05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég vil segja það út af brtt. hv. 9. landsk., að hún sakar ef til vill ekki, en þó held ég að hún verði heldur til spillis. Mér þykir líklegt, að af samþykkt hennar myndi leiða, að sett yrðu upp fleiri sláturhús en nú eru, svo að slátrunin yrði dýrari en nú er, og þetta kæmi niður á neytendunum sjálfum í hækkuðu verði. Það hefir sýnt sig, að með því fyrirkomulagi, sem nú er, er slátrunarkostnaðurinn ekki sérstaklega mikill, um 80 aurar á kind, eða 5-6 aurar á kg., þar sem hann kemur niður á öllum sláturfjárafurðunum. Þetta er ekki mikið, en ef neytendur færu að slátra sérstaklega, yrði það til að draga frá þeim, sem fyrir eru, og yrði óhjákvæmilega til að hækka slátrunarkostnaðinn. Aðalkostnaðurinn nú er við sjálfa söltunina á kjötinu, enda hefir ekki tekizt að koma smásöluálagningu niður í minna en 15% ennþá. En hitt gæti orðið til hagsbóta fyrir neytendur, að fá kjöttorg á vissum tímum álagningarlítið. Það myndi koma þeim betur en samþykkt þessarar brtt., sem að öllum líkindum yrði til að hækka kjötið.