05.10.1934
Neðri deild: 2. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (83)

Kosninga fastanefnda

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Út af þessari ósk hv. þm. V.-Húnv. vil ég segja það, að við framsóknarmenn sjáum ekki neina ástæðu til að fjölga í landbn. þessarar d. Það hefir verið fjölgað í landbn. Ed., eins og hv. þm. tók fram, en það mun vera vegna þess, að þar áttu stjórnarandstæðingar aðeins 1 sæti í n., og þess vegna gat Sjálfstfl. ekki gefið Bændafl. kost á að eiga mann í n., nema þar yrði fjölgað. Í landbn. þessarar d. eiga að vera 5 menn, og ef Sjálfstfl. villi sýna Bændafl. eins mikla umhyggju hér eins og í Ed., þá getur hann látið flokkinn hafa annað þeirra sæta, sem hann hefir ráð á í n. En við framsóknarmenn sjáum ekki ástæðu til að fjölga í landbn. þessarar d. upp í 7. Hún virðist vera starfhæf með 5 mönnum, en ef Sjálfstfl. endilega vill hafa þennan litla bróður sinn með í n., þá getur hann látið hann hafa annað sitt sæti.