14.11.1934
Efri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 744 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

27. mál, sláturfjárafurðir

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég verð að segja, að ég varð fyrir vonbrigðum, þegar hæstv. forsrh. andmælti till. minni og taldi hana ófyrirsynju fram komna. Ég átti ekki von á slíkri kveðju frá landbúnaðarráðh. til bændanna, sem hafa búið við nær því eindæma óhagstætt tíðarfar í sumar. Ég hélt, að það mundi anda hlýlegar frá honum í garð þessara manna, þegar reynt var að bæta að nokkru þau skakkaföll, sem þeir hafa orðið fyrir á sölu afurðanna. Ég bjóst ekki við, að þannig yrði tekið á málinu. Ég hélt, að þeir menn, sem voru svo fúsir á að sýna síldveiðimönnunum sanngirni, mundu ekki síður líta á hag bændanna, sem hafa þrælað sjálfir allt sumarið og keypt dýran vinnukraft, en ekki borið úr býtum annað en lítil og léleg hey eftir allt erfiðið. Svo bætist ofan á geysileg verðlækkun á afurðum þeirra í stað verðhækkunar, sem þeir höfðu vænt sér sem árangurs af kjötsölulögunum. Það kom mér á óvart að heyra slíkar undirtektir hjá hæstv. ráðh. Hitt er aðeins undanfærsla, að ekki sé veitt fé til þessa í fjárl. Slík útgjöld yrðu vitanlega tekin í fjárl. eftir á.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að heimildin um styrk til mjólkurbúa hefði reynzt gagnslítil. Mér kemur þetta ókunnuglega fyrir, því að ég veit ekki annað en að fyrrv. stj. hafi veitt þennan styrk, þó að upphæðin sé ekki tiltekin og ekki komin í reikningsuppgerð fjárl. Hann minntist líka á kjötuppbótina samkv. gildandi lögum. Það var kallað eftir skýrslum um söluna, til þess að hægt væri að reikna út, hvað þyrfti að greiða, en þær skýrslur voru ekki komnar þegar ég fór úr stj. En þær skýrslur, sem komið hafa síðan, sýna, að upphæðin er ekki mjög stór, og minni en framlagið til sundhallarinnar, sem stj. var mjög fljót til að lofa að greiða, og nær helmingi lægri en hlutaruppbótin til sjómanna, sem stj. sótti af miklu kappi, að greidd yrði. Mér þykja því mjög furðulegar þessar undirtektir hæstv. ráðh. og mér virðist þær bera vott um skilningsleysi hans á hag þeirra landshluta, sem hér er um að ræða.