05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

27. mál, sláturfjárafurðir

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Landbn. hefir haft þetta mál til meðferðar og er sammála um að leggja til, að það nái fram að ganga. Þrír nm. hafa óbundnar hendur um brtt., sem fram koma, og tveir þeirra hafa nú þegar flutt brtt.

Þegar á að ræða þetta má1, þá liggur fyrst fyrir að athuga, hvort þetta nýja skipulag, sem hér er farið inn á, sé betra en það, sem verið hefir, og hvort ástæða sé til að breyta til um sölu landbúnaðarafurða hér á landi. Það vita allir hv. þm., að nú að undanförnu hefir markaður fyrir landbúnaðarafurðir verið að þrengjast erlendis. Norðmenn hafa fjölgað sínu sauðfé á síðustu 10 árum svo mikið, að sú fjölgun nemur næstum því eins miklu og tölu alls sauðfjár hér á landi. Það er því ekki undarlegt, þó að markaðurinn hafi þrengzt, og hann heldur áfram að þrengjast. Í Englandi er markaðurinn líka takmarkaður, og afleiðingarnar eru þegar komnar í ljós. Um helming af því freðkjöti, sem selja má í Englandi, megum við ekki selja þar fyrr en eftir áramót. Því er verðið á freðkjötinu ætíð óvíst í sláturtíð. Og vegna þess, hve markaðurinn er nú orðinn þröngur í þessum tveimur löndum, hafa menn farið að leggja aukið kapp á að koma kjöti sínu út á innlendum markaði. Hefir það orðið til þess, að markaðurinn innanlands hefir meira og minna eyðilagzt. - Ég fer ekki út í mörg dæmi til að sanna þetta, en vil þó benda á tvö atriði frá 1933. Annað dæmið er frá 25. júlí þá var fyrst auglýst lækkun á kjötinu í Rvík. Hver sem vildi athuga, frá hverjum þessar auglýsingar komu, mundi sjá, að þær komu frá þeim, sem stóðu fyrir utan Sláturfélag Suðurlands og Kaupfélag Borgfirðinga. Samskonar auglýsingar héldu áfram allt sumarið, og varð það til þess, að um 1000 skrokkar, sem seldir voru fram að venjulegri sláturtíð, lækkuðu verðið á öllu hinu kjötinu en það mun hafa verið um 8000 skrokkar. Á hinn bóginn varð þetta líka til þess, að þeir, sem notuðu sér aðstöðu sína til að verzla utan við félögin og komu verðlaginu niður fyrir allt, fengu miklu hærra verð en aðrir, þannig, að þegar haustið kom, voru nokkrir bændur búnir að selja alla sína dilka að meðaltali um 1 til 3 kr. hærra fyrir hvern dilk en þeir, sem urðu að bíða eftir haustverðinu með mikinn hluta af sínum dilkum. Það er því sýnilegt, að með þessari frjálsu samkeppni fór verðið lengra niður en hæfilegt var og þurfti að gera.

Samskonar tilfelli hafa átt sér stað á Akureyri. Um tíma í fyrrahaust barst svo mikið kjöt til Akureyrar frá Skagafirði, af því að Skagfirðingar vissu ekki, hvað verðið mundi verða þar, að verðið féll niður í 70 aura. Og Skagfirðingar, sem skemmdu þannig Akureyrarmarkaðinn, töpuðu á þessu, því að þegar til kom, varð verðið í Skagafirði hærra en það verð, sem þeir urðu að selja fyrir á Akureyri.

Þessi tvö dæmi sýna vel, hvernig samkeppnin á innanlandsmarkaðinum varð til þess, að kjötið féll óeðlilega í verði. Þess vegna er nauðsynlegt að skipuleggja innanlandsmarkaðinn, og það því fremur, sem hann hlýtur í framtíðinni að verða okkar aðalmarkaður.

Það kjöt, sem við seljum nú til Noregs og Englands, er um 1100 tonn í hvorn stað, eða 1933 2300 tonn, en framleiðslan, sem við þurfum að selja, er um 5000 tonn. Það er því ekki nema lítill hluti kjötsins, sem hægt er að selja út úr landinu. Þess vegna ríður mikið á því, að sá hluti, sem verður að selja innanlands, seljist með sæmilegu verði, en með skipulagslausu framboði er ekki unnt að hafa stjórn á því. Með þessum l. er reynt að ráða bót á þessu, reynt að koma skipulagi á þetta. Mér hefir heyrzt á umr. um málið í Ed., að nú sé ekki mikill ágreiningur orðinn um það, hver nauðsyn sé á að gera þessar ráðstafanir. Ágreiningurinn er meira um smáatriði en um sjálft skipulagið.

