08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 728 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

27. mál, sláturfjárafurðir

Jón Sigurðsson:

Ég á brtt. á þskj. 362. Ég get í raun og veru að mestu leyti sleppt að mæla fyrir henni, því að ég gerði þetta atriði að umræðuefni við 2. umr., og þá benti ég á, hvílíkt óréttlæti fælist í þeim ákvæðum að útiloka samvinnufélög, sem kynnu að verða stofnuð eftir að lögin gengju í gildi. Ég sé ekki ástæðu til þess að rekja þetta frekar nú, því að þeir, sem vilja hlusta á rök í þessu máli, höfðu tækifæri til þess þá, og ég sé ekki heldur ástæðu til þess að lengja umr. um þetta. Þess þarf líka síður, þar sem hv. frsm. landbn. hefir gert grein fyrir því, hvað í þessari till. felst, því að ég bar mig saman um þetta atriði við frsm. n., og þessi till. er samin í samráði við hana. Er tillagan tilraun til þess að miðla milli andstæðra skoðana í þessu efni.

Ég fyrir mitt leyti álít það bæði sanngjarnt og rétt, að þau samvinnufélög, sem rísa upp hér eftir, hafi jafnan rétt til þess að slátra fé og selja sláturafurðir samkv. l. eins og félög, sem stofnuð hafa verið áður en þessi l. öðlast gildi. Þar sem þetta hefir þegar verið fellt í hv. d. og mikil andstaða er gegn því, þá kýs ég heldur það minna, ef ekki er hægt að fá það meira. Hér er um heimild að ræða fyrir hv. n., en áður var það skilyrðislaust bann. Þetta er í sjálfu sér ekki stórt atriði, en það er þó réttlætismál, og það er á valdi n. í hvert skipti, hvort hún vill sýna þessum félögum þá sanngirni og réttlæti, sem þau eiga kröfu á.

Ég ætla nú ekki að fjölyrða frekar um þetta, en ég vænti þess, að till. fái svo góðar undirtektir hjá hv. d., að hún verði samþ. Ég geri ekki aðrar till. að umræðuefni, en læt mér nægja að láta afstöðu mína til þeirra í ljós við atkvgr.

Það hafa slæðzt 2 villur inn í brtt. af vangá. Í stað 4. málsl. á að koma 5. málsl., og í stað 3. málsl. komi 4. málsl. Vil ég biðja hæstv. forseta að taka þetta til athugunar. Ég hafði fyrir mér frv. eins og það var í Ed., en ekki eins og það var eftir það. Við þetta hefir málsliðatalan raskazt.