05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

27. mál, sláturfjárafurðir

Bjarni Bjarnason:

Hæstv. forsrh. hefir andmælt hv. 9. landsk. og brtt. hans á þskj. 269. Það hefir hv. þm. Borgf. ennfremur gert. Ég hefi því litlu við að bæta út af þeirri brtt. Þó vil ég taka það fram, að það er algerlega ljóst, að till. gengur í þá átt að reyna að sprengja samtök bænda um sláturhúsin og afurðasöluna, vegna þess, að ekki er útlit fyrir, að það sé nokkrum til hagnaðar að fara að byggja sláturhús annarsstaðar en þar, sem kjötverðlagsnefnd telur, að sláturhús vanti. Ég get því ekki betur séð en að þessi brtt. sé hreinasta firra. Ef t. d. neytendur hér í Rvík færu að byggja sér sláturhús, þá yrði það bæði þeim og eins eigendum þess sláturhúss, sem fyrir er, aðeins til tjóns. Slík fyrirtæki eru æfinlega ódýrari og kostnaðarminni í rekstri því stærri sem þau eru, og því meira, sem þau hafa að starfa. Ég skil því ekki, hvern hagnað neytendafélög geta haft af því að fara að slátra sjálf, enda gengið út frá, að sláturhús sé fyrir á staðnum. Ég vil því vænta þess, að hv. d. felli þessa brtt. Sú undantekning virðist nægja, sem gefin er í brtt. 205, frá hv. landbn. Ed. við 3. gr. b lið, sem ég vil leyfa mér að lesa með leyfi hæstv. forseta: „Einnig er heimilt að veita slátrunarleyfi þeim einstaklingum, er vegna sérstakra staðhátta eiga svo örðugt um rekstur eða flutning fjárins til sláturhúss, að illfært sé að dómi nefndarinnar“. Þetta er sú eina undanþága, sem þörf getur verið á að veita, og er rétt að taka slíka ástæðu til greina. En það, sem lagt er til á þskj. 269, hlýtur að vera miðað við einhverjar alveg sérstakar ástæður, sem hv. flm. kann að þekkja og ekki er rétt að leggja til grundvallar sem almenna reglu.

Hvað verðjöfnunargjaldið snertir, þá get ég ekki séð, að það sé nokkuð á móti því að hafa hámark þess nokkuð hátt. Kjötverðlagsnefnd hefir alltaf opna leið til þess að ákveða það neðan við hámark, eftir því sem við á á hverjum tíma. Það má benda á það t. d. núna, að þó verðjöfnunargjaldið sé ákveðið í bráðabirgðalögunum 8 aurar, þá hefir n. ekki ákveðið það svo hátt. Hinsvegar sýnist rétt, þegar sala gengur illa á erlendum markaði, að gjaldið sé nokkuð hátt, ef innanlandsmarkaðurinn er sæmilegur, svo að hægt sé að miðla að nokkru leyti verðinu milli þeirra, sem nota hvorn markaðinn fyrir sig.

Þá vil ég taka fram út af brtt. hv. þm. Ak. og hv. þm. A.-Húnv. um skipun kjötverðlagsnefndar, að ég sé ekki neina ástæðu til þess að vera að fjölga mönnum í n. Ég tel, að hagsmunir framleiðenda séu vel tryggðir með ákvæðum bráðabirgðalaganna.