08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

27. mál, sláturfjárafurðir

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er a. m. k. eitt þýðingarmikið atriði í þessum brtt., þar sem farið er fram á að lækka verðjöfnunargjaldið úr 10 aur. í 8. Þegar um þetta er að ræða, verða hv. þdm. að gera sér ljóst, að þessi lög eru ekki sett fyrir 1-2 eða 3 héruð næst Rvík, heldur fyrir alla bændur landsins, sem ætlazt er til, að njóti góðs af þeim.

Reykjavíkurmarkaðurinn er heldur engin einkaeign þeirra, sem búa í nágrenninu. Það hafa allir notað hann eftir getu, og með bættum samgöngum hefði vitanlega, ef l. hefðu ekki verið sett, þrengzt á þeim markaði, til tjóns fyrir alla, sem hann nota. Ef samvinna á að fást um, hvernig markaðurinn er notaður, má ekki gera verðjöfnunargjaldið að ásteytingarsteini, heldur þarf um það samvinnu allra héraða.

Mér þótti vænt um að heyra, að hv. 2. þm. Árn. horfir ekki í að setja verðjöfnunargjaldið 10 aur. Það verður bændum áreiðanlega ekki til tjóns, því hér er aðeins verið að tryggja, að ekki verði dembt á innlenda markaðinn svo miklu, að verðið hrapi niður úr öllu valdi. Þetta er nokkurskonar líftrygging, sem þeir borga.

Til þess að hv. þdm. sé þetta ljóst, vil ég benda á það, að með þessu lága verðjöfnunargjaldi, sem nú er 6 aurar, þar sem ekki hefir verið notuð 8 aura heimild laganna, verður niðurstaðan sú, að þeir, sem fá leyfi til þess að nota Rvíkur-markaðinn. fá, samkv. upplýsingum frá mönnum, sem ekki er ástæða til þess að rengja, 23 aur. hærra fyrir hvert kg. í ár heldur en í fyrra. En þeir, sem ekki fá að nota innlenda markaðinn, fá minna en í fyrra. Það verður ófrelsi, þegar mönnum er bannað að nota markað, sem gefur betri útkomu en útlendi markaðurinn.

Mér þykir vænt um, að búið er að koma þessu máli í þetta horf hér á hv. Alþ., af því að ég var því fylgjandi, líklega sá eini í mþn., að verðjöfnunargjaldið yrði sett í 10 aur. Í þessu efni er ég sammála þeim mönnum, sem höfðu málið til meðferðar f. h. kaupfélaga landsins á kaupfélagafundi í vetur, og þeim, sem vit hafa á, hvað er bezt í þessu efni. Ég legg eindregið á móti því, að samþ. verði að lækka verðjöfnunargjaldið, og vil ég líka nota tækifærið til þess að skora á þá hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hagnýta sér heimildina að öllu leyti, vil ég og ásaka hana fyrir það, að hún hefir ekki notað sér þá heimild, sem felst í l. um 8 aur. verðjöfnunargjald, því að það er þörf á að gera það til hins ýtrasta.

Hvað brtt. hv. 5. landsk. snertir, álít ég algerlega hættulaust að samþ. hana, því að ég tel hana frekar til bóta. Mætti segja, að hún gangi fullskammt, því að hún fer aðeins fram á heimild handa stj. þessa skipulags til þess að ákveða sláturleyfi. Það mætti deila um, hvort það sé ekki skylda hennar að veita slík sláturleyfi. En það er víst prentvilla í till., því að þetta er sett við í. málsl., en ekki við 4. lið.

Þá er brtt. á þskj. 347. Ég tel vafasamt, ef þessi sláturleyfi eru veitt á annað borð, hvort ekki væri heppilegra að heimila sláturleyfi handa neytendum sjálfum, án þess að stofna til félagsskapar í því skyni.

Hvað snertir brtt. á þskj. 344, finnst mér vafasamt, hvort rétt sé að tala um, að verðlagningu kjötsins eigi að vera þannig háttað, að kjötbirgðirnar í landinu aukist ekki. Mér skilst, að samkv. þessu megi ekki auka kjötneyzluna í landinu, þó þess væri full þörf. Það er slátrað aðallega einu sinni á ári, og þá skapast ákveðið kjötmagn, sem verður að geymast fram á sumar, og ef birgðirnar mega ekki vaxa, þá má heldur ekki auka slátrun eða kjötneyzlu innanlands. Þetta gæti orðið gott fyrir framleiðendur, því að af þessu leiddi verðhækkun kjötsins, en það er einmitt það, sem framleiðendur vantar; þeir þurfa að fá fyrir framleiðslukostnaði. Og ef það fæst ekki á annan hátt en þann, verður að takmarka framleiðsluna og láta eftirspurnina knýja verðið upp. Ef þessi till. á hinsvegar - sem ég býst við - að stefna í þá átt, að fyrirbyggja, að verðið sé sett of hátt, svo að hætta verði á, að kjötið seljist ekki áður en nýja framleiðslan kemur á markaðinn, þá getur það leitt til þess, að verðið verði allt of hátt, og ég tel, eftir því sem þessum málum er skipað af Alþ. og stj., að þá eigi bændur heimtingu á að fá það verð fyrir vöruna, sem framleiðslan krefur, því að stjórn þessara mála er tekin úr höndum framleiðenda sjálfra. Þess vegna hafa bændur fulla heimild til þess að krefjast þess, að ríkisvaldið sjái þeim fyrir hæfilegu verði fyrir vöruna. Ef bændur sjálfir hefðu stjórn þessara mála í sínum höndum, þá gæti ef til vill verið eðlilegt, að fyrirbyggt væri, að það gæti komið fyrir, að ríkisvaldið yrði að bera ábyrgð á fjárframlögum til þeirra fyrir meðferð þessara mála. Þá væri tækifæri fyrir þennan hv. þm. og aðra hv. þm. að taka afstöðu til - eða réttara sagt, hefði verið, því að það er búið að gera það - brtt. okkar hv. 2. landsk. Og þá sé ég ekki betur en að bændur eigi fullan kröfurétt á þessu verði, fyrst málin voru tekin úr þeirra höndum, sem framleiðslukostnaður krefur fyrir þessa vöru; og þá má ekki miða útsöluverð við það eitt, hvort hægt sé að umsetja vöruna á innlendum markaði.

Ég tel þetta veigamesta atriðið í þeim till., sem hér liggja fyrir. Ég vildi láta mína skoðun í ljós, af því að ég hefi tekið þátt í meðferð þessara mála áður en hv. stj. setti lögin um þetta, og ég er viss um, að miðað við það horf, sem verðjöfnunarskatturinn hefir færzt í, eigi það brátt eftir að sýna sig, að þingið verði að fá bændunum sjálfum stjórn þessara mála í þeirra eigin hendur.