08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 735 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

27. mál, sláturfjárafurðir

Thor Thors:

Ég get raunar verið stuttorður, því hv. þm. Borgf. og hv. 6. þm. Reykv. hafa tekið af mér ómakið að mestu leyti. Hv. 2. þm. Árn. tók því illa, að ég fann að því við hann, að hann vildi ekki gefa okkur flm. brtt. færi á að mæla fyrir þeim áður en hann talaði á móti brtt. Ég hafði vanizt því, að svo væri gert, og þótti því leitt, að jafnprúður maður og þessi hv. þm. er skyldi beita slíku ofurkappi sem hann gerði. Um þau tvö atriði í brtt. okkar, lækkun verðjöfnunargjaldsins og beina sölu, skal ég til viðbótar við það, sem hv. þm. Borgf. hefir sagt, vísa til orða hv. 2. þm. Árn. um, að við eigum sameiginlega að vinna að því að gera sem flesta bændur ánægða með lögin. Nú er það svo, að 3/5 af kjötframleiðslu okkar er selt á innlendum markaði. Ef verðjöfnunargjaldið verður lækkað og gert eins og það var ákveðið í upphafi af afurðasölunefndinni og menn voru búnir að sætta sig við, þá má búast við því, að meiri hluti bænda verði ánægðari en ella. Ég held því, að ekki hafi verið ástæða til að hækka verðjöfnunargjaldið. Ég get ekki betur séð en að hv. 2. þm. Árn., sem er fulltrúi þeirra bænda, sem erfitt eiga með að nota útlendan markað fyrir sitt kjöt, hljóti að geta fallizt á það, að lækkunarstefnan hljóti að vera vinsælli hjá meiri hluta bænda.

Það er mjög einkennilegur ótti hér í hv. d. við beina sölu milli framleiðenda og neytenda. Hún er þó vitanlega til hagræðis fyrir báða aðila. Þeir, sem þannig hafa selt, hafa vissan markað fyrir sína vöru, markað, sem þeir hafa margir notað lengi og þekkja ekki annan eins góðan. Ég get ekki séð, hvaða hætta af því stafar, að þau viðskipti haldi áfram. Ég hygg, að engir bændur séu svo aumir að fara að selja neytendum vöruna fyrir lægra verð heldur en þeir geta fengið fyrir hana í sláturhúsunum. Þegar búið er að ákveða lágmarksverð, getur ekki verið ástæða til að óttast, að kjötið verði selt undir því verði.