05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

27. mál, sláturfjárafurðir

Jón Sigurðsson:

Ég hefi nú ekkert lagt til mála í þeim umr., sem hér hafa farið fram. Ég skal taka það fram, að ég lít á þetta mál sem eitt af mestu nauðsynjamálum bænda, sem beri að leggja sérstaka alúð við á þessu þingi. Þetta mál er heldur ekki allskostar nýtt; það var undirbúið á síðasta þingi og rætt að nokkru og hefir síðan fengið undirbúning milli þinga. Það mætti því ætla, að málið væri nokkuð hugsað og rætt, enda er það svo, að menn greinir raunveruleg, ekki á um höfuðatriðin, heldur frekar um smærri fyrirkomulagsatriði, sem ekki er nema eðlilegt í sjálfu sér, vegna margskonar viðhorfs. En þó eru það viss skilyrði, sem verður að gera til slíkrar löggjafar, t. d. það, að þetta skipulag, sem á að gilda fyrir allt landið, setji ekki framleiðendum og öðum svo þröngan stakk, að það leyfi ekki eðlilega framþróun. Nú er það svo, að sum atriðin, sérstaklega það, sem um ræðir í 3. gr., eru þannig, að mér virðist næsta hæpið, að þau geti staðizt til lengdar. Það er komið inn á þetta í till. tveggja landbnm. og gerðar breyt. á því. Ég varð satt að segja dálítið hissa á því, hvað þessi till. fékk óblíðar undirtektir. Það stendur svo hér í 3. gr.: „Leyfi skal veitt lögskráðum samvinnufélögum, sem nú eru starfandi, svo og þeim samvinnufélögum, sem stofnuð kunna að verða á viðskiptasvæðum félaga, sem hætta störfum án þess að bændur á viðskiptasvæðinu gerist meðlimir annara félaga“.

Hér er félagsskap bænda sniðinn sá stakkur, að aðeins geti þau félög komið til greina, sem starfandi eru, þegar þessi löggjöf er sett, eða þá í öðru lagi félög, sem rísa upp að einhverju leyti á rústum annara félaga. En vel má hugsa sér og viðbúið, að samvinnufélög bænda rísi upp án þess að þetta eigi sér stað. Við getum hugsað okkur, að verzlun leggist niður á einum stað og að þeir menn, sem skipt hafa við þá verzlun, óski að mynda með sér samvinnufélag, kaupi hús verzlunarinnar og þar með þá aðstöðu til slátrunar, sem hún hafði. En þessi félagsskapur mundi samkv. frv. vera útilokaður. Þetta veit ég reyndar, að ekki er meiningin, a. m. k. hefir frsm. í viðtali skýrt mér frá, að ekki ætti að útiloka þessi félög og að n. mundi veita undanþágur. En úr því það er ekki meiningin, að sníða stakkinn svona þröngan, því þá ekki að breyta löggjöfinni í það horf, að sú n., sem á að framkvæma hana, þurfi ekki alltaf öðruhverju að vera að brjóta hana. Þetta er í raun og veru ekki nema sjálfsagður hlutur, sem ætti að ná fram að ganga. Það er líka meira en hugsanlegt, að stór hópur bænda, sem á erfiða aðstöðu til að sækja á þann verzlunarstað, sem þeir hafa sótt, vilji gjarnan koma upp slátrunarhúsi fyrir sig, en þeir hafa ekki rétt til þess, samkv. þessum l. Ég skal að vísu játa, að það er alls ekki æskilegt, að örfáir menn fari að hlaupa til og gera slíkt, enda mætti slá varnagla við því, en ég tel, að ef fjölmennur hópur bænda teldi hagsmunamál að koma sér upp skýli til slátrunar, þá væri meiningarleysa að l. settu alveg stein í götu þess, og þá álít ég, þar sem mér hefir skilizt á hv. frsm. það heldur ekki vera meiningin, að léttara sé að taka afleiðingum af því og breyta þessari gr. í það horf, að þessi félagsskapur sé ekki útilokaður.

Ég ætla svo ekki að blanda mér inn í þessar umr. frekar, eða gera nánari grein fyrir atkv. mínu. Aðeins vil ég taka undir það, að ef brtt. á þskj. 269 verður samþ., getur farið svo, að kippt verði fótunum undan árangrinum af þessu starfi, sem hér er verið að vinna.