05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

27. mál, sláturfjárafurðir

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Þessi brtt. mín hefir ekki fengið sérstaklega ástúðlegar viðtökur hjá hv. frsm. landbn., og þess var heldur ekki að vænta. Í þessari brtt. felst sú meginstefna, sem við Bændafl.menn höfum í þessu máli, að afurðasölumálin séu í höndum bændanna sjálfra og að þeir hafi þar allt framkvæmdar- og ákvörðunarvald. Hér er nákvæmlega gengið inn á sömu braut, sem farin hefir verið í Noregi með samtökum bænda þar, en norskir bændur hafa barizt fyrir sínum málum með meiri og skjótari árangri en lítur út fyrir, að verða ætli hjá okkur.

Í þessari till. minni er gengið út frá því, eins og hv. þdm. hafa heyrt, að Samband ísl. samvinnufélaga leggi til einn mann í kjötverðlagsnefndina sem fulltrúa margra félaga úti um land: Sláturfélag Suðurlands annan, sem hefir mjög mikilla hagsmuna að gæta á Rvíkurmarkaðinum, fyrir Suðurlandsyfirlendið, og svo Kaupfélag Borgfirðinga þann þriðja. Þessi tvö héruð hafa beztu aðstöðuna til þess að njóta Rvíkurmarkaðsins. Hinn fjórði aðili, Búnaðarfélag Íslands verður að teljast fulltrúi hinna fjarlægari héraða, vegna þess að þau hafa meiri hl. á búnaðarþingi og geta því ráðið því, hver valinn verður í þessa n. Þá yrði jafnræði milli þessara héraða, sem mestra hagsmuna hafa að gæta á Rvíkurmarkaðinum, og svo hinna, sem hafa hagsmuna að gæta í því efni, að l. séu rekin á þann hátt, sem þeim megi að gagni koma. Þannig á að haldast jafnvægi milli hagsmuna þeirra manna, sem hafa beztu aðstöðuna til þess að njóta innlenda markaðsins, og svo hinna, sem annaðhvort hafa verri eða lítt mögulega aðstöðu til þess að njóta hans. Ég geri svo ráð fyrir, að landb.ráðh. skipi úr hópi þessara aðilja formann n. Ég ætlast ekki til þess, að sjálfsagt sé að skipa hann úr hópi neytenda, eins og mér heyrðist hv. frsm. telja sjálfsagt. Ég tel sjálfsagt, að landb.ráðh. sé fulltrúi bændanna.

Ég býst ekki við að þurfa að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. A. m. k. frá sjónarmiði þeirra, sem vel halda á málstað bændanna, er þetta svo sjálfsagður hlutur, að ekki þarf um það að deila.

Ég vil þá víkja að brtt. hv. 9. landsk., sem þegar er búið að andmæla. Hv. þm. þykir það ekki nóg að taka af bændum ákvörðunarrétt, því það er sjáanlegt, að með þessum till. hans er bæjarmönnum fengið það vald í hendur að geta ógnað framleiðlsufélögum bænda um það, að lækka verðið, og ef þeir ekki gera það, þá sýna þeim í tvo heimana með því að taka bæjarverzlunina frá þeim með samtökum sín á milli. Þetta er allt á sömu bókina lært hjá þessum hv. þm., sem er eins og útspýtt hundskinn, þegar um það er að ræða að vernda eins og hægt er hagsmuni bænda. Ég hefi það t. d. fyrir satt, að hann hafi farið til kjötverðlagsnefndar og heimtað með rosta miklum, að hún lækkaði kjötverðið, en formaður kjötverðlagsnefndar mun ekki hafa verið eins eftirlátssamur og formaður mjólkursöluverðlagsnefndar.