05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég tek aðeins til máls til þess að svara fyrirspurn, sem hefir verið beint til mín. Ég vil í þessu sambandi benda á það, sem hv. á. þm. Reykv. sagði. Hann sagði, að ég hótaði mjólkurstríði, ef lögin yrðu ekki samþ. Þetta er eintómur misskilningur. Ég sagði ekkert í þá átt, heldur sagði ég, að ef til mjólkurstríðs kæmi, þá yrðu þeir undir, sem búa í nágrenni Rvíkur. Ég vil benda hv. þm. á það, að í þessu sambandi beitti hann þeim rökum, sem styðja mitt mál. Hann sagði, að það væri bein leið til gjaldþrots, ef þeir, sem búa í nágrenni Rvíkur, fengju ekki verðlag, sem hrykki fyrir framleiðslukostnaði. - Það var sérstaklega hv. þm. V.-Húnv., sem gagnrýndi þetta -, þeir þyrftu að fá hærra verð úr mjólkursamlaginu en hinir. Hann sagði, að þeir viðurkenni, að þeir þurfi að fá hærra verð úr félagsbúinu heldur en hinir, eins og hv. þdm. heyrðu. (PHalld: Þetta er rangt). Þetta stafar af því, að framleiðslukostnaðurinn er meiri hér en annarsstaðar.

Hv. 5. þm. Reykv. talaði um, hvað ætti til bragðs að taka, ef eitthvað yrði eftir óselt af framleiðslunni. Um þetta er það að segja, að þegar svo stendur á, að framleiðslan selst ekki öll, þá er ýmsum aðferðum beitt, t. d. eins og í Danmörku og Írlandi, þar sem svipað ástand ríkti hvað þetta atriði snertir. Að svo stöddu get ég ekki sagt, hvaða aðferð verður sérstaklega beitt, ef til þess kæmi. Það má benda á ýmsar aðferðir.

Ég vil benda hv. þingi á það, að hv. 5. þm. Reykv. kom fram með þessar hugleiðingar vegna þess, að það upplýstist hjá frsm. meiri hl. í þessu máli, hv. 2. þm. N.-M., að eitthvað væri eftir af birgðum frá því í fyrra. Það þarf grófa meðferð á rökum til þess að staðhæfa, að ef allir markaðir væru frjálsir, þá væru engar leifar eftir á markaðinum; það seldist allt upp, því að verðlagið skapaði sig sjálft, þannig að allt seldist upp. Á markaðinum í fyrra voru nokkrar leifar - að vísu ekki miklar -, og sá markaður var einmitt alveg frjáls. Þeir, sem seldu kjöt á innlendum markaði, fengu sumstaðar lægra verð en þeir, sem seldu á erlendum markaði. Þessi staðhæfing hv. þm. er því alveg út í bláinn. (PHalld: Þetta er misskilningur). Þó svo færi, að eitthvað yrði eftir af birgðum á markaðinum núna, þá sannar það ekkert. Það hefði getað orðið þrátt fyrir það, þó markaðurinn hefði verið frjáls.