08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

27. mál, sláturfjárafurðir

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! -Ég veitti því ekki athygli, hvort hv. frsm. n. mælti með till. minni eða ekki. En ég ætla að fara fáum orðum um þessa brtt. mína á þskj. 344.

Ég held, að segja megi, að þetta frv. fái þá fyrst ákveðinn tilgang, ef brtt. verður samþ. Ég fæ ekki séð, að í frv. séu nokkur ákvæði þessu lík, svo að n. sú, sem vald hefir til að stjórna kjötsölunni í landinu, hefir ekkert til að styðjast við. Skil ég ekki, hvernig löggjöfin getur komizt hjá að taka fram í l. það, sem er aðalatriðið, sem sé það, til hvers þau eru fyrst og fremst ætluð.

Ástæðan til þessa ákvæðis míns er sú, að skyndilega er orðin offramleiðsla á kjöti í landinu, þar sem markaðurinn er takmarkaður í öðrum löndum. Tilgangur frv. hlýtur að vera fyrst og fremst sá, að reyna að koma því til leiðar, að hægt sé að forðast afleiðingar þessarar offramleiðslu. Þessar afleiðingar koma fram í verðhruni kjötsins, eða þá, ef verðfall yrði ekki mjög mikið, í því, að birgðir aukast mjög og verða fyrir nýrri framleiðslu. Vara þessi er aðallega framleidd á vissum tíma ársins og er því ekki auðvelt að sjá svo um, að framboð mæti alltaf eftirspurn.

Það er hvergi tekið fram í frv., hvað kjötverðlagsn. eigi að hafa fyrir augum, þó að fram komi um það sinn skilningurinn úr hverri áttinni. Ég heyrði einn hv. þm. segja við 1. umr., að hún ætti að tryggja bændum framleiðsluverð fyrir vöru sína. Ef framleiðsluverð er það, sem hver einstakur bóndi á að fá fyrir vöru sína, þá má segja, að þetta framleiðsluverð sé eins margskonar og bændur eru margir í landinu, eða því sem næst. Mætti því hugsa sér, að átt væri við einskonar meðalframleiðsluverð. En sá væri gallinn á því, að þá væri sumum bændum ekki fullnægt, en aðrir hlytu meira en góðu hófi gegndi, eða a. m. k. svo mikið, að þeir stæðu betur að vígi en hinir. En hvað sem um þetta er, þá væri samt engin trygging fyrir því, að kjötið seldist. Vantar því í frv. það, sem er aðalatriðið, hver tilgangurinn er fyrst og fremst og hvernig n. eigi að fá honum fullnægt. Og úr því leysir brtt. á þskj. 344. Hún leggur n. þá lífsreglu að haga svo verðlagi á kjötinu, að kjötbirgðir í landinu aukist ekki frá ári til árs. - Ég hefi orðið þess var, að ýmsir líta svo á, sem þetta felist í frv., en það er ekki rétt.

Þar sem svona margar skoðanir eru nú á þessu máli, m. a. sú, að allir bændur landsins eigi að fá framleiðsluverð fyrir vöruna, er ekki ónauðsynlegt að kveða skýrt á um þetta. Þessi till. mín tekur jafnt tillit til beggja aðilja, framleiðenda og neytenda, og er því rétt, að löggjafarvaldið og ríkisvaldið hjálpist að til að koma þessu til vegar. Það er augljóst, að ef ekki eru gerðar slíkar ráðstafanir og verð á kjötinu fellur niður fyrir það, sem bændur geta framleitt það fyrir, þá hlýtur framleiðslan sjálf að minnka niður í magn, er samsvarar því verði, sem bændur geta framleitt kjötið fyrir. Þessum voða verður að afstýra. Til þess er slík löggjöf nauðsynleg. Með því yrði þeim höfuðtilgangi náð, að koma í veg fyrir, að verðlag væri spennt svo hátt, að salan minnkaði, en birgðir söfnuðust, sem ekki væri hægt að losna við, nema selja þær langt undir framleiðsluverði. Mér virðist, að n. sú, sem falið er að ákveða verðlag á kjöti, hafi engar forsendur til að fara eftir, ef ekkert er sett um það í lögin. Öll hennar ákvæði verða þá reist í lausu lofti og af handahófi, sem getur verið háð persónulegum hagsmunum nm. sjálfra, sem þeir bera enga persónulega ábyrgð á samkv. l., og engin víti liggja við, þó þeir verði umbjóðendum sínum til tjóns. Ef hún hefir þær reglur, sem hér er bent á, að fara eftir, hefir hún betri aðstöðu, meðan hún brýtur ekki í bága við þær. N. verður að hafa einhvern bakhjarl, einhverja stefnu, einhvern vilja til að fara eftir. Hér er farinn millivegur, sem má telja sanngjarnt, milli seljanda og kaupanda. Á þann hátt einan verður málið leyst með hag alþjóðar fyrir augum.