08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Þessar umr. snúast að mestu um sömu atriðin aftur og aftur. Ég skal ekki endurtaka mikið af því, sem ég hefi áður um þetta sagt, en verð þó að endurtaka nokkuð. Ég skal taka fram nokkur atriði viðvíkjandi verðjöfnunargjaldinu, og í því sambandi færa fram frekari rök fyrir því, að nauðsynlegt sé að hækka verðjöfnunargjaldið úr 8 aurum á kg. upp í 10 aura, heldur en ég hefi þegar gert.

Ég gat um það áðan, að hækkun á verðjöfnunargjaldinu væri nauðsynleg fyrir þá sök, að þeir, sem hafa orðið að nota útlenda markaðinn og bolað er burt af innlenda markaðinum, fá svo miklu lægra verð fyrir sitt kjöt en þeir, sem selja það á innlendum markaði. Það hefir nú verið tekið til rannsóknar síðustu dagana, hvernig hægt er að jafna það ósamræmi, sem er á milli kjötverðs á útlendum og innlendum markaði. Það er svo fjarri því, að hægt sé að halda uppi þessu skipulagi nema að hafa verðjöfnunargjaldið svona hátt, og það er ekki hægt að varna því, að of mikið kjöt komi á innlenda markaðinn, nema með því, að verðjöfnunargjaldið sé svo hátt, að nokkurt samræmi verði á verðlaginu á útlendum og innlendum markaði. Þess vegna færi ég þau rök fram, að þessi hækkun sé ekki síður gerð fyrir þá, sem nota innlenda markaðinn, heldur en fyrir hina. Þetta er gert til þess, að hægt sé að halda skipulaginu uppi fyrir þá, sem nota innlenda markaðinn og eru í nágrenni kaupstaðanna. Frekari rök tel ég mig ekki þurfa að færa fram fyrir þessu atriði.

Þá er hitt atriðið, sem nokkuð hefir verið minnzt á, og það er sú tilhneiging, sem ég og meiri hl. á þingi hafi til þess að banna fjölgun samvinnufélaga í þeim sveitum, þar sem þau eru fyrir. Ég sýndi fram á, að þar, sem samvinnufélög eru fyrir, er hafa lagað rekstur sinn eftir þeim þörfum, sem fyrir eru á því svæði, sem þau starfa á, þá hefir það ávallt verið frekar til hins verra, bæði fyrir félögin, sem fyrir eru, og neytendurna líka, að ný félög hafi verið stofnuð, því að það hefir einungis valdið því, að slátrunin hefir dreifzt og kostnaðurinn orðið meiri, bæði fyrir neytendur og framleiðendur. Sláturfélag Suðurlands er alveg miðað við það, sem tekið er á móti af kjöti hér í Reykjavík; en hugsum okkur t. d., að annað félag væri stofnað við hliðina á því. Afleiðingin af því yrði vitanlega sú, að minna yrði slátrað hjá Sláturfélagi Suðurlands og reksturinn því hlutfallslega dýrari, og þetta nýja félag yrði því aðeins til þess að auka kostnaðinn, bæði fyrir framleiðendum og neytendum. Hinsvegar hefi ég gengið inn á það, að þar, sem samvinnufélag er ekki fyrir í tilteknu héraði, sé leyfilegt að stofna samvinnufélag til þess að annast um slátrun og dreifingu kjötsins. Þess vegna hefi ég gert brtt. við brtt. hv. 7. landsk., sem hv. 6. þm. Reykv. minntist á og faldi skemmd á þessari till. En skemmdin gengur í þá átt, að ég vil ekki láta stofna samvinnufélag þar, sem samvinnufélag er fyrir og þess er ekki þörf, en yrði aðeins til hins verra. En þar, sem samvinnufél. eru ekki fyrir, geng ég inn á þann milliveg, að leyft sé að stofna samvinnufélag. En það er rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. gat um, að þessi brtt. eins og hún er nú orðuð lítur heldur leiðinlega út. Það eru í henni nokkuð margar millisetningar, og þar sem kemur ein til viðbótar, gerir það að verkum, að till. verður á óþjálu máli.

Þá er þriðja atriðið, sem minnzt hefir verið á í þessu sambandi, og það er beina salan. Það hefir verið minnzt á og því haldið fram, að sá andi ríki hér í þessari hv. d., og þá sérstaklega hjá meiri hl., að leyfa ekki beina sölu, sem sé til hagsbóta bæði fyrir neytendur og framleiðendur. Ég vil taka fram í þessu sambandi, að vöruskipti hafa verið leyfð á þessu hausti og verða vitanlega leyfð framvegis. Þau hafa m. a. tíðkazt mikið í því héraði, sem hv. 6. þm. Reykv. minntist á, Norður-Ísafjarðarsýslu. Í öðru lagi hefir verið leyft á þessu hausti - og nú tekinn af allur vafi með nýju ákvæði í frv. - að selja reykt kjöt beint, og var það sérstaklega gert eftir ósk þeirra manna, sem höfðu framleitt góða vöru; einkum voru það bændur, sem áttu sauði og höfðu orðið þekkta vöru.

