ekkert um það að deila.

Þá minntist hv. þm. á auglýsinguna um löggilding búanna. Nú er það vitanlegt, að til þess að hægt væri að framfylgja þessum lögum, varð að koma fram opinber auglýsing um, að búin væru löggilt. Það er aldrei hægt að framfylgja lögum, nema fyrir liggi opinber auglýsing um þau. Hann viðurkenndi, að þetta hefði ekki verið auglýst. Svo er hitt atriðið, að hann byggði löggildingu búanna á því, að þau hefðu fengið styrk. En ég vil benda hv. þm. á það, að eitt mjólkurbúið, Korpúlfsstaðabúið, hefir aldrei fengið þessa löggildingu.

Ef sýknudómur minn hefir verið rangur, þá átti ráðuneytið bara að áfrýja honum, en vitanlega sá ráðuneytið, að það var þýðingarlaust að áfrýja dómnum, af því að þessi löggilding hafði aldrei farið fram, og þarf ekki að eyða frekari orðum að því.

Ég sé ekki ástæðu til þess að svara því, sem hv. þm. V.-Húnv. var að tala um hér áðan, og hv. þm. G.-K., sem talaði rétt á eftir. Hv. þm. V.-Húnv. var að fræða menn á því, hvernig jafnaðarmenn styngju framsóknarmönnum í vasann, og svo var hv. þm. G.-K. að útmála hvernig jafnaðarmenn létu framsóknarmenn gersnúa sér í mjólkurmálinu. Þetta minnir dálítið á hlutverk Morgunblaðsins og Vísis, og held ég, að þessir hv. þm. ættu að bera sig saman áður en þeir tala næst.