05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

27. mál, sláturfjárafurðir

Sigurður Einarsson:

Ég á hér tvær smávægilegar brtt. á þskj. 269, eða öllu heldur eina í 2 liðum. Aðalefni till. er það, að veita skuli félögum neytenda slátrunarleyfi fyrir það fé, sem þau kaupa til neyzlu fyrir félaga sína eingöngu.

Síðari liðurinn, sem á við á. gr. frv., er bein afleiðing af hinum fyrri.

Það, sem fyrir mér vakir með till., er það, að neytendur geti á vissum stöðum annazt slátrunina sjálfir, án þess að skipta við milliliði, hvort sem það eru kaupmenn eða kaupfélög. Ég held, að það hafi sýnt sig í haust, og jafnvel valdið lögunum nokkurra óvinsælda, að þau hafa lagt hindrun í götu þeirra persónulegu viðskipta, sem svo mjög hafa tíðkazt milli sveitamanna og fólks við sjávarsíðuna. Ég held því nú ekki fram, að það eigi að gera þessum persónulegu viðskiptum svo hátt undir höfði, að eyðileggja með því að, spilla skipulagi, sem annars er nauðsynlegt. En hér er aðeins átt við neytendafélög, sem semja við bændur um kaup á ákveðinni fjártölu. Ég held því, að þessi tilslökun ætti að vera til bóta, en ekki spillis, meðan verið er að koma skipulagi á svo víðtækt og að sumu leyti viðkvæmt mál sem þetta er.