Þá vil ég í þriðja lagi taka fram, að í lögunum er heimilað að selja fé á fæti. Þetta er miðað við það, að ef einstakir menn vilja kaupa lifandi kindur og slátra sjálfir, þá geti þeir það samkv. lögunum. Hér er því orðið nokkuð mikið um beina sölu að ræða, en þó að þessu sé þannig fyrir komið, þá er hagnaðurinn af þessari beinu sölu fyrir framleiðendur og neytendur alls ekki mikill peningalega séð, því að, eins og ég hefi bent á, fellur ekki annar kostnaður á í sláturhúsunum en um 5 til 6 aurar á kg., en þaðan geta neytendur fengið kjötið beina leið, og á þann hátt fellur því enginn kostnaður á kjötið til neytendanna, nema smásölukostnaðurinn, sem þeir verða að greiða hvort sem er.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að búðagjaldið var 30%, en hefir nú fyrir tilstilli kjötverðlagsnefndarinnar verið lækkað niður í 15%, og þess vegna er það, að ef maður lítur á verðvísitöluna og athugar verð kjötsins í smásölu, þá sést, að breytingin er engin frá því í fyrra. Nú hefir hv. 6. þm. Reykv. ekki, svo ég viti til, fundið ástæðu til þess að finna að því, þó að þetta fyrirkomulag hafi ríkt, en þetta hefir kjötverðlagsnefndin lagfært, og þó væri sjálfsagt hægt að lagfæra það enn betur, ef búðunum væri fækkað meira. Til þess er vafasöm heimild í frv. eins og það nú liggur fyrir, og fékkst ekki í Ed., að gengið yrði lengra í þá átt en þegar er orðið. Svo það er ekki það, að við viljum halda uppi milliliðaverzlun, heldur að bændur viðurkenni sín félög sem milliliði, þar sem það er nauðsynlegt til þess að geta haldið uppi skipulaginu. Ef bændur hefðu ekki sölufélög, væri ómögulegt að halda skipulaginu uppi.

Í þessu sambandi skal ég benda á, að ef um beina sölu er að ræða fram yfir það, sem þegar er leyft, verða menn vel að athuga það, að allt öðruvísi stendur nú á með beina sölu heldur en var fyrir nokkrum árum. Ef við lítum á verðlag kjötsins fyrir nokkrum árum, þá sjáum við, að það var stöðugt í 5 ár. En fyrir 3 árum, þegar útlendi markaðurinn lokaðist, þá jókst framboðið á innlenda markaðinum, svo verðið á kjötinu hrapaði niður. Vegna þrengsla á erlenda markaðinum og vegna þess, að verðið er hærra á innlenda markaðinum, þá er með meiri frjálsri sölu en þegar hefir verið leyfð hætt við, að of mikið framboð verði á kjötinu og að þeir, sem kjötið selja, neyðist til þess að selja það undir verði. Það er af þessum ástæðum, að ég vil ekki ganga inn á að leyfa meiri beina sölu, vegna þess að það gæti eyðilagt skipulagið.

Það hefir verið bent á, að bændur mundu ekki hafa tilhneigingu til þess að selja kjötið undir því verði, sem kjötverðslagsnefndin setur á það. Í þessu sambandi er alltaf talað um markaðinn eins og hann er hér í Rvík, en því er alveg gleymt, sem ég tók fram áðan, að t. d. úti um land, þar sem sölufélög bænda selja nokkuð af sínu kjöti á erlendum markaði fyrir 60 til 70 aura kg., en hinn hlutann á innlendum markaði fyrir 1 kr. til 1,10 kr. kg., þá vita bændur ekkert, hvað mikið af þeirra kjöti selst á erlendum markaði og hvað mikið á innlendum markaði, og þar af leiðandi vita þeir ekkert, hvað meðalverðið kann að verða, og hugsa sem svo, að það geti borgað sig að selja það fyrir lægra verð á innlenda markaðinum en skráð er, og það verði þó hærra heldur en meðalverðið. Þess vegna mega menn alls ekki tala út frá markaðinum í Rvík, því að úti um land er verðlagið alls ekki fast, og meðalverðið vita menn ekkert um og geta því selt langt undir því verði, sem selst fyrir á innlendum markaði. Þetta stafar allt af því, að menn hugsa þetta einungis út frá markaðinum í Reykjavík.

Ég held, að ég hafi nú svarað því, sem fram hefir komið við þessa umr. Það er um þetta mál eins og flest önnur nokkur ágreiningur, en þó í flestum atriðum ekki mjög stórvægilegur, og skal ég ekki þreyta menn með því að endurtaka það, sem ég hefi áður um þetta sagt, enda tel ég nægileg rök hafa verið færð fyrir því, að brtt. eigi að fella, vegna þess að þær eru til skemmda á frv., nema brtt. frá hv. 9. landsk. Eins og ég tók fram og hv. þm. Borgf. minntist einnig á getur hún kannske orðið til þæginda, en ekki til skemmda, þó að hún sé í sjálfu sér óþörf.

Brtt. frá hv. 7. landsk. hefi ég ekki á móti, ef samþ. verður brtt. við hana, sem ég var að ræða um viðvíkjandi samvinnufélögunum; annars álít ég, að eigi að fella hana, verði mín brtt. ekki samþ.