Ég hygg því, að ekki þurfi mikinn tíma til að ræða frv. nú. Hér hefir komið fram brtt. á þskj. 288 og þskj. 269. Brtt. á þskj. 269 gerir ráð fyrir þeim möguleika, að upp kunni að rísa félög neytenda í kaupstöðum og kauptúnum, og skuli þá veita þeim leyfi til slátrunar eins og samvinnufélögum. N. hefir óbundið atkv. um þessa till., en hvað sjálfan mig snertir og fleiri nm., þá lítum við svo á, að brtt. sé óþörf og ekki rétt að samþ. hana, þar sem hér væri líka stofnað til óþarfa kostnaðar fyrir þjóðarheildina, ef þetta væri gert. Til þess að slátrunin geti farið sæmilega fram, þarf að hafa sláturhús og ýms önnur skilyrði. Þessi sláturhús hafa kaupfélögin nú. Ef þessi neytendafélög risu nú upp, þá yrðu þau auðvitað að byggja sín sláturhús, og væri þar með stofnað til aukins kostnaðar að óþörfu vegna byggingarinnar sjálfrar. Ekki væri heldur hugsanlegt, að þessi félög fengju féð keypt ódýrara á fæti, og er því betra fyrir neytendur að fá kjötið keypt en að kaupa féð lifandi. Þar að auki hefðu þeir ekki heldur jafngóða aðstöðu til að selja gærurnar, því að þá sölu hefir Sambandið með höndum fyrir sín félög, en í því mundu þessi félög ekki verða.

Fyrri brtt. á þskj. 288 gerir ráð fyrir, að bætt verði tveim mönnum í verðlagsnefndina, öðrum frá Búnaðarfél. Íslands, en hinum frá Verzlunarráði Íslands. Þessari brtt. getur nefndin í heild ekki mælt með, jafnvel þótt flutt sé af nm. Fyrst og fremst er það margreynt, að fjölmennar n. vinna ekki betur en fámennur, nema síður sé. Í öðru lagi getur n. ekki fallizt á, að hér sé um aðila að ræða, sem sjálfsagt sé og nauðsynlegt, að eigi fulltrúa í verðlagsnefnd. Búnaðarfélagið kemur að vísu fram sem fulltrúi í faglegum málum bænda eða landbúnaðurins. Hinsvegar annast Samband ísl. samvinnufélaga verzlun bænda að mestu leyti, og það á fulltrúa í n., sem er fulltrúi bænda ásamt fulltrúa Kaupfélags Borgfirðinga og Sláturfélags Suðurlands. Ef Búnaðarfél. Íslands sæti inni með upplýsingar um raunverulegt framleiðsluverð, væri hér öðru máli að gegna, en þær upplýsingar getur Búnaðarfélagið ekki gefið, enda þótt reynt hafi verið að afla þeirra gegnum búnaðarsamböndin.

Hvað Verzlunarráðinu viðvíkur, virðist ekki fremur ástæða til þess, að það eigi fulltrúa í verðlagsnefnd. Af 406 þús. fjár, sem slátruð var haustið 1933, hefir aðeins 90 þús. verið slátrað hjá kaupmönnum, og þegar Jónarnir í Borgarnesi og nokkrar aðrar verzlanir eru undanteknar, má heita, að ekkert af fjársölunni í fyrrahaust hafi farið í gegnum hendur kaupmanna, heldur að langmestu leyti gegnum samvinnufélögin. Það er því engin ástæða til þess, að Verzlunarráðið eigi fulltrúa í verðlagsnefnd, og leggjum við því til, að þessi brtt. verði felld.

Síðari brtt. á sama þskj. er óveruleg, og óbundin atkv. um hana í n. Efni hennar er, að „leyfi skuli veita lögskráðum samvinnufélögum bænda, sem stofnuð kunna að verða“ og einnig að skylt skuli að veita leyfi öðrum verzlunum, sem starfræktu sláturhús 1933, en nú er slíkt aðeins heimilað. Við sjáum ekki ástæðu til, að þessi brtt. verði samþykkt, því að lítill vafi er á, að samvinnufélög, er síðar kunna að verða stofnuð, myndu yfirleitt fá þetta leyfi. Í haust hafa verið veitt 119 leyfi, þar af 47 til samvinnufélaga, en aðeins 12 leyfisbeiðnum synjað, sem allar hafa verið frá nýjum mönnum, sem ekki gátu fullnægt settum skilyrðum um slátrun.

Við leggjum því til að frv. verði samþ. óbreytt, þar sem öllum kemur saman um, að það dragi stórkostlega úr annmörkum þeirrar samkeppni á innanlandsmarkaðinum, sem leiddi til óeðlilegs verðfalls á sláturafurðum bænda.